Rúnar Kristinsson er leikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins á upphafi en hann er nú hættur í landsliðinu eins og sjá má hér að neðan. Magnús Már Einarsson og Hörður Snævar Jónsson hittu hann í Belgíu á dögunum þar sem Rúnar leikur með Lokeren. Við spurðum hann út í Lokeren, landsliðsmálin, hvort íslenskur fótbolti sé á réttri leið, golf, Leikni, KR og þjálfaraferil svo eitthvað sé nefnt.
Lokeren er komið með nýjan þjálfara, hvernig lýst þér á?
Mér lýst bara vel á þetta, góður þjálfari, búinn að vera með gott undirbúningstímabil og allir virðast vera í fínu formi. Hann vill að við spilum góðan fótbolta og við erum búnir að reyna að æfa þessa nýju taktík sem við hann ætlar nota, æfa nýjar hlaupaleiðir og nýjar aðferðir við að sækja. Það er allt mjög jákvætt, miklar breytingar frá því sem verið hefur.
Ertu í liðinu?
Ég veit það ekki.
Hvernig hefur þetta verið á undirbúningstímabilinu?
Þjálfarinn er búinn að leyfa öllum að spila jafnmikið nánast, við erum með 25-30 manna hóp og það hafa allir leikmenn fengið að spila nánast jafnmargar mínútur. Hann er bara í einum leik búinn að stilla upp nánast byrjunarliði. Maður veit það ekki fyrr en á leikdag í rauninni hvort maður sé í liðinu eða ekki því það er mun meiri samkeppni um stöður en verið hefur. Yfirleitt hefur maður ekki miklar áhyggjur af því að sleppa í liðið en núna eru nánast tveir menn í allar stöður, sérstaklega á miðjunni og í sókninni og þá eru allir á tánum allavegana. Menn þurfa að vinna vel á æfingum og sýna sitt besta og rétta andlit til að ná árangri.
Þjálfarinn byrjaði á því að spila 4-5-1 eða 4-3-3 eftir því hvernig sem maður lítur á það, varnarlega 4-5-1, sóknarlega 4-3-3. Það gekk ekki alveg nógu vel í fyrstu leikjunum á undirbúningstímabilinu þannig að í síðustu tveimur leikjum hefur hann breytt og spilað 4-4-2 þar sem hann hefur haft demant á miðjunni. Það er búið að reynast ágætlega þannig að ég reikna með að við spilum þannig í fyrsta leik á laugardaginn. (Innskot blaðamanns: Viðtalið var tekið fyrir leikinn sem var gegn Genk. Rúnar var í byrjunarliðinu sem fremsti miðjumaður í 4-4-2 kerfi.)
Hvað með markmið, stefnir liðið á toppbaráttu?
Forsetinn vill að liðið nái einu af fimm efstu sætunum. Hann hefur oft haft miklar væntingar til liðsins sem hafa verið óraunhæfar. Það sem okkur hefur vantað er einhver góður framherji sem skorar mörg mörk og það er það eina sem hefur vantað í liðið. Við erum með mjög gott lið og við þurfum að hafa einn framherja sem skorar mörk, þá getum við blandað okkur í toppbaráttuna.
Og er hann að finnast (Framherjinn)?
Við vorum að fá einn nýjan leikmann (Goran Drulic) núna frá Real Zaragoza á Spáni, Serbi sem á víst að vera mjög góður samkvæmt þjálfaranum. Þjálfarinn þekkir hann mjög vel og keypti hann þess vegna. Hann á að vera mikill markaskorari, maður veit aldrei, hann á eftir að sýna sig og sanna.
Að landsliðinu, nú spilaðir þú síðast á móti Ítalíu í fyrr, ertu endanlega hættur?
Já ég er hættur.
Ef annar landsliðsþjálfarinn myndi hringja í þig myndir þú þá ekki svara kallinu?
Nei ég er hættur, það er alveg á hreinu. Ég tók þá ákvörðun í vor þegar að ég ræddi við Ásgeir að ég myndi ekki gefa kost á mér framar. Ég var búinn að vera mikið meiddur og finnst tími til kominn að hætta. Riðillinn sem er verið að spila núna er langt kominn og mig langaði til að taka þátt í þessu eftir Ítalíuleikinn, taka þá þátt í þessari riðlakeppni og klára hana. Út af því að ég meiddist mjög fljótlega eftir Ítalíulandsleikinn þá var ég lengi að ná mér eftir þau meiðsli. Þegar að það kom að því að ég varð heill þá taldi ég það ekki rétt að spila með landsliðinu. Ég hef algerlega gefið það upp á bátinn.
Ég hef náttúrulega ekki verið með þannig að ég hef ekki séð liðið spila. Ég sá vináttulandsleikinn á móti Ítalíu í sjónvarpinu, það var það eina sem ég hef séð nýlega, það er það eina sem ég get dæmt út frá og þar stóðu allir sig mjög vel. Hinsvegar hefur árangurinn kannski ekki verið eins og menn hafa viljað og úrslitin hafa ekki verið sem skyldi og þá er ekki hægt að segja að það hafi verið mjög gott. Þetta hefur alltaf verið, maður hefur spilað með landsliðinu í hvað, 15 ár, og þetta hefur alltaf verið svona brokkgengt upp og niður. 2-3 góð ár og svo 2-3 léleg í kjölfarið. Vonandi að þessi lægð sem er búin að vera núna sé á enda og liðið fari að sýna sínar réttu hliðar. Við megum ekki gleyma því að Ísland er mjög lítið land og við sjáum alltaf voðalega flottan fótbolta í sjónvarpinu þegar að verið er að sýna enska fótboltann alla daga, spænska, ítalska og þýska allan sólarhringin í íslenska sjónvarpinu svo er ætlast til þess að íslensku strákarnir og íslenska landsliðið spili alveg eins. Það er bara ekki hægt, við erum mjög lítil þjóð og við verðum að reyna að gera það besta úr því sem við höfum.
Væntingarnar hafa alltaf verið miklar á Íslandi, það er alltaf gott að hafa metnað en væntingarnar mega ekki vera meiri en efniviðurinn hjá þjóðinni segir til um.
Hvað er skemmtilegasti leikurinn sem þú hefur spilað með landsliðinu?
Það voru tveir leikir við Frakka á sínum tíma, þar sem við gerðum jafntefli heima 1-1, töpuðum reyndar úti 3-2, það voru tveir eftirminnilegir og skemmtilegir.
Hver er besti leikmaðurinn sem þú hefur spilað með í landsliðinu?
Ég eiginlega get ekki svarað því. Mér finnst voðalega erfitt að dæma hver er bestur og svoleiðis því ég hef spilað með mörgum mjög góðum leikmönnum, frábærum leikmönnum sem ég lít mikið upp til og ég get nefnt Ásgeir Sigurvinsson, Arnór Guðjohnsen, Pétur Pétursson ogAtla Eðvaldsson. Þessir menn eru kannski þeir sem standa upp úr í minningunni. Ég var mjög ungur þegar að ég byrjaði að spila með þeim og menn sem ég leit upp til á þeim árum, allt frábærir leikmenn. Svo í seinni tíð eru leikmenn eins og Eyjólfur Sverrisson og Eiður Smári sem er að standa sig frábærlega í dag og er okkar besti knattspyrnumaður í dag og einn af þeim í gegnum tíðina. Það er voðalega erfitt að taka einhvern einn út úr.
Það getur vel verið að ég fari heim, ég á eitt ár eftir, ég er búinn í lok maí á næsta ári, 2006 og þá sé ég til hvað ég geri. Hvort ég geti verið áfram hér í Belgíu eða hvort ég hætti í fótbolta og flytji heim til Íslands.
Kemur það til greina að spila á Íslandi?
Ég veit það ekki, ef ég fer heim á næsta ári gæti það komið til greina. Ef ég mun vera lengur hér held ég að það komi ekki til greina. Ef ég myndi ná að vera eitt aukaár eftir þetta þá held ég að sá tími sé kominn til að hætta.
Nú telja Leiknismenn sig eiga möguleika á að fá þig, myndir þú spila með Leikni?
Ég get ekki sagt nei við neinu, Leiknir er sá klúbbur sem ég byrjaði hjá og ég hef ennþá taugar til þeirra og alltaf taugar til Breiðholtsins þar sem ég ólst upp. Ég er náttúrulega meira og minna KR-ingur í húð og hár en maður getur aldrei sagt nei. Maður veit aldrei.
Þetta er spurning hvort ég er 37 eða fertugur. Ég hugsa að það sé auðveldara að spila með KR ef ég er 37 og Leikni ef ég er fertugur en ég ætla ekki að vera svo lengi. Það er voðalega erfitt að segja, ég hugsa bara eitt ár fram í tímann ég get ekki hugsað lengra fram í tímann því ég er búinn að vera meiddur, ég er í fínu standi eins og er. Ég veit ekkert hvernig ég verð um jólin eða hvernig ég verð í febrúar og mars því kannski ekki fyrr en þá geti ég ákveðið um framtíðina hvort ég bæði við mig ári hér í Belgíu, hvort ég fái ekki samning áfram eða hvort ég telji minn það þreyttan á fótbolta að mig langi bara að fara að hætta þessu. Þá ákveður maður að flytja heim og þegar að ég ákveð að flytja heim þá kannski spáir maður í það hvort maður ætli að spila heima eða ekki. Ég hugsa ekkert lengra fram í tímann en þetta tímabil.
Hefur þú áhuga á að snúa þér að þjálfun?
Ég hef alveg hugleitt það og það er eitthvað sem ég mun örugglega prófa. Ég einbeiti mér aðeins að fótboltanum, því sem ég er að gera. Ég get ekki gert tvo hluti í einu og mér finnst ágætt að einbeita mér að því að spila og halda mér frískum fyrir liðið mitt í dag og standa mig í því sem ég er að gera. Svo þarf maður að skoða þjálfunarmöguleika þegar þar að kemur.
Já og nei. Já það er það, það eru fleiri lið. Það eru 18 lið í belgísku deildinni en 14 í Noregi, það er meiri breidd en hinsvegar er norska deildin aðeins jafnari því það eru færri lið. Í Belgíu eru alltaf 4-5 lið sem falla strax út því þau eru mjög slök, þú ert alltaf með einhverja farþega innanborðs í deildinni sem reyndar öll lið lenda í að tapa stigum á móti. Fótboltalega séð er kannski meiri bolti í belgíska fótboltanum, það er meiri fótbolti spilaður. Í Noregi líta þeir mikið til Englands og þar er meira um lengri sendingar og meiri baráttu. Vellirnir oft lélegri en hér á meginlandi Evrópu. Tæknilega séð eru menn yfirleitt betri hér en í Noregi.
Hvernig er með íslenska boltann, fylgist þú með þínum gömlu félögum KR og Leikni ennþá?
Ég get nú ekki sagt að ég fylgist mikið með Leikni. Ég kíki annað slagið á stöðuna í deildinni. Ég fylgist mikið með KR, ég hef aðeins minna fylgst með þeim að undanförnu því tölvan mín eyðilagðist og ég gat ekki farið á netið þannig að ég er aðeins búin að missa af því sem búið er að gerast. Ég á nú góða vini og menn innan fjölskyldunar sem starfar innan KR þannig að maður fréttir af því helsta sem er að gerast.
Ég veit það ekki. Ég var að lesa það í Morgunblaðinu í gær að áhorfendafjöldi hefur aukist ár frá ári og það er mjög jákvætt. Hinsvegar hefur árangur liða í Evrópukeppni ekki verið mikill undanfarin ár. Liðin sem hafa orðið meistarar og hafa farið í undankeppni Meistaradeildarinnar þau detta ávallt út úr fyrstu umferð. Eyjamenn detta nú fyrstir út á móti færeysku liði þannig að ef maður getur dæmt út úr því þá er erfitt að segja til um það. Ég held að deildin heima sé ekki mjög sterk í ár, það er bara það sem ég held. Ég hef ekki séð neinn leik en það sem maður les út úr spilunum þá finnst manni það.
Hvernig er dæmigerður dagur hjá þér hér í Belgíu?
Dæmigerður dagur þegar að keppnistímabilið er í gangi og krakkarnir í skólanum þá er ég yfirleitt vaknaður hálf átta á morgnanna og hjálpa til við að koma krökkunum mínum í skólann. Þau þurfa að vera kominn hálf níu í skólann, ég þarf yfirleitt að vera mættur á æfingu klukkan 9 svo það passar akkúrat. Svo erum við að æfa kannski til hádegis, þá fer maður heim og þá getur maður átt rest dagsins með fjölskyldunni. Annars eru oft tvær æfingar á dag þá er maður frá 9 til kannski 5 hálf sex uppi á velli, þá fær maður ekkert að fara heim á milli æfinga. Þá er æfing um morguninn, svo er hádegismatur og svo sitjum við og spjöllum og ræðum málin á milli æfingana og svo er aftur æfing seinni partinn, 3 eða hálf fjögur og þá er maður kominn heim sex og þá er bara kvöldið eftir. Fá sér kvöldmat, koma börnunum í bælið og fara sjálfur að sofa.
Við reynum stundum að fara í golf saman strákarnir, ég, Arnar Viðarsson, Arnar Grétarsson og Marel Baldvinsson. Við förum oft saman allir fjórir í golf, það er okkar helsta áhugamál. Fjölskyldan tekur mestan tíma, ég er með þrjú börn og eins og þú heyrir og sérð þá tekur það sinn tíma (Anja dóttir Rúnars var þarna farinn að leggja sitt til málanna í viðtalinu). Maður þarf að hugsa um þau og það er bara mjög gaman og alltaf nóg að gera á heimilinu.
Talandi um golfið hver er bestur?
Ég er langbestur, þeir geta ekkert þessir gæjar.
Eruð þið með forgjöf allir?
Við erum allir með forgjöf.
Hver er með bestu forgjöfina?
Arnar Viðars hefur verið bestur af okkur en Marel er orðinn nokkuð góður núna. Svo Addi Grétars og svo ég, ég er lélegastur ef ég á að vera heiðarlegur. Ég á mest inni, það er styst í að ég hætti í boltanum og þá get ég farið og æft mig í golfinu svo kem ég og vinn þá þegar að ég er búinn að æfa mig.
Eruð þið átrúnaðargoð hérna? (Meðan á viðtalinu stóð komu þrír ungir krakkar og báðu Rúnar um eiginhandaráritun)
Við búum í landi þar sem er mikill fótboltaáhugi og við Íslendingarnir höfum oft fengið mjög jákvæða og mikla "krítík" í fjölmiðlum fyrir leiki okkar og hverni við höfum staðið okkur. Það eru nokkuð margir sem þekkja okkur út á götu þannig að sérstaklega ef við komum einhversstaðar þar sem eru fótboltaskólar eins og í dag þar sem eru krakkar þá þekkja þeir okkur yfirleitt og vilja fá áritanir.
Athugasemdir