Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.
Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-9 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í níunda sætinu í þessari spá voru Sindramenn sem fengu 43 stig af 162 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Sindra frá Höfn í Hornafirði.
Sindri
Þjálfari: Nihad Hasecic
Búningar: Rauð treyja, rauðar buxur, rauðir sokkar.
Heimasíða: http://www.hornafjordur.is/sindri
Sindri kom flestum á óvart í 3.deildinni í fyrra með því að tryggja sér sæti í 2.deild. Sindri var á árum áður með firnsterkt lið sem lék skipulagðan og agaðan varnarleik. Sú spilamennska skilaði liðinu tvívegis upp í 1.deild en leiðin lá ávallt beinustu leið niður í 2.deild á ný. Að lokum minnkuðu stoðir liðsins og árið 2003 féll
liðið á endanum niður í 3.deild. Knattspyrnan á Hornafirði virtist vera í mikilli lægð og reyndist fyrsta árið eftir fallið afar erfitt.
Liðið vann einungis þrjá leiki af tólf og fátt benti til þess að liðið myndi fara upp á næstu árum. En í fyrra sýndi liðið gamla takta, varnarleikurinn var þéttur og sóknarleikurinn gekk afar vel sem leiddi til þess að liðið hafnaði í 2.sæti í sínum riðli og tryggði sér sæti í úrslitakeppninni. Þar urðu liðinu á engin mistök, spiluðu skynsama knattspyrnu og fengu aðeins á sig eitt mark í fjórum leikjum og tryggðu sér sæti í 2.deild á nýjan leik.
Sindri sýndi mikinn styrk við að komast upp úr 3.deildinni og ætla Hornfirðingar eflaust að gera allt í sínu valdi stendur til að hefja knattspyrnuna í hæstu hæðir á nýjan leik. Félagið sýndi það hér á árum áður að það gat staðið flestum liðum snúning og tvívegis vann liðið sér sæti í 1.deild. En markmið Sindramanna hlýtur að vera að festa liðið í sessi í 2.deild og byggja ofan á það á næstu árum.
Liðið er nánast óbreytt frá því í fyrra og þekkjast leikmenn liðsins því afar vel. Liðið hefur misst Gísla Freyr Brynjarsson sem fór til ÍA en hann lék alla leiki liðsins á síðustu leiktíð. Liðið hefur þó endurheimt Björn Pálsson sem hefur leikið með Víkingum en Björn er uppalinn á Hornafirði. Það verður því samhelt og samstill lið sem mætir til leiks í fyrstu umferð 2.deild um miðjan maí og miðað við fyrri reynslu er ljóst að enginn skal vanmeta Sindra í sumar.
Nihad Hasecic þjálfari Sindra þekkir knattspyrnuna á Hornfirði vel og innviðið þar enda hefur hann leikið með liðinu síðan 1998. Hann var stoð og stytta í varnarleik liðsins þegar liðið komst tvívegis upp í 1.deild en tók svo við þjálfun liðsins árið 2003. Nihad er mikill reynslubolti en hann hefur nú lagt skóna á hilluna. Þá er óvíst með hvort þeir Sævar Gunnarsson og Hjalti Vignisson leiki með liðinu í sumar. Sævar skoraði 17 mörk í 18 leikjum þegar Sindri féll niður í 3.deild og Hjalti lék áður með Val. Það er ljóst að liðið myndi styrkjast mikið ef hægt væri að draga þessa tvo sterku leikmenn á lappir.
Styrkleikar: Styrkur Sindra verður eflaust sá sami og undanfarin ár og það er gífurlega sterkur varnarleikur. Liðið er þekkt fyrir skipulagðan og öflugan varnarleik og hann hefur fleytt liðinu langt eins og sýndi sig bersýnilega í úrslitakeppni 3.deildar í fyrra. Ofan á það hefur liðið á að skipa afar sterkum heimavelli en það eru ekki mörg lið sem fara með þrjú stig eftir heimsókn á Hornafjörð.
Veikleikar: Helsti höfuðverkur Sindra í sumar verður án efa sóknarleikurinn. Liðinu hefur ávallt skort stöðugleika fram á við en að sama skapi hefur liðið oftar en ekki dugað að skora eitt mark. Liðið skoraði 33 mörk í 3.deildinni síðasta sumar en munurinn á
milli deildanna er þó töluverður. Slaka andstæðinga er
ekki að finna eins og í 3.deildinni og því þarf liðið að skerpa
sóknarleikinn enn frekar fyrir tímabilið.
Lykilmenn: Halldór Steinar Kristjánsson, Seval Zahirovic og Nezir Ohran
Komnir: Björn Pálsson frá Víkingi R.
Farnir: Gísli Freyr Brynjarsson í ÍA
Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. Sindri 43
10. Huginn 24 stig
Athugasemdir