Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   þri 10. janúar 2006 19:52
Magnús Már Einarsson
ÍR ætlar upp: Viðtöl við Erling, Guðfinn og Magnús
Guðfinnur skrifar undir í dag.
Guðfinnur skrifar undir í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Eins og við greindum frá fyrr í dag þá kynntu ÍR-ingar úr annarri deild nýja leikmenn á blaðamannafundi nú síðdegis. Varnarmaðurinn Erlingur Þór Guðmundsson og sóknarmaðurinn Guðfinnur Þórir Ómarsson voru á meðal þeirra leikmanna en þeir koma báðir frá Þrótti R.  Auk þeirra kom Brynjólfur Bjarnason til liðsins frá Seflossi og þá gerði Elvar Lúðvík Guðjónsson samning auk þess sem reynsluboltinn og fyrirliðinn Arnar Þór Valsson ætlar að vera áfram hjá félaginu.

Við hittum leikmennina á máli en þeir voru báðir nokkuð eftirsóttir.  “Það voru nokkur sem höfðu samband. Ég ætla nú ekkert að fara að nefna þau, það er algjör óþarfi af því ég er kominn hingað. Mér leist best á þetta. Ég mætti á æfingar og Maggi (þjálfari) er klár kall og mér leist vel á hann, góður hópur og þetta heillaði mig bara meira en annað,” sagði Guðfinnur.

Erlingur sagði hinsvegar: ,,Ég var nú ekkert mikið að velta þessu fyrir mér. Ég talaði náttúrulega við Ásgeir (Elíasson, þjálfara Fram) það varð ekkert úr því, talaði við Víkingana og það varð ekkert úr því heldur, KA-menn, ég var ekki tilbúinn til að fara á Akureyri, Afturelding var líka og svo fór ég á eina æfingu hjá Leikni en leist best á þetta hérna, mikill hugur í þeim. Það er mikill hugur í mönnum hérna og þeir ætla strax upp. Það er góð umgjörð í kringum þetta, utanlandsferð og ég ætla bara að kýla á þetta.”

Þeir léku báðir í Landsbankadeildinni síðastliðið sumar og Guðfinnnur játar að það sé þónokkuð stökk að fara þaðan og niður í 2.deild en hann lék sjö leiki með Þrótti í Landsbankadeildinni síðastliðið sumar. ,,Jú jú en maður verður að prufa líka og að leiðin liggur bara upp á við núna, það getur ekki annað verið,” sagði Guðfinnur.

Erlingur er á sama máli en hann lék ellefu leiki í Landsbankadeildinni síðasta sumar. ,,Það var ástæðan sem ég pældi mest í hvort þetta væri skref niður á við en ég ætla bara að vera eitt ár í þessari deild, ég er alveg tilbúinn að fórna því. Hermann Hreiðarsson gerði þetta líka í Englandi.” sagði Erlingur að lokum og glotti.


Við heyrðum einnig í Magnúsi Þór Jónssyni þjálfara ÍR-liðsins sem er nú á sínu öðru heila tímabili sem þjálfari þess en hann hafði áður verið aðstoðarþjálfari.

Jæja Magnús - mikið að frétta úr Mjóddinni í dag?
Já það má segja það! Í dag er ég ákaflega kátur að vera búinn að fá staðfestingar frá þessum strákum á því að þeir muni leika með ÍR næsta sumar. Það eru frábærar fréttir fyrir okkur ÍR-inga!
Mat þitt á þessum strákum?
Ef við byrjum á Elvari þekkjum við hann hér af góðu einu, hann átti frábært tímabil með okkur í fyrra þangað til hann fór til náms í Bandaríkjunum. Elvar er traustur varnarmaður sem er vel spilandi og les leikinn vel, auk þess að vera góður félagi.

Guðfinnur var búinn að ganga frá félagaskiptum fyrr í vetur en beið rólegur með samninginn á meðan hann kynntist félaginu og áformum okkar. Guffi er öskufljótur með tvo góða fætur, sívinnandi baráttujaxl. Erlingur er mjög fjölhæfur, sterkur varnarlega, hávaxinn með fína tækni. Getur leyst margar stöður. Addó (Á mynd) karlinn hefur aldrei svikið neinn í Mjóddinni, frábær karakter og leiðtogi sem leggur sig alltaf 100% fram á æfingum og leikjum og við bjóðum Binna velkominn heim eftir langa fjarveru.

Og þetta styrkir liðið væntanlega?
Allir þessir strákar hafa mikla reynslu. Það er vissulega eitt af því sem okkur fannst vanta sl. sumar. Í haust tókum við þá ákvörðun að reyna að halda sem mestu af okkar mannskap en einungis bæta við þeim mönnum sem styrkja okkar hóp og lið. Þessir leikmenn hafa allir fengið þá áskorun að verða lykilmenn í liðinu næsta sumar, þeir vita það líka að samkeppnin verður hörð og ekkert sæti gefið. Ég veit líka af því að við vorum alls ekki eina liðið sem vorum í sambandi við þá, en þeir völdu sér okkur af réttum ástæðum, fótboltalegum. Þeir deila metnaði okkar til að koma félaginu hærra og ætla sér að verða samferða í því ferðalagi!

Frekari liðsauki á leiðinni?
Ekkert fréttnæmt í bili. Við erum enn að klára að festa okkar drengi, vinnum það áfram. Því er ekkert að neita að okkur langar að fá uppalda ÍR-inga aftur í Mjóddina en eigum við ekki að segja það að við höldum okkur við það að bæta einungis við okkur leikmönnum ef þeir styrkja okkur. Erum með stóran hóp manna sem eru að æfa vel, svo að við teljum okkur vera á góðum stað í dag! Engin liðssöfnun í gangi.

Markmið næsta sumars?

Miðað við fréttayfirlýsinguna sem ég sá áðan frá Braga er alveg ljóst að okkur er ætluð toppbaráttan í 2.deildinni í sumar. Það er nákvæmlega það sem ég vill sjá. Við höfum fengið klárt hvers til af okkur er ætlast, ég er sannfærður um að við munum leggja okkur 100% fram um að flytja ÍR á æðri stall. Þetta er hörkuerfið deild að komast upp úr en við munum klárlega gera atlögu að því. Til þess voru þessir leikmenn fengnir og til þess er ætlast af okkur sem fyrir voru!
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner