
Líklegt þykir að Ísland spili 4-5-1 á nýjan leik gegn Króatíu á morgun. Ísland spilaði það kerfi í 1-0 sigrinum á Króatíu á Laugardalsvelli í fyrra. Ísland spilaði einnig 4-5-1 gegn Argentínu í fyrsta leik á HM en fór síðan í 4-4-2 gegn Nígeríu.
„Við erum ekkert að fara að umturna einhverju. Við vitum alveg hvaða hæfileika króatíska liðið hefur," sagði Heimir aðspurður út í leikskipulagið á morgun.
Miðjumenn Króatíu eru gríðarlega sterkir en þeir spila margir með bestu félagsliðum í heimi. Heimir hafði orð á því í dag.
„Við erum búnir að aðlaga okkur svolítið að þeirra leikstíl. Við höfum breytt áherslunum okkar gegn þeim. Við höfum spilað 4 sinnum gegn þeim á 4 árum. Við teljum okkur vita nokkurnveginn hvar þeirra hættur liggja," sagði Heimir.
„Þeir eru með heimsklassa miðju og miðjumenn og leikirnir gegn þeim vinnast og tapast oft á miðjunni. Við komum með leikplan í huganum þegar við komum hingað og það hefur lítið breyst. Það eru samt auðvitað aðeins öðruvísi áherslur hjá þeim. Zlatko Dalic (þjálfari Króatíu) hefur aðlagað sinn leik að andstæðingunum. Það er nýtt fyrir Króata og það er gaman að fylgjast með honum og sjá hvernig hann vinnur."
Athugasemdir