Franski landsliðsframherjinn Djibril Cisse er í leikmannahóp Liverpool sem fór til Ítalíu í dag og mætir Juventus í síðari leik liðanna í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu annað kvöld.
Búist hafði verið við að tímabilið væri búið hjá Cisse og ferill hans væri í hættu eftir að hann fótbrotnaði illa 30. október síðastliðinn í leik gegn Blackburn. Sköflungurinn á honum mölbrotnaði og kálfabein einnig og var jafnvel óttast um að ferillinn væri á enda.
Þessi endurkoma hans í leikmannahópinn nú vekur því mikla athygli en leikmaðurinn hefur þó ekki sparkað í bolta í hálft ár.
Rafael Benítez knattspyrnustjóri Liverpool sagði: ,,Cisse byrjar ekki leikinn, en kannski munum við nota hann síðustu 20 mínúturnar eða svo ef okkur vantar eitthvað öðruvísi og hann er fljótur og getur skorað mörk."
,,Hann hefur verið að segja í nokkrar vikur að hann sé tilbúinn, en við vildum fara varlega og vera vissir um að hann sé í lagi."
Steven Gerrard fyrirliði Liverpool missir af leiknum vegna meiðsla og er jafnvel talið líklegt að Xabi Alonso leysi hans stöðu en Alonso fótbrotnaði á nýársdag og var talið að tímabilið væri úti hjá honum. Hann spilaði þó 45 mínútur með varaliðinu í síðustu viku.
Athugasemdir