Mikael á framtíðina fyrir sér. Hann á einn A-landsleik að baki og fimm með yngri landsliðum. Þá hefur hann leikið tvisvar fyrir unglingalandslið Danmerkur.
Mikael Anderson, landsliðsmaður íslenska U21 árs landsliðsins og leikmaður Midtjylland, er á leið til Excelsior í Hollandi á lánssamning. Þetta segja heimildarmenn Fótbolta.net.
Mikael gerði góða hluti á láni hjá Vendsyssel á síðasta tímabili eftir að hafa fengið fá tækifæri hjá Midtjylland.
Mikael fór beint í byrjunarlið Vendsyssel, gerði 6 mörk í 20 leikjum og lék lykilhlutverk í toppbaráttu B-deildarinnar.
Vendsyssel komst í umspil um sæti í efstu deild gegn Lyngby og skoraði Mikael í báðum umspilsleikjunum, sem enduðu 3-1 samanlagt.
Mikael er kantmaður og verður tvítugur um mánaðarmótin. Það verður skemmtilegt að sjá hann í hollenska boltanum en Ögmundur Kristinsson var á mála hjá Excelsior á síðasta tímabili.
Athugasemdir