Framherjinn Robbie Fowler hefur gengið aftur til liðs við Liverpool og samið við liðið út tímabilið en frá þessu var greint nú rétt í þessu. Fowler yfirgaf Liverpool árið 2001 en eftir dvöl hjá Leeds og síðast Manchester City hefur hann snúið aftur á Anfield Road.
Þessar fréttir koma á óvart þar sem Rick Parry framkvæmdarstjóri Liverpool sagðist í gær ekki hafa talað við Manchester City um Fowler en flestir Liverpoolaðdáendur gleðjast væntanlega yfir því að þessi mikli markaskorari sé kominn "heim" þar sem framherjum liðsins hefur ekki gengið vel að skora á tímabilinu.
Hinn þrítugi Fowler sem skoraði yfir 170 mörk á níu ára ferli sínum hjá Liverpool fór til Leeds síðla árs árið 2001 en síðustu mörk hans fyrir fyrrnefnda liðið var þrenna gegn Leicester City.
Samningur hans við Manchester City átti að renna út næsta haust en eins og fyrr segir hefur Fowler nú samið við Liverpool út leiktíðina.
Athugasemdir