Vinstri bakvörðurinn Gunnar Þór Gunnarsson gerði þriggja ára samning við sænska liðið Hammarby fyrr í dag eins og við greindum frá. Við heyrðum í Gunnari í dag og spurðum hann fyrst hvernig honum litist á liðið.
,,Við vorum náttúrulega úti á Möltu en ég sá aðeins af æfingasvæðinu og ég á ekki von á öðru en að það sé tip-top því að þetta er stór klúbbur í Svíþjóð og ég hef engar sérstakar áhyggjur af því."
Gunnar á von á að fá tækifæri í byrjunarliðinu hjá Hammarby en liðið á sinn fyrsta lek í sænsku deildinni gegn Djurgarden á þriðjudaginn. ,,Hann er meiddur sá sem var í þessari stöðu þannig að ég held ég ætti að geta fengið séns og svo er spurning hvort maður geti haldið í það þegar hann kemur því hann á víst að vera sterkur leikmaður," sagði Gunnar Þór sem lýst einnig vel á leikkerfi liðsins. ,,Þeir eru að spila venjulega 4-4-2. Mér líkar vel við það og þekki það.
Hann segist þó vissulega eiga eftir að sakna Fram. ,,Já. Ég mæti nú kannski einhverntímann aftur í Safamýrina, hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér, ég skemmti mér vel í Safamýrinni þannig að það verður erfitt að yfirgefa Fram."
Pétur Hafliði Marteinsson hefur leikið með Hammarby undanfarin ár og Gunnar Þór er ánægður með að annar Íslendingur sé hjá félaginu. ,,Jú jú, það er náttúrulega frábært og það hjálpar mjög mikið við allt, fyrstu kynni og slíkt. Núna þegar að það er ljóst að ég er að fara til Stokkhólms er frábært að hafa hann þarna til halds trausts, hann og konuna hans."
Hinn efnilegi Gunnar fór á dögunum til Öster á reynslu en það sænska lið náði ekki samningum við Fram um kaupverð. Gunnar telur einnig að Hammarby sé betri kostur. ,,Þetta er betri klúbbur, það sést bara á síðustu árum. Maður verður líka í Stokkhólmi í staðinn fyrir að vera í 6000 manna bæ.
Að lokum spurðum við Gunnar út í sænskuna þar sem hann virðist eiga langt í land. ,,Hún (sænskan) er herfileg. Þetta líkist svolítið dönskunni og ég er ofboðslega sleipur í henni svo ég get skilið sumt í þessu og er núna að prófa mig áfram. Langflestir tala þeir nú ensku þannig að þetta gengur alveg upp," sagði þessi sterki leikmaður að lokum.
Athugasemdir