Arsenal hlustar á tilboð í Jesus - Tottenham reynir við Gallagher - Liverpool orðað við varnarmann Frankfurt
   fim 05. maí 2005 21:13
Elvar Geir Magnússon
KR vann Þrótt í úrslitum Deildabikarsins
Bjarnólfur Lárusson ýtir hér við Jens, báðir fengu þeir rautt spjald að launum.
Bjarnólfur Lárusson ýtir hér við Jens, báðir fengu þeir rautt spjald að launum.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Þróttur og KR léku til úrslita í Deildabikar karla í Egilshöllinni í kvöld. Leikurinn lofar góðu fyrir komandi Íslandsmót en fimm mörk litu dagsins ljós og tvö rauð spjöld. KR bar sigur úr býtum 3-2 en sigurmarkið kom fimm mínútum fyrir leikslok og það skoraði góðkunningi Þróttara.

KR stillti fram ungu liði í leiknum og má fastlega reikna með því að byrjunarlið Vesturbæinga í fyrsta leik Íslandsmótinu verði gjörólíkt því sem hóf þennan úrslitaleik.

Snemma leiks lækkaði meðalaldur leikmanna inná vellinum enn frekar en þá fór sóknarmaðurinn Grétar Hjartarson meiddur af velli og inn kom Brynjar O. Bjarnason sem er nýorðinn 17 ára, Brynjar þessi er yngri bróðir Theodórs Elmars sem er á mála hjá Glasgow Celtic í Skotlandi.

Þróttarar hafa verið að leika skemmtilegan fótbolta á undirbúningstímabilinu eins og svo oft áður undir stjórn Ásgeirs Elíassonar. Þeir eru með léttleikandi lið og voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, m.a. átti Páll Einarsson fyrirliði þeirra skalla sem hafnaði í stönginni. Stuðningsmenn KR voru ekki sáttir við gang mála og heimtuðu að leikmenn liðsins færu að vakna af þessum blundi sem sótti að þeim í fyrri hálfleiknum.

Vakningin kom loks á lokamínútu fyrri hálfleiksins en þá fengu KR-ingar hornspyrnu sem þeir hefðu aldrei átt að fá, rangur dómur hjá Magnúsi Þórissyni sem annars stóð sig vel með flautuna. Sigurvin Ólafsson tók hornspyrnuna og rataði hún á Gunnar Einarsson varnarjaxl sem fleygði sér fram og skoraði gott skallamark. Markið kom gegn gangi leiksins.

Í uppbótartíma í fyrri hálfleik sauð síðan allt uppúr í Egilshöllinni, Eysteinn Lárusson Þróttari vildi fá dæmda aukaspyrnu og lenti í ryskingum við Sigurvin Ólafsson. Fleiri leikmenn blönduðu sér í málið og fóru fram allsherjar hrindingar milli manna. Þegar Magnús Þórisson dómari hafði róað menn, að hann hélt, fór hann að ráðfæra sig við aðstoðardómarann. Á meðan fór Jens Elvar Sævarsson leikmaður Þróttar að Bjarnólfi Lárussyni KR-ing til þess eins að reyna að pirra hann. Bjarnólfur sló til Jens sem féll með miklum tilþrifum.

Magnús dómari gerði það rétta í stöðunni og gaf Jens og Bjarnólfi gult spjald, báðir voru komnir með spjald nokkrum mínútum áður og fengu þar með að líta rauða spjaldið. Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleiknum en í seinni hálfleik léku bæði lið því með 10 menn á vellinum.

Seinni hálfleikurinn byrjaði á svipuðum nótum eins og fyrri hálfleikurinn var, Þróttarar voru meira með knöttinn. Það skilaði sér á 56.mínútu þegar Guðfinnur Ómarsson átti hörkuskot fyrir utan teig, boltinn fór í Gunnar Einarsson og breytti þar með um stefnu og endaði í netinu. Guðfinnur fær þó markið skráð á sig en hann hefur verið sterkur í undanförnum leikjum og lofar góðu fyrir komandi Íslandsmót.

Seinni hálfleikurinn var ívið betur spilaður en sá fyrri enda eðlilegt að það taki menn einhvern tíma að koma sér í gang á þessum tíma árs.

Þróttarar tóku forystu á 71.mínútu þegar þeir fengu réttilega dæmda vítaspyrnu. Rétt áður en þeir fengu vítið dæmt hafði Atli Jónasson hinn efnilegi markvörður KR bjargað vel en hann stóð í markinu þar sem Kristján Finnbogason er meiddur.

Það var hinn eldfljóti Gunnar Kristjánsson sem braut á Guðfinni við endimörk vítateigsins og Magnús benti öruggur á punktinn. Páll Einarsson tók spyrnuna, sendi Atla í vitlaust horn og skoraði.

Eftir þetta mark færðist meiri kraftur í KR-inga sem fór ekki úr þeim það sem eftir lifði leiks. Enn einn ungi strákurinn hjá þeim, Skúli Jón Friðgeirsson, kom inn sem varamaður á 72.mínútu en hann er aðeins 16 ára. Skúli var ekki lengi að láta að sér kveða og var aðeins búinn að vera inná í eina mínútu þegar hann vann hornspyrnu. Sigurvin tók hornið og eins og áður í leiknum reyndust spyrnur hans hættulegar. Skúli náði hörkuskalla á markið, boltinn fór í slánna og þar með inn. Staðan orðin jöfn 2-2.

Eftir þetta virtust leikmenn vera að búa sig undir að fara í framlengingu og það gerðu áhorfendur einnig. En fimm mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma gerði Ingvi Sveinsson hryllileg mistök í vörn Þróttara þegar hann seldi sig ódýrt. Boltinn barst til Sigmundar Kristjánssonar sem var ekkert að hika, skaut fallegu skoti að marki og boltinn lá í netinu. Þetta reyndist sigurmarkið í leiknum, Sigmundur er alinn upp hjá Þrótti þannig að dramatíkin var svo sannarlega til staðar í leiknum!

Þróttarar fengu tvö ágætis færi undir lokin til að jafna og knýja fram framlengingu. Henning Jónasson átti laflausan skalla úr góðu færi sem Atli varði auðveldlega og Josef Maruniak skaut framhjá úr fínu færi en báðir komu þeir inn sem varamenn.

Góður sigur KR á Þrótti í þessum skemmtilega úrslitaleik 3-2. Ágæt tilþrif sáust í leiknum og lofar hann góðu fyrir komandi Íslandsmót eins og áður sagði. Sigurvin Ólafsson fyrirliði KR lyfti bikarnum í leikslok en þetta er í þriðja sinn sem KR verður Deildabikarmeistari, þeir hafa því unnið mótið oftast ásamt Skagamönnum.

KR 3-2 Þróttur
1-0 Gunnar Einarsson (45)
1-1 Guðfinnur Ómarsson (56)
1-2 Páll Einarsson (víti 71)
2-2 Skúli Jón Friðgeirsson (73)
3-2 Sigmundur Kristjánsson (85)


KR: Atli Jónasson; Rógvi Jacobsen, Bjarnólfur Lárusson (rautt 45), Sölvi Davíðsson, Sigurvin Ólafsson, Grétar Ólafur Hjartarson (Brynjar Orri Bjarnason 14 (Skúli Jón Friðgeirsson 72)), Gunnar Einarsson, Gunnar Kristjánsson, Arnljótur Ástvaldsson (Vigfús Arnar Jósepsson 62), Sigmundur Kristjánsson, Jökull I Elísabetarson.

Þróttur: Fjalar Þorgeirsson; Sævar Eyjólfsson (Jozef Maruniak 72), Hallur Hallsson (Ingvi Sveinsson 53), Ólafur Tryggvason, Dusan Jaic, Eysteinn Pétur Lárusson, Freyr Karlsson, Páll Einarsson, Guðfinnur Þórir Ómarsson (Henning Eyþór Jónasson 72), Daníel Hafliðason, Jens Elvar Sævarsson (rautt 45).


Hér að neðan eru fleiri myndir en Daníel Rúnarsson ljósmyndari okkar var á vellinum.
Athugasemdir
banner
banner
banner