Svava Rós Guðmundsdóttir, kantmaður úr Breiðabliki, hefur gengið til liðs við Röa í Noregi. Svava skrifaði undir eins árs samning við Röa en mbl.is greinir frá þessu.
Hin 22 ára gamla Svava er uppalin í Val en hún hefur leikið með Blikum undanfarin þrjú ár.
Svava hefur verið stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar síðastliðin tvö ár en hún hefur nú samið við Röa sem endaði í fimmta sæti í norsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.
„Ég fór og skoðaði aðstæður fyrir jól, æfði með liðinu og þetta leit allt mjög vel út. Ég er reyndar svo góðu vön hérna heima að geta æft inni og slíkt enda Breiðablik með mjög góða aðstöðu, en þetta leit mjög vel út,“ sagði Svava Rós við mbl.is.
Svava á að baki sex landsleiki en hún var ekki í hópnum sem fór á EM í Hollandi í sumar.
Fimm leikmenn hafa farið frá Breiðabliki í atvinnumennsku frá því síðastliðið sumar en auk Svövu fór Fanndís Friðriksdóttir til Marseille í Frakklandi, Berglind Björg Þorvaldsdóttir fór til Verona á Ítalíu, Rakel Hönnudóttir samdi við Limhamn Bunkeflo 07 í Svíþjóð og Ingibjörg Sigurðardóttir við Djurgården þar í landi.
Athugasemdir