Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 04. janúar 2018 17:30
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Frá Mónakó til Eyja - Vill feta í fótspor Kurzawa og Carrasco
Yvan Erichot.
Yvan Erichot.
Mynd: Getty Images
Kurzawa var liðsfélagi Yvan.
Kurzawa var liðsfélagi Yvan.
Mynd: Getty Images
ÍBV varð bikarmeistari í fyrra.
ÍBV varð bikarmeistari í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eyjamenn spila í Evrópudeildinni á komandi tímabili.
Eyjamenn spila í Evrópudeildinni á komandi tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Yvan í leik með Sint-Truiden í Belgíu.
Yvan í leik með Sint-Truiden í Belgíu.
Mynd: Getty Images
Fyrir áramót gekk franski varnarmaðurinn Yvan Erichot til liðs við ÍBV. en hann ólst upp hjá franska stórliðinu Mónakó. Fótbolti.net tók Yvan tali í vikunni og ræddi við hann um leiðina frá Mónakó til Vestmannaeyja.

„Ég gekk í raðir AS Mónakó árið 2005 þegar ég var 15 ára og ég fór í gegnum unglingastarfið þar. Ég varð atvinnumaður þar og var á samningi til ársins 2013 þegar ég fór til Belgíu. Mónakó átti stóran þátt í að byggja upp feril minn sem atvinnumaður í fótbolta," sagði Yvan.

„Ég var í átta ár hjá félaginu og varð vitni að þróun félagsins. Frá því að vera miðlungslið í Ligue 1 eftir velgengni á tíunda áratugnum þar til að liðið féll í Ligue 2. Rússar tóku síðan yfir félagið og lögðu grunninn að þeirri velgengni sem félagið hefur átt að fagna bæði í Frakklandi og Evrópu eftir að ég fór."

„Ég fór 2013 og var á láni árin þar á undan hjá félögum í Frakklandi, Portúgal og Belgíu. Ég náði því ekki að upplifa daga (Kyilian) Mbappe og (Radamel) Falcao hjá félaginu og ég náði ekki að heyra Meistaradeildarlagið á Stade Louis II."


Var með Kurzawa, Germain og Carrasco í unglingaliði
Mónakó hefur búið til marga öfluga leikmenn undanfarin ár og nokkrir liðsfélaga Yvan í unglingaliðunum hafa getið sér gott orð í evrópskum fótbolta undanfarin ár.

„Þrátt fyrir að gengið hafi verið upp og niður þegar ég var ungur leikmaður hjá Mónakó þá hefur félagið alltaf framleitt marga unga leikmenn og margir þeirra eru á toppi ferilsins í dag. Margir liðsfélaga minna í unglingaliðinu er alþjóðlegar stórstjörnur í dag eins og Layvin Kurzawa (PSG), Valere Germain (Marseille) og Yannick Carrasco (Atletico Madrid). Tímabilið 2009/10 æfði ég líka stundum með íslensku goðsögninni Eiði Guðjohnsen þegar hann var eitt tímabil hjá Mónakó."

„Ég er 27 ára núna en hver veit nema ég muni einn daginn vera með Kurzawa, Carrasco eða Germain hjá stóru evrópsku félagi og fá hvatningu frá milljón manns í heiminum. Í augnablikinu hlakka ég hins vegar meira en allt til að fá hvatningu frá stuðningsmönnum á Hásteinsvelli."


Ætlar að vinna deild og bikar með ÍBV
Yvan segist strax hafa verið spenntur að ganga í raðir ÍBV þegar hann heyrði frá félaginu. Hann setur markið mjög hátt með bikarmeisturunum næsta sumar.

„Fyrir utan það að vera mjög fallegt land þá er Ísland með frábæra fótbolta menningu. Stuðningsmennirnir eru ótrúlegir, ekki bara hjá landsliðinu heldur líka hjá félagsliðum. Pepsi-deildin er vaxandi deild og ÍBV er mjög metnaðarfullt félag. Frá fyrstu viðræðum við þjálfara og starfsfólk ÍBV fékk ég mjög góða tilfinningu fyrir því í hvaða átt félagið er að fara. Við viljum vinna deildina og verja bikarinn á næsta tímabili og ég er tilbúinn að spila stórt hlutverk í að ná þessum markmiðum. Við erum miklu betri en staða okkar í deildinni á síðasta tímabili segir til um."

ÍBV spilar í Evrópudeildinni í sumar eftir að hafa orðið bikarmeistari í fyrra. Yvan er spenntur fyrir því að spila í Evrópukeppni.

„Auðvitað er það ennþá meiri áskorun að standa sig vel með liði mínu á alþjóðlegum vettvangi. Þetta verður í fyrsta skipti á ferlinum sem ég spila í Evrópukeppni og að spila þar með ÍBV er eitthvað sem ég hlakka mikið til."

„Að spila í Evrópudeildinni var ekki eina ástæðan fyrir því að ég ákvað að semja við ÍBV þrátt fyrir áhuga hjá nokkrum öðrum félögum í Norður Evrópu. Með þrjá meistaratitla og fimm bikarmeistaratitla þá er ÍBV eitt stærsta félag Íslands. Hópurinn er öflugur og þjálfaraliðið hefur metnaðarfull markmið. Það voru lykilatriðin í því að ég ákvað að velja ÍBV. Evrópudeildin er síðan ísinn ofan á kökuna."


Spenntur fyrir því að sýna fjölskyldunni Ísland
Yvan hefur meðal annars leikið með Sint-Truiden í Belgíu, Leyton Orient á Englandi og Pafos í Grikklandi undanfarin ár. Hann er spenntur fyrir því að búa á Íslandi.

„Ég veit að þetta er mjög lítði land en náttúran er mjög falleg og fólkið er vinalegt og opið. Saga landsins nær aftur til víkingaaldar og fólkið þá fór til Frakklands svo það er kominn tími á að borga þá heimsókn til baka," sagði Yvan og hló.

„Það er mögulega dýrara að lifa á Íslandi en lífsgæðin eru góð. Ég hlakka til að skoða náttúruna í Vestmannaeyjum og fara til Reykjavíkur með fjölskyldu minni frá Frakklandi þegar þau fljúga norður í heimsókn."

Hreifst af landsliðinu, víkingaklappinu og Gumma Ben
Yvan var að sjálfsögðu hrifinn af íslenska landsliðinu á EM í fyrra eins og margir aðrir.

„Eins og flestir utan Íslands þá tók ég sérstaklega eftir íslenska landsliðinu þegar það var á EM í fyrsta skipti í heimalandi mínu á síðasta ári. Auðvitað þekkti ég stjörnuleikmennina eins og Gylfa Sigurðsson og Alfreð Finbogason, sem spilaði í Belgíu eins og ég. Þegar landsliðið sló út England, stuðningsmennirnir tóku víkingaklappið og frægi sjónvarpsmaðurinn varð trylltur eru augnablik sem ég man eftir í tengslum við íslenskan fótbolta."

„Þegar umbðsmaður minn hringdi í vetur og bauð mér að skrifa undir hjá ÍBV þá aflaði ég mér aðeins meiri upplýsinga um íslenskan fótbolta, gæðin í deildinni og svo framvegis. Ég skoðaði á internetinu og horfði á leiki eins og bikarúrslitaleikinn hjá ÍBV gegn Hafnarfirði. Ég ræddi líka við vini mína sem þekkja íslenska boltann."

„Ég sá og heyrði jákvæða hluti. ÍBV og þjálfarinn Kristján Guðmundsson nálguðust þetta á mjög fagmannlegan, metnaðarfullan og ákveðinn hátt og það jók ennþá frekar á þá góðu tilfinningu sem ég hafði fyrir því að spila á Íslandi."

„Ég settist niður og ræddi við fjölskyldu mína um mínar áætlanir og þó að það sé meiri ævintýri að spila á Íslandi en í Frakklandi eða Belgíu þá þurfti ég ekki langan tíma til að sannfæra þau. Ég tel að ég geti staðið mig vel og bætt leik minn ennþá meira hér. Ég get líka hjálpað með reynslunni sem ég hef öðlast á ferli mínum með því að spila í bestu deildunum í nokkrum löndum. Ég hlakka til að þetta ævintýri byrji,"
sagði Yvan að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner