Jónas Karl Þórhallsson formaður Knattspyrnudeildar, Aron Jóhannsson og Óli Stefán Flóventsson þjálfari.
Grindavík hefur fengið miðjumanninn Aron Jóhannsson til liðs við sig frá Haukum. Aron skrifaði undir þriggja ára samning hjá Grindavík í dag en hann hafði í haust fengið leyfi til að fara frá Haukum.
Hinn 23 ára gamli Aron hefur verið í lykilhlutverki hjá Haukum undanfarin ár. Árið 2016 var hann valinn besti leikmaður tímabilsins hjá liðinu.
Síðastliðið skoraði Aron þrjú mörk í 21 leik í Inkasso-deildinni þegar Haukar enduðu í 7. sæti.
Samtals hefur Aron skorað tuttugu mörk í 134 deildar og bikarleikjum með Haukum á ferlinum en hann var einungis 16 ára þegar hann spilaði sinn fyrsta leik með liðinu í Pepsi-deildinni árið 2010.
Grindavík endaði í 5. sæti í Pepsi-deildinni í sumar en fyrr í vetur kom framherjinn Jóhann Helgi Hannesson til félagsins frá Þór.
Athugasemdir