Ísland rúllaði yfir Möltu 4-1 á Laugardalsvellinum í gærkvöld en íslenska liðið var mikið skipað leikmönnum sem allajafna eru ekki að komast í landsliðið en meiðsli, leikbönn og menn sem gáfu ekki kost á sér olli því.
Ómar Vilhelmsson fréttaritari og ljósmyndari síðunnar spjallaði við nokkra leikmenn íslenska liðsins eftir leik auk þess sem hann tók fjölda mynda á meðan leiknum stóð. Afraksturinn má sjá hér að neðan.
Tryggvi Guðmundsson:
,,Þetta með fyrirliðabandið var bara létt djók. Ég kallaði á Eið Smára og sagði honum að grýta í mig bandinu þegar hann var að fara útaf. En það er mjög gaman og frábært að vera kominn inn í landsliðið aftur og mjög jákvætt að stimpla sig inn með marki. Vonandi er ég ekki hættur með landsliðinu."
,,Ég er sáttur við leikinn og ekki endilega markið mitt bara. Ég tók þátt í miklu og var með fína krossa og lagði upp tvö mörk. Ég var virkilega með í spillinu og er mjög sáttur."
Eiður Smári:
,,Á vissum köflum spiluðum við ágætlega og eins og ég talaði um fyrir leikinn þurfti liðið og þjóðin sigur. Ég vona að fólk hafi skemmt sér mjög vel. Við fengum góðan stuðning og það var meira á vellinum en ég bjóst við. Þetta var frábært."
,,Það reynir svolítið á þolinmæðina þegar ég er með einn á bakinu á mér allan tímann. Ég ætlaði á klósettið í hálfleik og held hann hafi elt mig, nánast. Það er svolítið pirrandi en við náðum að spila ágætlega. Það eina sem var leiðinlegt er að fá mark á sig."
,,Það var mikill kraftur í þessum strákum og sérstaklega Grétari sem kemur með þvílíkann kraft inn í hópinn sem er bara gott mál. Ég gæti nefnt tíu leikmenn til viðbótar sem er mjög gott mál."
Gunnar Heiðar Þorvaldsson:
,,Þetta var frábært, alveg æðislegt. Við þurftum að vinna enda lögðum við allt kapp í að sækja á fullu. Við vorum fúlir eftir Ungverjaleikinn og ætluðum að gera betur. Það var mjög mikilvægt að skora þriðja markið þá opnaðist þetta aftur."
Hannes Þ. Sigurðsson:
,,Það var mjög gaman að fá að taka þátt í þessum leik og virkilega gaman að fá að taka þátt í þessum sigri og að spila fyrsta heimaleikinn var mjög skemmtilegt."
,,Ég er ennþá gjaldgengur í U-21 og er mjög sáttur við þau tækifæri sem ég fæ í þessu liði og hef mjög gaman af því. Það gengur ágætlega úti, það er smá barátta um sæti í liðinu og næsta takmark er að komast inn í liðið aftur. Mér persónulega hefur gengið ágætlega en ekki fengið sæti í liðinu undanfarið. En nú er bara að stimpla sig inn í liðið og setja nokkur mörk."
Athugasemdir