„Það er mikil samheldni hjá liðinu og stuðningsmönnum og það verður gaman að sjá leikinn í dag," sagði Martin Keown, fyrrum varnarmaður Arsenal, um íslenska landsliðið en hann lýsir leiknum gegn Nígeríu á BBC í dag.
Ísland getur stigið stórt skref í átt að 16-liða úrslitum með sigri í dag og Keown er spenntur að sjá leikinn.
„Það er smá pressa á þeim. Mér finnst þeir vera sigurstranglegri í dag. Nígeríumenn hafa verið í vandræðum. Ég sá þá spila gegn Englandi fyrir mótið og þeir virkuðu ekki sannfærandi."
„Leikmenn hafa ekki verið að spila í réttum stöðm. Obi Mikel er að spila framarlega á miðjunni og Ighalo er einmanna frammi. Þið þurfið líklega helst að fylgjast með (Victor) Moses. Hann er hraður og kraftmikill. Ég veit ekki hvort (Alex) Iwobi spili en það eru góðar fréttir fyrir ykkur ef hann verður á bekknum."
Lykilatriði að Gylfi spili vel
Keown segir lykilatriði að Gylfi Þór Sigurðsson eigi góðan leik í dag.
„Gylfi getur snúið vörn í sókn. Hann hleypur án bolta og er með gæði. Hann er mikilvægur fyrir ykkur því hann er skapandi og gefur liðinu von. Þið þurfið líklega að skora í dag svo hann verður mikilvægur í dag."
Spáir Íslandi áfram
„Ég held að Ísland fari áfram en þetta er svo jafnt í þessum riðli. Þetta veltur mikið á leiknum milli Íslands og Króatíu. Það á nóg eftir að gerast," sagði Keown og bætti við um íslenska liðið. „Þetta er ótrúlegur árangur. Þið eruð 300 þúsund sem er eins og íbúafjöldi Leicester eða Coventry á Englandi. Allir vilja spila fótbolta og það er yndislegt að sjá þetta,"
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild.
Athugasemdir