Arsenal reiðubúið að spreða í framherja - Real Madrid ætlar að leggja fram annað tilboð í Trent - Cambiaso til Man City?
   fös 14. október 2005 12:55
Hafliði Breiðfjörð
Ásgeir og Logi hættir - Viðræður við Eyjólf
Ásgeir og Logi eru hættir með landsliðið
Ásgeir og Logi eru hættir með landsliðið
Mynd: Fótbolti.net - Hjalti Þór Hreinsson
Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, sendi nú rétt í þessu frá sér fréttatilkynningu þar sem tilkynnt var að samningur sambandsins við þá Ásgeir Sigurvinsson og Loga Ólafsson landsliðsþjálfara verður ekki endurnýjaður.

Samningur Ásgeirs og Loga rennur út 31. október næstkomandi og í tilkynningunni er þeim þökkuð góð störf með landsliðið síðastliðin ár.

Stjórn KSÍ hefur nú falið Eggerti Magnússyni formanni sambandsins að hefja viðræður við Eyjólf Sverrisson um að taka við landsliðinu.

Ásgeir Sigurvinsson tók tímabundið við landsliðinu 9. maí 2003 er Atli Eðvaldsson þáverandi þjálfari sagði starfi sínu lausu og KSÍ tilkynnti að hafin hafi verið leit að erlendum þjálfara. Ásgeir fékk Loga Ólafsson sér við hlið skömmu síðar.

18. júní sama ár boðaði KSÍ til blaðamannafundar þar sem tilkynnt var um að Ásgeir og Logi hefðu verið ráðnir landsliðsþjálfarar þar til lokakeppni HM 2006 lyki í október 2005 og leit að erlendum manni hafi verið hætt.

Gengi Íslands í undankeppni HM 2006 hefur verið afleytt en aðeins fjögur stig komu úr leikjunum 10, öll gegn Möltu. Markatalan var 14-27 en íslenska liðinu gekk vel að skora en illa að verjast.

Að undanförnu hefur orðið mikil breyting á íslenska landsliðinu undir stjórn Ásgeirs og Loga og margir ungir leikmenn fengið tækifæri á sama tíma og eldri leikmenn hafa misst sæti sitt í landsliðinu.

Tveir leikmenn, Ívar Ingimarsson hjá Reading í Englandi og Jóhannes Karl Guðjónsson hjá Leicester í Englandi hættu með landsliðinu vegna ósættis við störf landsliðsþjálfarans.

Eyjólfur Sverrisson hefur undanfarin ár þjálfað U-21 árs landslið Íslands og skilað góðum árangri. Hann tók við liðinu 22. október 2003 og rennur samningur hans einnig út um mánaðarmótin.

Hann hafði sjálfur lýst því yfir að hann vildi halda áfram með U-21 árs liðið en nú er það verk Eggerts Magnússonar að fá hann til að taka við A-landsliðinu.

Eyjólfur lék um árabil með landsliðinu en hann á að baki 66 landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim 10 mörk þar af tvö eftirminnileg gegn Frökkum á Stade de France og Tékkum í sigurleik á Laugardalsvelli beint úr aukaspyrnum.  

Hann var 19 sinnum fyrirliði íslenska landsliðsins. 

Eyjólfur hefur aldrei þjálfað félagslið né heldur leikið í efstu deild hér á landi en hann fór beint frá Tindastóli til Stuttgart í atvinnumennsku á sínum tíma og lauk ferlinum með Hertha Berlin í Þýskalandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner