fim 21. desember 2017 17:10
Elvar Geir Magnússon
Raggi Sig: Best fyrir mig að fara í annað félag
Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það eru einhver innanbúðar vandamál í gangi sem ég ætti kannski ekki að fara of djúpt í," sagði landsliðsvarnarmaðurinn Ragnar Sigurðsson í viðtali í Akraborginni á X977.

Hann er þar að tala um fjárhagsmálin hjá félagi sínu, Rubin Kazan í Rússlandi. Félagið hefur ekki staðið við launagreiðslur undanfarna mánuði og hefur það haft slæm áhrif á móralinn í hópnum. Liðið er í ellefta sæti.

„Þeir eru ekki að borga og vilja losna við leikmenn sem eru á alltof háum launum, ég er ekki einn af þeim en ég veit ekki hvað er í gangi varðandi mína stöðu. Það hefur sýnt sig á úrslitum og spilamennsku að það fer í móralinn að menn séu ekki að fá borgað. Menn eru að tala um þetta á hverjum einasta degi og það er óþægilegt að vera í þessari óvissu."

Ragnar er á lánssamningi hjá Rubin Kazan frá Fulham og á hálft ár eftir af honum. Hann útilokar það að spila fyrir enska liðið aftur á meðan Slavisa Jokanovic er stjóri þess.

Hann segir að sinn vilji sé að komast í annað félag.

„Ég held að það yrði best fyrir mig persónulega. Ég og umboðsmaðurinn minn erum að vinna í því. Þetta kemur bara í ljós," sagði Ragnar í Akraborginni.
Athugasemdir
banner
banner
banner