lau 11. nóvember 2017 09:00
Magnús Már Einarsson
Emil Pálsson til Sandefjord (Staðfest)
Emil Pálsson.
Emil Pálsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Emil Pálsson, miðjumaður FH, hefur gengið til liðs við Sandefjord í Noregi. Þetta staðfesti hann í samtali við Fótbolta.net.

Emil skoðaði aðstæður hjá Sandefjord í síðustu viku og hann hefur nú skrifað undir tveggja ára samning hjá félaginu.

Samningur Emils við FH rennur út um áramót og þá mun hann ganga í raðir Sandefjord.

Hinn 24 ára gamli Emil ólst upp hjá BÍ/Bolungarvík en hann gekk í raðir FH fyrir tímabilið 2011.

Árið 2015 var Emil valinn besti leikmaður Íslandsmótsins. Hann var þá fyrri hluta sumars í láni hjá Fjölni áður en hann sneri aftur í FH og hjálpaði liðinu að landa Íslandsmeistaratitlinum.

Emil skoraði þrjú mörk í 22 deildar og bikarleikjum með FH á nýliðnu tímabili. Samtals hefur hann skorað 30 mörk í 186 deildar og bikarleikjum á ferlinum.

Sandefjord siglir lygnan sjó í 10. sæti í norsku úrvalsdeildinni þegar tvær umferðir eru eftir en Ingvar Jónsson er markvörður liðsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner