Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   sun 04. mars 2018 15:24
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Pressan eykst á Wenger eftir tap gegn Brighton
Mynd: Getty Images
Stuðningsmenn Arsenal eru búnir að fá nóg.
Stuðningsmenn Arsenal eru búnir að fá nóg.
Mynd: Getty Images
Brighton 2 - 1 Arsenal
1-0 Lewis Dunk ('7 )
2-0 Glenn Murray ('26 )
2-1 Pierre Emerick Aubameyang ('43 )

Það hlýtur að fara að styttast í annan endann á stjóratíð Arsene Wenger hjá Arsenal. Skytturnar þurftu að sætta sig við tap gegn nýliðum Brighton í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Brighton skoraði strax á sjöundu mínútu eftir hornspyrnu. Petr Cech var harðlega gagnrýndur af samfélagsmiðlum en hann kom út úr marki sínu og greip í tómt. Brighton refsaði fyrir það og skoraði miðvörðurinn Lewis Dunk fyrsta markið.

Leikmenn Brighton voru ekki hættir og bættu við öðru marki sínu rétt um 20 mínútum síðar. Laurent Koscielny átti slaka sendingu og aftur refsaði Brighton, en það var Glenn Murray sem skoraði.

Stuttu fyrir markið fékk Anthony Knockaert færi sem honum mistókst að nýta. Staðan hefði því hæglega getað verið verri fyrir gestina frá höfuðborginni á þessum tímapunkti.

Gabonmaðurinn Pierre Emerick Aubameyang, dýrasti leikmaðurinn í sögu Arsenal, minnkaði muninn fyrir hlé eftir góðan undirbúning frá Granit Xhaka. Þarna var Arsenal komið með líflínu.

Arsenal komst hins vegar ekki lengra í seinni hálfleiknum og urðu lokatölur 2-1 fyrir Brighton.

Arsenal-menn um allan heim eru orðnir pirraðir á stöðunni og vilja að gripið verði til aðgerða. Flestir eru á því að kominn sé tími á að Arsene Wenger einbeiti sér að einhverju öðru en að stýra Arsenal, sem er áfram í sjötta sæti 13 stigum frá erkifjendum sínum í Tottenham sem er í fjórða sætinu.

Þetta var mikilvægur sigur fyrir nýliða Brighton sem eru komnir sjö stigum frá fallsæti.



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner