Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 08. febrúar 2018 16:10
Elvar Geir Magnússon
Tíu berjast um sæti í stjórn KSÍ - Hver eru helstu málin?
Mynd: Raggi Óla
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Vilhjálmur Siggeirsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á ársþingi KSÍ sem fram fer á laugardag er kosið í fjögur sæti í stjórninni en tíu aðilar að bjóða sig fram. Aldrei áður hafa eins mörg framboð komið í stjórnina eins og nú.

Gísli Gíslason (Akranesi), Ragnhildur Skúladóttir (Reykjavík) og Rúnar V. Arnarson (Reykjanesbæ) bjóða sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu.

Ásgeir Ásgeirsson (Reykjavík), Helga Sjöfn Jóhannesdóttir (Akranesi). Ingi Sigurðsson (Vestmannaeyjum), Ríkharður Daðason (Reykjavík), Sigmar Ingi Sigurðarson (Kópavogi), Valdimar Leó Friðriksson (Mosfellsbæ) og Valgeir Sigurðsson (Garðabæ) bjóða sig einnig fram.

Fótbolti.net sendi tölvupóst á alla þessa tíu aðila og bað þá að nefna þrjú mál sem væru þeim efst í huga fyrir framboðið. Einnig var spurt: Af hverju ættu félögin að kjósa þig frekar en aðra frambjóðendur?

Frambjóðendur þurftu að skila svörunum innan ákveðins ramma til að gera svörin hnitmiðaðri.

Með því að smella á nafn svaranda má sjá ferilskrá sem send var til KSÍ við framboð.



Ragnhildur Skúladóttir

- Frá því að ég tók sæti í stjórn KSÍ hef ég verið formaður unglinganefndar kvenna sem sinnir málefnum yngri landsliða kvenna. Það starf hefur verið bæði skemmtilegt og gefandi, en í kringum þessi lið starfar einstaklega áhugasamt og gott fólk. Ég hef áhuga á að sinna formennsku í þessum málaflokki áfram. Ég hef einnig setið í A landsliðsnefnd kvenna í langan tíma.

- Fræðslumálin þar sem ég hef einnig sinnt formennsku í eru stöðugt í þróun og höfum við verið að bæta við okkur þjálfaragráðum. Á síðasta ári útskrifuðust fyrstu þjálfarar með UEFA Elite Youth gráðu og um síðustu helgi fyrstu markmannsþjálfararnir með UEFA A markmannsþjálfaragráðu. Ýmislegt er í pípunum varðandi frekari þróun í fræðslunni, en íslenskir þjálfarar eru mjög duglegir að sækja sér menntun. Forsvarsmenn félaganna gera sér grein fyrir mikilvægi velmenntaðra þjálfara og hafa stutt þá til að auka við menntunina.

- Fjárhagurinn er ofarlega á baugi og skiptir miklu máli að sambandið þenjist ekki út á þessum uppgangstíma og tel ég að þessum málaflokki sé stýrt af festu. Við þurfum að finna jafnvægi á milli þess að reka sambandið vel og þess að félögin fái sinn skerf af kökunni.

Af hverju ættu félögin að kjósa þig frekar en aðra frambjóðendur?
Það sem helst hefur drifið mig áfram til að sitja í stjórn KSÍ er áhugi minn á öllum hliðum knattspyrnunnar og sjá að starfið í hreyfingunni ber árangur. Ég hef setið í stjórn í átta ár og stýrt á þeim tíma tveimur ofangreindum nefndum. Mín menntun og reynsla nýtist vel til þessara starfa, en ég er íþrótta-og lýðheilsufræðingur og hef þjálfað allan aldur og einnig landslið. Ég hef áhuga og metnað til að starfa áfram fyrir sambandið.



Gísli Gíslason

Á vettvangi KSÍ er starfið margt og verkefnin fjölbreytt, en nefna má eftirfarandi:

a) Stuðningur við starf og innviði félaganna.
b) Aðstoð við framþróun mannvirkjagerðar.
c) Að viðhalda sterkri fjárhagsstöðu KSÍ, því án þeirrar stöðu takmarkast möguleikinn á að sinna þörfum félaganna í takt við fjölgun iðkenda.

Af hverju ættu félögin að kjósa þig frekar en aðra frambjóðendur?
Ég hef verið þátttakandi í knattspyrnu og starfað innan hreyfingarinnar frá sjö ára aldri og síðustu sex ár í stjórn KSÍ, þar sem ég hef stýrt nefndum og sinnt fjölda verkefna. Íslensk knattspyrna, kvenna og karla hefur aldrei staðið betur. Það er áskorun að taka þátt í að styðja íslenska félagslið og landslið til frekari afreka um leið og staðinn er vörður um uppeldisgildi og afreksstarf. Í það verkefni er ég reiðubúinn að leggja þekkingu mína, reynslu og orku, þannig að nýtist iðkendum, en ekki síður þeim ótrúlega fjölda sjálfboðaliða sem halda starfi félaganna jafn blómlegu og raun ber vitni.



Ríkharður Daðason

- Ég vil treysta enn frekar samskipti Knattspyrnusambands við félögin. Það er mikilvægt að stjórn sé stöðugt í góðum tengslum við félögin. Það er mikilvægt að traust ríki á milli þessara aðila því öll viljum við veg knattspyrnunnar sem mestan.

- Ég hef verið þeirrar ánægju aðnjótandi að starfa í landsliðsnefnd A-landsliðsins undanfarið ár og vil gjarna áfram leggja mitt að mörkum til að viðhalda og bæta enn frekar þann einstaka liðsanda sem þjálfurum, leikmönnum og starfsfólki hefur tekist að skapa undanfarin ár. Ég er sannfærður um að sú samvinna og fórnfýsi sem einkennir þann hóp sé einstök.

- Ég er fylgjandi tillögu sem stjórn KSÍ hefur lagt fyir ársþingið um hina svokölluðu skosku leið sem hefur það að markmiði að hið opinbera greiði fyrir aukið aðgengi landsbyggðarinnar til höfuðborgarsvæðisins. Ferðakostnaður félaga þaðan er þungur baggi og eðlilegt að stjórn sambandsins beiti sér að fullu fyrir þessari breytingu.

Af hverju ættu félögin að kjósa þig frekar en aðra frambjóðendur?
Það eru tíu mjög frambærilegir frambjóðendur í kjöri til stjórnar. Sitjandi stjórnarmenn hafa staðið sig vel og ég veit að fulltrúar félaganna munu ekki eiga í vandræðum með að velja hæfa fulltrúa í stjórnina.



Rúnar V. Arnarson

Það er af mörgu að taka þegar málefni KSÍ eru annarsvegar. Ég get nefnt:
1. Ferðakostnaður félaga á landsbyggðinni. Það þarf að leyta allra leiða að lækka ferðakostnað og jafna hann.
2. Aukin verkefni fyrir yngri landslið okkar. Þar hallar verulega á miðað við nágrannalöndin. Þarna eru landsliðsfólk framtíðarinnar.
3. Fjölgun áhorfenda í Pepsi-deildunum og knattspyrnunni í heild á Íslandi. Áhorfendum hefur verið að fækka og við því verður að bregðast.

Af hverju ættu félögin að kjósa þig frekar en aðra frambjóðendur?
Ég hef mikla reynslu úr knattspyrnuhreyfingunni. Ég sat í stjórn Knattspyrnudeildar Keflavíkur í 14 ár, þar af 10 ár sem formaður. Hef setið í stjórn KSÍ í 10 ár. Verið formaður landsliðsnefndar A-landsliðs karla lengst af. Setið í Mannvirkjanefnd KSÍ öll árin. Auk þess hef ég verið fjárhagsnefnd, starfshópi stjórnar og fl.



Sigmar Ingi Sigurðarson

- Ég vil að KSÍ efli markaðsstarf sitt með það að markmiði að breikka tekjustofna þess. Horft verði frekar til erlendra samstarfsaðila með styrki og nýta þannig þann meðbyr sem landsliðin hafa skapað. Þá má auka nýtingu samfélagsmiðla og auka sölu á varningi tengdum landsliðunum.

- Ég vil skoða hvort möguleiki sé á að efstu deildir fái meira sjálfstæði að erlendum fyrirmyndum og hvort rétt væri að fá rétthafa til að halda betur utan um deildirnar með það að markmiði að auka aðsókn og umgjörð. KSÍ gæti þannig betur sinnt öðrum verkefnum og mótum.

- Ég vil að innan sambandsins byggist upp þekking á rekstri og umgjörð knattspyrnufélaga sem geti nýst félögunum og hjálpað þeim þannig að efla innra starf sitt. Sambandið gæti verið með fræðslu til starfsmanna félaganna, stjórnarmanna og foreldra og verið þeim til stuðnings í ýmmum málefnum sem þau varða.

Af hverju ættu félögin að kjósa þig frekar en aðra frambjóðendur?
Ég býð mig fram þar sem ég tel þörf á nýrri nálgun í stjórn KSÍ. Ég kem ekki fram sem fyrrum stjórnarmaður í félagi heldur sem óháður aðili. Ég er lögfræðingur með MBA gráðu með áherslu á íþróttastjórnun. Ég tel mikilvægt að inn í stjórn komi fólk með ólíkan bakgrunn til þess að hún hafi sem breiðasta skýrskotun. Ég kem af landsbyggðinni og þekki til málefna félaga þaðan. Ég hef einnig reynslu út öllum deildum og úr félögum af öllum stærðargráðum sem leikmaður, þjálfari og foreldri sem ég tel að geti nýst vel inn í stjórn sambandsins.



Ingi Sigurðsson

- Samstarf og samvinna KSÍ og knattspyrnufélaga – KSÍ eru heildarsamtök knattspyrnufélaga í landinu og mikilvægt að samstarf og samvinna við félögin sé virkt. Þar þarf að tryggja að málefni félaganna séu ávallt í endurskoðun til þess að KSÍ geti sem best rækt sitt hlutverk sem heildarsamtök knattspyrnufélaga í landinu.

- Efla áhuga á knattspyrnunni –Vinna að því að efla áhuga yngri iðkenda að stunda knattspyrnu um land allt, þar sem samkeppni um iðkendur eykst stöðugt. Einnig þarf að efla aðsókn að leikjum í deildarkeppnum kvenna og karla með öflugu átaki KSÍ og félaganna í samstarfi við styrktaraðila.

- Fjármál hreyfingarinnar – Treysta fjárhagsgrunn KSÍ og félaganna og huga vel að útgjaldaliðum hjá KSÍ. Á sama tíma og tekjur KSÍ eru góðar þessi misserin þá er það ekki ávísun á tekjur framtíðar. Gjaldahliðin þarf því að vera í stöðugu aðhaldi hverju sinni, og það skilar meiri tekjum til félaganna.

Af hverju ættu félögin að kjósa þig frekar en aðra frambjóðendur?
Ég hef langa reynslu af störfum innan knattspyrnuhreyfingarinnar allt frá yngstu iðkendum og til þeirra elstu, sem sjálfboðaliði, leikmaður, framkvæmdastjóri, þjálfari, stjórnarmaður, foreldri, stuðningsmaður og þekki vel af eigin reynslu hve mikilvæg vinna fer fram í grasrótinni. Ég hef breiða þekkingu sem mun nýtast í hinum mörgu verkefnum sem knattspyrnuhreyfingin þarf að vinna að. Knattspyrna er mitt hjartans mál og ég hef bæði vilja og metnað til að leggja mitt af mörkum, að tryggja knattspyrnufélögum sem best starfsumhverfi hverju sinni, og um leið að halda áfram að stuðla að bættri aðstöðu fyrir iðkendur. KSÍ er og verður þjónustuaðili fyrir knattspyrnufélögin.



Ásgeir Ásgeirsson

- Að brúa betur bilið sem mér finnst vera á milli stjórnar KSÍ og félaganna. Tel það vera nauðsynlegt þar sem þessir aðilar eiga sameiginlega hagsmuni í því að íslensk knattspyrna sé í hæsta gæðaflokki.

- Að þeir fjármunir sem KSÍ hefur til umráða hverju sinni séu betur nýttir til hagsmuna fyrir félögin með beinum hætti

- Að KSÍ í samvinnu við félögin stofni með sér upplýsinga- og þekkgingargrunn þar sem aðildarfélögin geti leitað til vanti þeim upplýsingar, hvort sem er um þjálfun, skipulag eða rekstur. Þekking og reynsla getur týnst fljótt úr félögunum sem og stjórn KSÍ,þegar skipt er um stjórnir og ráð, og þá gæti nýtt fólk leitað í þennan grunn.

Af hverju ættu félögin að kjósa þig frekar en aðra frambjóðendur?
Vegna þeirrar reynslu sem ég hef aflað mér í störfum mínum fyrir knattspyrnudeild Fylkis, bæði fyrir barna- og unglingaráð og sem formaður meistaraflokks ráðs karla árin 2003 - 2005. Einnig sem formaður knattspyrnudeildar árin 2011 – 2015. Þá var ég einnig í stjórn ÍTF á sama tíma og þarf af formaður í 2 ár. Á þessum tíma tel ég mig hafa aflað mér reynslu og þekkingar á rekstri og stjórnun knattspyrnufélaga og þeim viðfangsefnum sem félögin standa frammi fyrir á hverjum degi. Það er markmið mitt að ná fram meiri samvinnu á milli KSÍ og félaganna, báðum aðilum til heilla.



Valgeir Sigurðsson

- Uppbygging knattspyrnunnar í landinu þarf að vera í forgrunni. Iðkun yngri og eldri, karla og kvenna út um allt land er það sem allt annað byggir á. Deildarkeppnir innanlands eru afskiptalitlar og fá ekki næga athygli. Ég vil stórefla það starf og það þarf að einkennast af samvinnu innan hreyfingarinnar. Samvinnu milli KSÍ og félaganna.

- Aukið upplýsingaflæði til félaganna skapar traust. Það þarf að birta sundurliðun í ársreikningum sambandsins bæði hvað varðar tekjur og gjöld. Stærstu sveitarfélög landsins gera þetta nú þegar niður í einstakar færslur og ég vil að knattspyrnuhreyfingin vinni eins. KSÍ, sem fjöldahreyfing, þarf að vera í takt við tímann.

- Bæta þarf þjónustu og samskipti við aðildarfélög að ýmsu leyti í því sambandi eigum við hlusta á þarfir félagana. Mikilvægt er að virkja betur og styðja við hina miklu þekkingu og reynslu sem hefur byggst upp hjá sjálfboðaliðum innan félaganna.

Af hverju ættu félögin að kjósa þig frekar en aðra frambjóðendur?
Ég hef mikla og fjölbreytta reynslu, drifkraft til að fylgja málum eftir og vilja til verka. Ég sinnti uppbyggingu á barna- og unglingastarfi þar sem umfang jókst, gæði í starfinu jukust og árangur með. Þar horfðum við jafnt til stelpna og stráka. Ég tók þátt í að móta afreksstarf til að skila öflugum leikmönnum upp í meistaraflokk og kom að því að auka samstarf við KFG og stofnun Skínanda þannig að iðkendur fengu fleiri tækikfæri. Þarfir og mikilvægi meistaraflokka í samhengi við annað starf þekki ég vel. Okkur vantar fólk í stjórn KSÍ þekkir vel daglegar áskoranir félagana og er tilbúið að fylgja þeim eftir.



Helga Sjöfn Jóhannesdóttir

- Ég vil leggja áherslu á mikilvægi þess að stjórn og starfsmenn KSÍ séu í góðu sambandi við félög og félagsmenn og hafi gildi og stefnu KSÍ í virku ferli. Gæði þessa samstarfs hefur mikið að segja um hvort markmið félagsstarfsins náist

- KSÍ þarf að leggja áherslu á jafnrétti innan knattspyrnunnar. Allir eiga jafnan rétt á að stunda knattspyrnu í öruggu umhverfi og hvers kyns misrétti á ekki að líðast innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Ég vil beita mér fyrir því að KSÍ verði fyrirmynd annarra knattspyrnusamtaka á heimsvísu í þessum málaflokki.

- Velgengni landsliða okkar er háð öflugu barna- og unglingastarfi aðildarfélaga þar sem jafnvægi ríkir milli uppeldis- og afreksgilda. Á meðan við njótum uppskeru fyrri ára í formi ævintýralegs árangurs íslensku landsliðanna er nauðsynlegt að styrkja grunnstoðirnar og hlúa vel að knattspyrnustjörnum framtíðarinnar.

Af hverju ættu félögin að kjósa þig frekar en aðra frambjóðendur?
Ég hef mikinn áhuga á framgangi íslenskrar knattspyrnu og tel ég að kraftar mínir gætu nýst vel innan KSÍ. Ég er Skagakona í húð og hár og ólst ég upp í mikilli fótboltamenningu á Akranesi. Knattspyrna hefur alla tíð verið mitt aðal áhugamál og er ég alin upp við sjálfboðaliðastarf einkum innan kvennaknattspyrnunnar. Ég hef spilað með meistaraflokkum ÍA, Stjörnunnar og Vals á mínum ferli, vann Íslands- og bikarmeistaratitla og spilaði með öllum landsliðum Íslands. Ég hef sinnt ýmsum félagsstörfum fyrir íþróttahreyfinguna á Akranesi, m.a. verið varaformaður og síðan fyrsti kvenkyns formaður Íþróttabandalags Akraness í 70 ára sögu bandalagsins.



Valdimar Leó Friðriksson sá sér ekki fært um að svara spurningunum þar sem hann liggur í flensu.
Athugasemdir
banner
banner