Man City leiðir baráttuna um Gibbs-White - Chelsea hefur áhuga á Gyökeres - Watkins til Liverpool?
   lau 07. maí 2005 07:55
Einkaviðtal við Ólaf Kristjánsson þjálfara Fram
Ólafur Kristjánsson
Ólafur Kristjánsson
Þjálfari Fram er Ólafur H. Kristjánsson. Ólafur tók við liðinu á miðju tímabili í fyrra og náði að bjarga þvi frá falli á ótrúlegan hátt þrátt fyrir stórt tap í lokaleiknum. Hann hóf þjálfaraferil sinn hjá AGF í Danmörku þar sem hann var um árabil.

Ólafur gerði það gott sem leikmaður á einnig en á ferli sínum lék hann með FH og KR hér heima, auk AGF í Danmörku. Hann lék með íslenska landsliðinu á þeim tíma. Við hittum Ólaf að máli í vikunni og spurðum hann spjörunum úr



Ertu ánægður með undirbúningstímabilið hjá Fram í ár?
Já mjög ánægður. Þetta er búið að vera virkilega gott og í raun betra en ég þorði að vona.

Ertu búinn að styrkja liðið eins og þú getur eða ætlarðu að fá fleiri leikmenn?
Það er ekki búið að loka fyrir það en eins og staðan er núna er ég samt mjög sáttur með hópinn.

Ef eitthvað kæmi til væri það þá íslenskur leikmaður?
Nei það væri ekki á Íslandi. Ég held að ég sé kominn með hópinn núna sem ég ætla að nota í sumar en það er samt ekki alveg búið að loka fyrir þetta.

Það er frægt að það voru sambönd þín í Danmörku sem skiluðu Tommy Nielsen og Allan Borgvardt til FH og þetta eru nú tveir af bestu mönnum sem hafa spilað hérna. Hvernig eru nýju dönsku leikmennirnir hjá Fram miðað við þá?
Góð spurning! Ég sagði það á sínum tíma þegar ég ætlaði mér að ná í leikmenn frá Danmörku að þeir yrðu að vera í svipuðum klassa og Allan og Tommy, það hefði ekkert upp á sig að fá menn sem væru ekki betri en þeir sem eru fyrir. Allan og Tommy komu náttúrulega í gegnum mín sambönd en þeir gerðu restina. Þeir voru góðir leikmenn, þeir eru ekki góðir af því ég reddaði þeim. Það er það sama með Hans og Kim, þeir eru góðir leikmenn, en það er þeirra að sýna hversu góðir þeir eru.

Ef maður tekur Allan og Tommy fyrst þá voru þeir báðir í varaliðinu hjá AGF þegar þeir komu til FH sem spilar í fjórðu bestu deildinni í Danmörku. Það er semsagt Superleague, 1. deild, 2. deild og svo þessi Danmarksdeild og þar spiluðu þeir. Á þeim tímapunkti voru hvorugir í byrjunarliðinu hjá AGF. Hans hefur verið að spila leiki með Horsense og í varaliðinu hjá Horsense sem er efsta liðið í 1. deildinni og hann er uppalin í Bröndby og var eitt mesta efni Danmerkur í sínum árgangi. Hann er á svona svipuðu róli og Allan að mörgu leiti, kannski ekki alveg náð að standast þær væntingar sem gerðar voru til hans. Allan var líka mjög öflugur á sínum yngri árum en hefur ekki alveg náð að stíga skrefið til fulls og því eru þeir á svipuðu róli án þess þó að bera þá saman sem leikmenn því annar er náttúrulega miðjumaður og hinn framherji.

Kim Nörholt er að spila núna með Fredericia og er ennþá þeirra leikmaður. Það er lið sem er í efri hlutanum í 1. deildinni og er gríðarlega reynslumikill og hann á að vera með betri mönnum sem eru að spila hér á landi. Sem týpur er ekkert hægt að bera þá saman því þeir eru báðir miðjumenn en Tommy varnarmaður og Allan sóknarmaður en getulega þá eiga þeir að vera svipaðir í getu. (Eftir að viðtalið var tekið kom Kim Hörholt til landsins og er hann byrjaður að spila með Fram innsk; blm)
Hefurðu unnið með þessum mönnum áður?
Nei ég hef ekki unnið með þeim. Ég hef fylgst með Hans því hann er í sama árgangi og unglingaliðið sem ég þjálfaði þegar ég byrjaði hjá AGF þannig að ég hef séð hann margoft áður. Kim spilaði ég sjálfur á móti á sínum tíma og hef því fylgst með honum í gegnum boltann í Danmörku.

Geturðu lýst þeim nánar?
Hans er mjög duglegur miðjumaður. Hann er mjög vinnusamur með góða tækni, það er að segja sendingar, móttökur en hann er ekkert í tvöföldum skærum eða einhverju svoleiðis drasli. Öskufljótur, ákaflega líkamlega sterkur, með frábæran leikskilning og skilar sinni stöðu mjög vel. Hann situr bara á miðjunni, dreifir boltanum vel, vinnur boltann og er svona leikmaður sem er mjög þýðingarmikill en fær ekki alltaf allt hrósið. Ég bind því vonir við það að hann verðir svona leikmaður hjá okkur sem nær að koma á smá jafnvægi á miðjuna.

En Kim hinsvegar er stór, 185 cm held ég að hann sé, 83 kíló, stór og sterkur, örvfættur, góður skotmaður með mjög góða tækni, ágætlega fljótur og er svona miðjumaður sem er bæði að leggja upp og skora. Hann er svona týpísk "tía" sem er fyrir aftan framherjana þannig að ég bind vonir um að hann verði maður sem er bæði að skapa fyrir okkur og skora mörk.

Þeir verða væntanlega byrjunarliðsmenn?
Já við værum ekki að ná í þá ef þeir væru það ekki. En ef það eru einhverjir hjá okkur sem mér sýnist vera betri þá spila þeir auðvitað, það er ekki spurning. Það getur tvennt gerst; annaðhvort ertu að fá leikmenn sem eru framúrskarandi eða þú færð leikmenn sem eru að draga hina þannig að aðrir verði betri og þá er það bara samkeppni um hver er betri hverju sinni. En við værum auðvitað ekki að ná í þá án þess að nota þá.
Hvernig áttu von á að stilla liðinu upp?
Það eiga allir séns ennþá!

En ertu ekkert farinn að sjá þetta fyrir þér?
Jújú

Ekkert sem þú gefur upp?
Nei nei

En þú ert væntanlega kominn með góða hugmynd að þessu?
Já það er kannski hægt að sjá hvernig þetta verður á síðustu leikjum hjá okkur. En ég spila örugglega með fjögurra manna vörn. Ég vil helst hafa liðið mitt þannig að ég geti skipt á milli leikja. Við höfum verið að nota mikið 4-3-3 og 4-5-1 þegar þú verst en ég vil líka hafa möguleikann á því að spila 4-4-2. En það skiptir ekki höfuð máli fyrir mig, það skiptir bara máli hvernig leikurinn er og hvernig þú spilar úr hópnum.

Það er svona það sem þú vinnur útfrá, hvernig fótbolta maður vill spila? Viltu spila með löngum sendingum fram og vinna annan boltann, seinni boltann sem fellur niður. Segjum að það sé það sem þú vilt og þú ákveður það. Svo velurðu í raun kerfið eftir því. Svo geturðu kannski sagt að þú viljir spila með mikla breidd, mikla dýpt og að við spilum boltanum upp. Þá velurðu leikkerfi eftir því. Þannig að það er eiginlega leikstíllinn sem er afgerandi þáttur í þessu.
Skoðarðu þetta þá eftir mótherjanum og ákveður svo hvað þú gerir?
Nei ég vil helst hafa það þannig að leikstíllinn okkar er alltaf alveg eins. Það segir mér ofsalega lítið þegar út í leikinn er komið og að sjá að mótherjinn spilar 4-4-2. Þú ert kannski að horfa á fótbolta í sjónvarpinu og sérð að eitthvað lið stillir upp í 4-4-2, og hvað? Vilja þeir flytja boltann upp með stuttum sendingum eða vilja þeir senda boltann upp og pressa? Það segir mér miklu meira. En ef við mætum til dæmis liði sem spilar á einhvern ákveðinn hátt þá er mjög gott að geta breytt útaf, bæði fyrir leik eða í leiknum.

Þetta fer líka eftir týpunum sem þú hefur eins og núna höfum við fljóta kantara. Til að spila til dæmis 4-3-3 þarftu að hafa fljóta kantara, mann uppi sem getur tekið við boltanum og líka miðjumann sem getur stungið sér. Ef þú hefur ekki þær týpur þá er vonlaust fyrir þig að spila þetta kerfi. Á meðan ég hef svoleiðis leikmenn, þá vil ég reyna að spila það.

En segjum sem svo að ef Andri Fannar eða Ómar eða Rikki eða hver sem er meiðist sem eru þessir fljótu kantarar og sterkur miðjusenter sem maður þarf þá þýðir ekkert að vera að reyna að þröngva öðrum inn í það kerfi. Þá verður maður bara að sætta sig við það og spila kannski 4-4-2. Þannig að hverjir spila, hvernig við spilum og hvernig týpur ég vil nota í ákveðnar stöður er alveg fast mótað í minn haus. Ég er til dæmis kannski með Þórhall og Kristófer í bakvarðarstöðunum og margir segja kannski “geta þeir eitthvað spilað þar?” Tóti er búinn að vera hafsent, hann er búinn að vera senter og á miðjunni. En það er bara af því ég vil hafa bakverði sem geta spilað fótbolta, menn sem geta spilað boltanum og ég vil hafa hafsenta sem geta varist.

Þú staðfestir það þá að Þórhallur verður bakvörður hjá þér í sumar?
Já það eru allar líkur á því. Hann hefur komið vel út í þeirri stöðu, hefur reynslu, getur spilað boltanum frá sér, getur líka varist en það er auðvitað út frá því að við erum með menn í hafsentunum eins og Eggert, sem er reyndar meiddur núna. Við erum með Ross nýja manninn okkar, Kristján Hauksson, Andrés, Ingvar Óla getur líka spilað þarna, þannig að maður verður líka að setja liðið saman út frá því hver annar gæti spilað til dæmis hægri bakvörð og hver gerir það kannski best.

Þá er Tóti kannski að fórna sér þarna þó hann sé mjög ánægður að spila þar og Kristófer líka sem hefur alltaf verið framliggjandi. Svo er Gunni Þór þarna líka sem er ungur strákur, 21 árs strákur, sem getur spilað þarna líka. Þetta er bara pússluspil hverju sinni. Ég vel ekkert liðið, það eru leikmennirnir sem velja það sjálfir.

Hvernig er staðan á Ríkharði Daðasyni?
Hann er allur að skríða saman. Hann er að æfa núna alveg á fullu en hefur ekkert spilað með í leikjum, það hefur svona verið með ráðnum hug. Hann er bara búinn að vera að styrkja sig og hann kemur sterkur inn í sumar. Það er ekki spurning, góður leikmaður sem uppfyllir þær kröfur sem ég geri til.

Hann hefur kannski ekki sýnt neina snilldartakta síðan hann kom hingað heim úr atvinnumennskunni?
Nei… hvað var hann að skora 6-7 mörk í fyrra? (Hann skoraði 7 mörk, 4 úr vítum í 14 leikjum, innsk: blm) Reyndar slatta úr vítum, en hann lenti auðvitað í meiðslum seinni hluta sumars í fyrra og það dró aðeins úr hans frammistöðu. En hann skilar sínu. Það getur vel verið að mönnum finnist hann ekki vera að skora eins og hann gerði áður en hann fór út en hann hefur leikreynslu og áhrif á hópinn þannig að ég er alls ekki óánægður með það.

Þú tókst við liðinu um mitt sumar í fyrra, ekki með þitt lið en núna ertu kominn með það, hverjar eru væntingarnar?
Væntingarnar eru annarsvegar væntingar til leiksins, hvernig við spilum og svo eru það náttúrulega væntingar til árangursins. Eins og þú segir þá kem ég inn og þá er annar búinn að vera með liðið og það er bara eins og að slökkva eld. Þá þarftu bara að koma jafnvægi á hlutina og fá það til að virka í stuttan tíma.

Núna er náttúrulega búið að vera undirbúningstímabil og þá hef ég getað mótað liðið og væntingarnar til þess eru þær að við spilum fótbolta eins og ég vil sjá fótbolta spilaðann. Það er ákveðið ferli, það er langt ferli. Ef það heppnast hvernig ég vil spila þá trúi ég að árangurinn komi. Þannig að ég hef tröllatrú á því hvernig ég vil spila fótbolta.

Ef maður kemur til liðs sem er búið að vera í botnbaráttu í nokkur ár þá er kannski ekki raunhæft að segja að við ætlum að vera í toppbaráttunni núna en það er ekki spurning að við ætlum í toppbaráttuna. Með þennan mannskap og þetta lið þá segjum við kannski að raunhæft markmið sé 4-7, ef allt gengur á afturfótunum þá liggjum við kannski í 6-8 og ef allt gengur upp þá liggjum við kannski í 2-4. Þannig að ef allt er eðlilegt 4-7, ef allt er í rugli, hlutirnir eru stöngin út en ekki stöngin inn þá er það kannski 6-8 en ef hlutirnir ganga upp þá er það 1.... nei 2-4.
Ertu að finna væntingar frá stuðningsmönnum líka, er pressa á þér?
Tjahh, nei pressan er ekkert frá stuðningsmönnunum, pressan er frá mér sjálfum og á hópinn. Ef maður er að nota svona mikinn tíma í þetta, bæði tíma og peninga og annað að þá vill maður sjá árangur. Mér finnst það bara gott ef að menn vilja árangur, það er bara af hinum góða. Þetta eru bara 18 leikir, mætum hverju liði tvisvar sinnum og það er svo stutt á milli liðanna þannig að það getur allt gerst.

Finnst þér þetta vera of lítið, myndirðu vilja fjölga í deildinni?
Já ég myndi vilja fjölga í deildinni. Þú sérð það að við spilum sex leiki á stuttum tíma. Í kringum 17. júní ertu að spila 6. umferð og þú byrjar 16. maí. Á 4 og hálfri – 5 vikum ertu að spila 1/3 af mótinu. Það er náttúrulega ekkert eðlilegt, það er mjög óeðlilegt en auðvitað kemur bikar inní og annað. En ég sé ekkert að því að spila lengur á haustin. Ég sé ekkert að því að spila fram í byrjun október og ef í harðbakkan slær að þá hefurðu alltaf hallirnar. Það eru tveir möguleikar, að spila lengur eða byrja fyrr eða segja að við spilum fyrstu 4. umferðirnar inní höll.

Nú erum við einmitt að sjá að Deildabikarinn er spilaður úti núna strax
Jájá, eða á þeim gervigrasvöllum sem eru komnir. Ég kaupi það ekki að það sé ekki hægt að raða upp deild með 12, 14 liðum þessvegna. 14 lið 26 leikir, 12 lið, 22 leikir. 14 liða deild er kannski of stórt skref svona til að byrja með en ég held að það sé alveg hægt að ráða við 12 liða deild. Ekkert mál að ráða við það.

Þú telur að það séu alveg 2 lið í 1. deildinni sem geta vel spilað í efstu deild?
Já ég held að það myndi bara auka breiddina. Þá spilum við fleiri leiki og lengjum mótið. Við erum að sjá bestu liðin í 1. deild, lið eins og Breiðablik standa upp í hárinu á úrvalsdeildarliðunum og fleiri lið, HK, bara af því sem ég hef séð. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu.
Hvernig sérðu mótið í sumar fyrir þér með hin liðin? Hverjir verða í toppbaráttu og hverjir við það að falla?
Miðað við mannskap og annað þá á lið eins og FH að vera í tveimur efstu sætunum, það er ekki spurning. KR-ingar eru auðvitað, með sterkan mannskap, þeir eiga að vera þarna í toppbaráttunni og Fylkir. Þetta eru þau þrjú lið svona miðað við síðustu ár og mannskap og svona sem eiga að vera í toppbaráttunni. Svo er eitt lið sem kemur á óvart jákvætt og eitt lið sem kemur á óvart í hina áttina. Það gætu verið 7-8 lið sem væru að berjast um að falla ekki en á pappírunum eru það þessi 2-3 lið sem eiga að vera sterkust.

Sérðu ekkert Valsarana þarna, það eru margir sem spá þeim velgengni í sumar?
Ja ég meina… svo geturðu flokkað þessi 7 lið sem eftir eru í tvo hluta. Valur eru kannski hvað líklegastir af þeim liðum til að vera í topp 4 en þeir eru að koma upp úr 1. deild, eru búnir að fá haug af mönnum þannig að leyfum þeim aðeins að spila mótið áður en við förum að spá. En það er engin spurning að þeir eru búnir að standa sig vel á undirbúningstímabilinu, en það hafa fleiri lið gert og mörg þeirra mjög vel.

Í lok síðasta sumars þá varst þú með Fram liðið, skíttapaðir fyrir Keflavík, þínir gömlu menn í FH að verða Íslandsmeistarar fyrir Norðan, hvernig var þér innanbrjósts?
Ég var auðvitað hundfúll að tapa fyrir Keflavík. Hundfúll alveg eins og við töpuðum þessu. Við vorum okkur þarna á vissan hátt til skammar. Þannig að í raun og veru það að FH skildi verða Íslandsmeistari, ég gladdist í raun og veru ekkert yfir því vegna þess að það var annað sem skyggði á það.

En þegar ljóst var orðið að við vorum uppi og FH var orðið Íslandsmeistari þá varð ég auðvitað mjög glaður. En ef KA hefði jafnað fyrir norðan þá hefðum við getað verið í tómu tjóni en aðal málið fyrir mér var hvernig við spiluðum úr þessu. Við hefðum getað klárað þetta sjálfir en gerðum það ekki og það var það sem skyggði á allt annað.

Grétar Hjartarson skoraði markið sem felldi Víkinga og bjargaði ykkur frá falli, hann hefur ekkert fengið þakkir frá ykkur? Höfðuð þið ekkert samband við hann?
Nei nei, ég ætlast bara til þess að þegar menn eru að spila að þó það sé ekkert undir hjá liðunum að þá leggji menn sig 100% fram. Ég myndi aldrei fara að spila og ekki ætlast til þess að spila til sigurs. Sama hversu lítið er í húfi, þó að lið séu búin að bjarga sér frá falli og annað. Ef við hefðum átt FH í síðasta leik og FH hefði þurft að vinna okkur þá hefði ég aldrei farið öðruvísi inn í leikinn en með það markmið að sigra FH. Þó það hefði kostað þá Íslandsmeistaratitilinn, þá getur maður ekkert gert fyrir hin liðin, þau verða bara að vinna fyrir sínu sjálf.
Hverjir býstu við að verði lykilmenn í þínu liði í sumar?
Það er náttúrulega Gunni í markinu, hann á að geta fylgt eftir góðu tímabili í fyrra og hann verður einn af okkar lykilmönnum. Svo eru það strákar eins og Þórhallur sem er kominn nýr til okkar og Danirnir, þeir eiga að vera lykilmenn. Svo er það Rikki, ef hann er í stuði þá verður hann einn af lykilmönnunum. Svo eru strákar þarna sem eru mjög efnilegir en vantar örlítið uppá að verða góðir, Andri Fannar, Andri Steinn. Ingvar Óla er auðvitað líka lykilmaður hjá okkur. Þannig að benda á einhverja 2-3 er voðalega erfitt.

En eru einhverjir efnilegir í Framliðinu sem verður spennandi að fylgjast með?
Já það eru þarna strákar sem eru búnir að vera að gera mjög góða hluti. Nú Eggert er lykilmaður hjá okkur þegar hann er í standi. Svo er það Heiðar Geir Júlíusson sem er enn í 2. flokki, Kristján Hauksson er líka í 2. flokki, búinn að vera að spila geysilega vel. Svo er það strákur eins og Andri Fannar. Það er strákur með alveg ótrúlega hæfileika en hann hefur ekki alveg náð að nýta þá. Ég á von á því að hann verði betri en í fyrra. Hann hefur unnið gríðarlega vel úr sínum málum og ég er búinn að færa hann út á kant, búinn að reyna að gera kantara úr honum. Hann hefur hraða og með fínar sendingar. Þannig að ég er ekki í vafa um það að hann á möguleika á því að koma vel út.
Það var orðrómur um það í vetur að Stig Töfting væri á leið í Fram, var eitthvað til í þessu, hafðirðu samband við hann?
Ég talaði við Stig já.

Var hann jákvæður á að koma til Íslands?
Já hann er opinn fyrir öllu . Það var bara það að Hacken kom með rosalega gott tilboð og hann gerði 9 mánaða samning þar.

Hefði hann ekkert verið of dýr ef Hacken hefði ekki komið til?
Hann hefði að sjálfsögðu orðið dýr en ekkert of dýr. Það hefði alltaf verið hægt að græja það einhvernveginn.

Þannig að við sjáum hann kannski bara hérna næsta sumar?
Jaa… ég meina þetta er maður sem ég þekki mjög vel og hann er tilbúinn að prófa ýmislegt. Hann er búinn að vera í Kína og núna í Svíþjóð.

Er þetta ekki maður sem myndi pluma sig ágætlega hérna eða er hann búinn?
Nei hann er ekki búinn. Hann er hörku góður. Hann væri ekki búinn að spila alla þessa landsleiki og aðra leiki sem hann hefur spilað ef hann væri ekki hörku góður leikmaður. Hann væri algjör yfirburðamaður í þessari deild ef hann kæmi.

Talandi um dýra leikmenn, hvað finnst þér um launagreiðslur hjá leikmönnum á Íslandi, finnst þér þetta vera orðið of mikið? Er erfitt að kaupa leikmenn á Íslandi vegna hárra launakrafna?
Mér finnst bara ekki vera neitt samræmi á milli gæða og verðs. Þegar ég ber það saman við það sem ég þekki í Skandinavíu þá erum við að borga allt, allt, alltof mikið oft á tíðum. Miðað við það sem gerist og gengur. Bara eins og í sambærilegum deildum, jafnvel sterkari deildum á Norðurlöndunum. Þannig að mér finnst að mörgu leiti að þetta sé komið út í öfgar.

Hvað finnst þér vera miklir peningar?
Það er náttúrulega afstætt. En ég get bara sagt það að meðallaun hjá toppliði í dönsku 1. deildinni, meðallaun, brúttó, eru svona rétt um 100.000 krónur á mánuði. Leikmenn hérna sem kæmust ekki í 1. deildarlið í Danmörku eru margir hverjir að fá hærra kaup en það. Það er náttúrulega er ekki hægt. Það hangir ekki saman. En það hafa verið leikmenn héðan og reynt fyrir sér í Danmörku til dæmis en hafa ekki náð að pluma sig. Það segir söguna, þá eru þeir ekki nógu góðir.

Hver eru meðallaunin hjá Fram miðað við þetta?
Við höfum gert það hjá Fram að við höfum dregið mjög úr öllum greiðslum til leikmanna miðað við hvernig þetta var áður. Þó svo að ég hafi ekki komið að því þá veit ég það. Það hefur dregið mjög úr greiðslum og það er þannig að það eru nánast allir á árangurstengdum tekjum. Ef menn spila geta þeir borið eitthvað úr bítum, ef þeir spila ekki þá bera þeir minna.
Skapar þetta enga óánægju?
Nei ég hef ekki orðið var við það vegna þess að þetta tryggir það að liðið eru með nokkurn veginn sömu útgjöld. Ef einn dettur út þá kemur annar inn, kannski á hærri greiðslum en þá sveiflast þetta ekki jafn mikið. Þá náttúrulega veistu að þú ert að borga mönnunum sem eru að spila og þannig á það náttúrulega að vera.

Þetta er væntanlega ekki svona í dæmi Dananna?
Neinei, það eru kannski fastar greiðslur en minna um einhverja bónusa. Mér finnst það eðlilegt að borga þeim sem spila. Auðvitað æfa hinir jafn mikið, það er ekki spurning. En það er nú einu sinni svo að það eru bara 11 sem spila.

Finnur þú það að leikmenn séu að hugsa mikið um peninga?
Það hefur verið mjög einfalt að ná samningum við þessa stráka sem við höfum verið að semja við. Þeir leikmenn sem við erum að semja við segja bara flestir “Já takk”. Ég hef hinsvegar haft það þannig að þegar ég tala við leikmenn og ég heyri það að það gengur meira út á það hvað hann fær í vasann heldur en metnaðurinn að verða betri að þá slít ég yfirleitt viðræðunum strax.

Hefur þetta verið að gerast núna í vetur?
Já það hefur borið á því. Ég met það svoleiðis að ef ég met síma á 40.000 krónur þá er ég ekki tilbúinn að borga 70.000 krónur fyrir hann. Ég get boðið upp á margt gott. Ég get boðið upp á góða aðstöðu, gott umhverfi – til þess að verða betri, góðar æfingar – til þess að verða betri. Spila í góðu liði – til þess að verða betri. Ef það heppnast, og mennirnir verða betri, þá geta þeir átt möguleika á því að komast eitthvað út í atvinnumennsku. Þá geta þeir farið að hugsa um að græða peninga, en ekki í áhugamennsku á Íslandi.

Þú ert í raun búinn að verðmeta hann áður en þú sest niður með honum?
Já ég veit alveg hvað ég er tilbúinn að teygja mig langt til að ná í einstaka leikmenn. Ef að við setjumst niður og leikmaðurinn vill “þetta” og við erum tilbúnir að borga “þetta” og bilið er of langt á milli þá segjum við bara takk fyrir og gangi þér vel. Það hefur alveg gerst hérna að leikmaður segir að hann vilji fá til dæmis milljón og ég get fengið 2 milljónir “þarna”. Á ég þá að hoppa til og segja “ok, þá færðu 2 milljónir”? Það geri ég ekki.
Verðurðu þá var við að menn séu að ganga á milli félaga?
Það hefur ekki gerst í neinu tilviki hjá okkur, en ég veit alveg af því að menn séu að nota þessa aðferð. En það hafa líka komið leikmenn sem segja bara “við ræðum þetta bara seinna og hvað ég get fengið þarna það kemur málinu ekkert við”. En það virðist vera í gangi núna hjá sumum liðum sem eru orðin örvæntingarfull að þau virðast vera tilbúin að borga nánast hvað sem er fyrir hvern sem er.

Þú ert ekkert að falla í þessa gryfju í leit að leikmönnum? Nei ég er mjög ánægður með hópinn minn í dag en ég er kannski opinn fyrir einum leikmanni í viðbót. Ef það kemur réttur leikmaður á réttu verði, þá slær maður ekkert hendinni á móti því. Ég veit ekkert hvernig það er annarsstaðar en ég hef það þannig að þegar ég er að búa til lið þá segjum við “við erum með þennan, þennan, þennan og þennan, hérna er glompa, hérna er glompa hérna er glompa. Hvernig fyllum við upp í þetta? Eigum við leikmann til að fylla upp í þessa stöðu? Ok, kannski ekki í ár, þá þurfum við kannski að kaupa leikmann.

Ég fer ekkert bara út og segi við þurfum að fá nýjan leikmann, útlending. Svo fáum við kannski fjóra framherja en mig vantar tvo varnarmenn. Þú tekur ekkert þessa fjóra framherja ef þig vantar tvo varnarmenn. Þetta er eins og að byggja hús, þú kaupir ekkert fjórar útidyrahurðir, þú ert bara með eina! Eða ef þú ert með einfaldan bílskúr þá ertu ekkert að kaupa tvær bílskúrshurðir. En ég veit ekkert hvernig þetta er hjá öðrum liðum en ég reyni að vinna eftir þessu.

Hvernig skipuleggur þú þig fyrir æfingar og leiki?
Þegar ég skipulegg eins og með liðið til dæmis þá sé ég bara “ok, ég er með þetta hérna í höndunum” hvernig vil ég spila fótbolta? Hvað í liðinu er gott? Hvar þarf ég að gera breytingar og fá nýja menn og svo framvegis. Hvað þarf ég svo til að geta spilað svona? Svo fer maður bara að vinna í því.

Svo varðandi æfingarnar þá vinn ég þetta eiginlega afturábak. Við byrjum í deildinni 14. maí, ok hvernig ásikomulagi þurfum við að vera í fyrir fyrsta leik. Svo tökum við vikuna fram að fyrsta leik og svo koll af kolli til baka. Það er ákveðin aðferð sem við notum en það þarf að vinna í líkamssþættinum, það þarf að vinna í tækninni og það þarf að vinna í taktíkinni.

Hvenær vinn ég í líkamsþættinum, hvenær vinn ég í tækninni og hvenær vinn ég í taktíkinni? Innan þessara flokka eru svo ákveðnir þættir sem við vinnum í. Í líkamsþættinum er það til dæmis styrkur, hraði og þol og hvenær vinnurðu í hverju? Í taktíkinni það er varnarleikur, það er sóknarleikur, hvað gerum við þegar við missum boltann og hvað gerum við þegar við vinnum boltann? Og í tækninni er það náttúrulega sendingar, móttaka, snúningar með boltann, skot og fleira. Þetta set ég bara niður svo það sé alveg borðleggjandi. Svo skipulegg ég tímabilið, hvenær ætla ég að vinna í hverju og af hverju?

Við byrjum til dæmis í líkamsþættinum og þá byrjum við að vinna í grunnþolinu. Svo förum við yfir í hlaupaþol og tökum styrkinn en þetta fléttast alltaf saman. Svo er ég með fyrirfram ákveðið hvernig ég vil gera þetta en svo þegar ég vel æfingarnar þá er það náttúrulega út frá því hvernig við spilum. Viljum við spila þannig að við spilum boltanum upp, við spilum honumn niður og við spilum honum út. Þá erum við með sendingar æfingar og svo kannski skotæfingu út frá þessu og það er eiginlega svona rauður þráður í gegnum allt sem þú ert að gera. Þannig að taktíkín síast í rauninni líka inní menn í tækninni.

En svo kemurðu kannski á æfingu og ert búinn að skipuleggja eitthvað en þú finnur að við höfum ekki alveg farið nóg og vel í þetta eða hitt, þá breytir maður auðvitað bara útaf. Þetta er ekki þannig að við erum 17 mínútur í þessu, 12 og hálfa í þessu og svo framvegis. Ég held að það sé best þannig að með endurtekningum, endurtekningum, endurtekningum þá síast þetta inn einhversstaðar og við verðum öruggir í því sem við erum að gera. Ég reyni líka mikið að útskýra af hverju við erum að vinna í því sem við erum að vinna í þannig að menn séu meðvitaðir um af hverju við erum að gera ákveðna hluti þannig að menn mæti ekki bara á æfingu án þess að vita hvað þeir eru að fara að gera.

Þetta hefur reynst mér mjög vel að vinna svona. Það veitir mér ákveðið öryggi og ég held að það veiti þeim sem eru að vinna með mér ákveðið öryggi og leikmönnunum ákveðið öryggi líka.
Hvernig er það, ertu að starfa eitthvað með þjálfuninni?
Nei ekki neitt. En það væri til dæmis alveg hægt að vera í hálfu starfi með þessu en ég ætti erfitt með að vera, eins og ég vinn, í fullu starfi. En það væri alveg hægt að vera í hálfu starfi með þessu. Það eru náttúrulega menn sem eru í fullu starfi og ég ber fulla virðingu fyrir því.

Hver eru þín framtíðarmarkmið í þjálfuninni?
Eiga ekki allir sína drauma?

Og hverjir eru þínir?
Núna er það bara að ná góðum árangri með Fram, bæði árangri þannig að við náum árangri í deildinni en líka þannig að við sýnum að við getum spilað góðan, skemmtilegan og árangursíkan fótbolta. Auðvitað bara að verða betri sem þjálfari, og ef maður finnur út úr því og undirbýr sig vel og veit hvað maður vill þá eru fleiri dyr opnar en færar?

Þú byrjaðir þinn þjálfaraferil auðvitað úti, langar þig þangað aftur kannski?
Já ég hef áhuga á því þegar og ef rétta dæmið kemur upp. Það er umhverfi sem passaði mér mjög vel og var mjög gaman að vinna þar.

En ef þér byðist að taka við landsliðinu myndirðu íhuga það?
Ég þori ekki að svara því :)
Athugasemdir
banner
banner