Sóknarmaðurinn Hörður Sveinsson hjá Keflavík mun halda til Noregs á laugardag í boði úrvalsdeildarfélagsins Brann þar sem hann mun skoða aðstæður og taka þátt í æfingum liðsins með samning í huga. Tveir íslenskir landsliðsmenn eru í herbúðum Brann; Ólafur Örn Bjarnason og Kristján Örn Sigurðsson.
Hörður er nýkominn heim eftir stutta dvöl hjá AIK í Stokkhólmi. Á heimasíðu Keflavíkur segir að ekki sé vitað á þessari stundu hvaða stefnu það mál tekur. Fjölmörg lið á norðurlöndunum hafa áhuga á Herði sem lék vel með Keflvíkingum í sumar og hefur einnig vakið mikla athygli með U21 landsliði Íslands.
Í sumar lék Hörður sautján leiki með Keflavík í Landsbankadeildinni og skoraði níu mörk. Hann var síðan valinn efnilegasti leikmaður deildarinnar á Lokahófi KSÍ.
Heimild: www.keflavik.is
Athugasemdir