Heimild: Chelsea.is
Enskir fjölmiðlar í gær sögðu flestir frá fréttum þess efnis að Chelsea hafi gengið frá kaupum á Slobodan Rajkovic frá Serbíu og að kaupverðið væri metfé fyrir svo ungan leikmann.
Það var enska sunnudagsblaðið News of the World sem birti söguna fyrst allra en blaðið er líklega meira þekkt fyrir skáldskap heldur en nokkurn tíma fréttamennsku.
Í kvöld var það svo hin íslenska stuðningsmannasíða Chelsea, Chelsea.is sem hrakti fréttirnar sem eru ósannar með öllu. Snorri Valsson fréttastjóri síðunnar er við nám í Sviss og herbergisfélagi hans þar er Serbi með umboðsmannaleyfi í fótboltanum.
Sá serbneski gerðist svo blaðamaður fyrir Chelsea.is og hringdi í framkvæmdastjóra OFK Belgrade sem leikmaðurinn spilar fyrir. Sá sagði ekkert til í þeim orðum um að búið væri að ganga frá samningum um sölu á leikmanninum. Þjálfari liðsins hafði heldur ekkert heyrt um málið og ljóst að Slobodan Rajkovic er ekki orðinn leikmaður Chelsea.
Kaupverðið á leikmanninum hafði verið sagt 3,5 milljónir punda en hann er þrátt fyrir allar sögurnar gífurlega eftirsóttur og æfði með unglingaliði Arsenal síðasta sumar og Manchester United eru einnig taldir hafa haft áhuga eins og Real Madrid, Monaco, Marseille, Inter Milan, Juventus, AC Milan og Barcelona auk Chelsea..
Athugasemdir