Guðjón Þórðarson sem í gær sagði óvænt upp starfi sínu sem þjálfari Keflavíkur hafði verið í símaviðtali við DV aðeins 40 mínútum áður en hann sagði starfi sínu lausu en í viðtalinu segir hann ekki á döfinni að yfirgefa Keflavíkurliðið. 40 mínútum síðar mætti Borgar Þór Einarsson lögfræðingur Guðjóns á skrifstofur Rúnars Arnarssonar formanns knattspyrnudeildar Keflavíkur og afhenti honum uppsögn Guðjóns.
Athygli vekur að Guðjón hafi ekki sjálfur sagt skilið við Keflvíkinga heldur réði lögmann til þeirra starfa. Líklega lýsandi um Guðjón sem þekktur er fyrir þau vandræði sem hann kemur sér í. Skemmst er að minnast þess að á mánudag mátti lesa það hér á Fótbolti.net að Guðjón neitar með öllu að ræða við Fótbolta.net í framtíðinni þar sem hann er í fýlu yfir fréttaskrifum okkar frá í vetur.
DV hringdi í Guðjón vegna fréttar í enska blaðinu Evening Post þar sem eins og við greindum frá í gær, Guðjón er sterklega orðaður við elsta knattspyrnufélag heims, Notts County á Englandi. Hér að neðan má sjá hluta af samskiptum blaðamanns og Guðjóns en athygli vekur að þó þetta sé aðeins 40 mínútum fyrir uppsögnina þá virðist Guðjón ekkert vera á förum miðað við ummæli hans í viðtalinu:
Blaðamaður:
Á Evening Post er verið að tala um að þú verðir stjóri félagsins á næstu dögum og að aðeins eigi eftir að ganga frá fjárhagsatriðum samningsins.
Guðjón Þórðarson:
Þetta eru fréttir fyrir mig. Það er alltaf eitthvað nýtt.
Blaðamaður:
Er ekkert til í þessu?
Guðjón Þórðarson:
Ég hef ekki verið í neinu sambandi við einn né neinn á Englandi um eitt né neitt. Ég hef heyrt af þessum áhuga enda verið nefndur til sögunnar en ég hef ekki verið í sambandi við neitt félag.
Blaðamaður:
Þannig að þú ert ekki á förum?
Guðjón Þórðarson:
Það hefur ekki verið á döfinni núna
Blaðamaður:
Þú ert kominn til að vera?
Guðjón Þórðarson:
Ég ætlaði mér að koma bara heim og vera hér heima.
Blaðamaður:
Þú kemur til með að stýra Keflavík í sumar?
Guðjón Þórðarson:
Ég á frekar von á því.
Nánar má lesa úr viðtalinu í DV en miðað við þessi orð Guðjóns er ljóst að annaðhvort vissi hann ekki að hann ætlaði að segja af sér fyrr en strax og hann skellti á blaðamanninn, því það tekur jú sinn tíma að keyra til Keflavíkur og skrifa uppsagnarbréfið, eða að Guðjón Þórðarson er sekur um lygi þegar hann segist ekki vera á förum frá félaginu.
Athugasemdir