Íslandsmeistarar FH hófu titlvörn sína í Bítlabænum Keflavík þar sem bikarmeistararnir tóku á móti þeim. Sömu lið mættust í Meistarakeppn KSÍ fyrir viku síðan og þá sigraði FH nokkuð örugglega 2-0, þennan leik unnu FH-ingar síðan 3-0.
Leikurinn í kvöld fór rólega af stað en FH-ingar réðu þó ferðinni. Þeir spiluðu ágætlega á milli sín án þess að koma sér í gott færi en heimamenn biðu þolinmóðir. Nánast engin færu litu dagsins ljós en þó átti Guðmundur Sævarsson skot sem Ómar Jóhannesson varði vel.
Ómar var vel vakandi í leiknum og varði meðal annars frá Allan Borgvardt og Davíði Viðarssyni auk þess sem hann greip nokkrum sinnum vel inní hættulega bolta.
En á 27. mínútu dró loksins til tíðinda. Auðun Helgason sem átti virkilega góðan leik, sendi langan bolta fram á Tryggva Guðmundsson, hann lék með smá heppni á Guðjón Árna Antoníusson, og skoraði svo með frábæru skoti í fjærhornið. Glæsilega gert frá Tryggva sem var mjög öflugur í leiknum.
Guðmundur Steinarsson fyrirliði Keflvíkinga átti ágæta aukaspyrnu sem Daði Lárusson varði í horn. Upp úr því skapaðist nokkur hætta í vítateig FH sem endaði með því að Heimir Guðjónsson hreinsaði frá. Guðmundur þurfti svo að fara meiddur af leikvelli en það ætti að koma í ljós á morgun hversu alvarleg meiðsli hans eru. Brian O´Callaghan lék í vörn Keflvíkinga og var sterkur í loftinu en vantar þó greinilega upp á formið hjá honum. Það dró verulega af honum þegar leið á leikinn.
Síðari hálfleikur var frekar rólegur og ekkert gerðist á upphafsmínútum hans. Það var ekki fyrr en eftir klukkustundarlangan leik að Guðmundur Sævarsson sendi glæsilega sendingu framhjá Gesti Gylfasyni, Jón Þorgrímur Stefánsson sendi fyrir og Borgvardt skoraði en var réttilega dæmdur rangstæður.
Hólmar Örn Rúnarsson lék svo á varnarmenn FH áður en hann skaut beint á Daða markvörð og Ingvi Rafn Guðmundsson átti svo skot sem Daði hélt vel. Þetta voru einu færi Keflvíkinga í síðari hálfleik og FH-ingar fengu þau ekki mikið fleiri. Jón Þorgrímur átti góðan sprett upp hægri kantinn, hann sendi á Allan sem sneri af sér varnarmann en skaut langt yfir.
Á lokamínútu leiksins tvöfölduðu Íslandsmeistararnir svo forystu sína. Ólafur Páll Snorrason, sem hafði komið inná sem varamaður sendi fyrir markið, sendingin var ætluð Allani en O´Callaghann renndi sér í boltann og skoraði sjálfsmark.
Leikurinn var ágætur á köflum en olli kannski örlítlum vonbrigðum miðað við að þarna voru Íslands- og Bikarmeistararnir að mætast. En það er alltaf skjálfti í mönnum í fyrsta leik og það mun örugglega fara batnandi með dögunum sem líða. Sigurinn var þó of stór og greinilegt var að heimamenn hættu bara á lokamínútunum. 1-0 hefðu verið sanngjörn úrslit en svona er jú blessaður fótboltinn.
Næstu leikir liðanna fara fram næstkomandi sunnudag þegar FH fer aftur á Suðurnesjin en mæta nú Grindavík en Keflvíkingar fljúga til Vestmannaeyja og etja þar kappi við Íþróttabandalagið þar í bæ.
Maður leiksins: Auðun Helgason.
Athugasemdir