Man Utd hefur mikinn áhuga á Kvaratskhelia - Man Utd fylgdist með þremur leikmönnum Sporting - Arsenal fylgist með Retegui
   sun 07. maí 2006 08:00
Magnús Már Einarsson
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 8. sæti
Jón Örvar Arason tók myndirnar sem eru með greininni.
Jón Örvar Arason tók myndirnar sem eru með greininni.
Mynd: Merki
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-9 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í áttunda sætinu í þessari spá voru Reynir úr Sandgerði sem fengu 53 stig af 162 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Reynismenn.


Reynir Sandgerði
Þjálfari: Gunnar Oddsson
Búningar: Hvít treyja, bláar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.blog.central.is/reynismenn (Stuðningsmannasíða)

Eftir átta ára útlegð í 3.deild tókst Reyni loksins að tryggja sér sæti í 2.deild á nýjan leik, þaðan sem liðið féll árið 1998. Undanfarin ár hefur Reynir haft á að skipa afar frambærilegu liði en oftar en ekki dottið út í hinni erfiðu úrslitakeppni 3.deildar. Vonbrigðin ár eftir ár hurfu sem dögg fyrir sólu þegar liðið vann 3.deildina með glæsibrag eftir sigur á Sindra í úrslitaleik. Hins vegar hefur meðbyrinn sem hefur fylgt þeim liðum sem hafa komið upp úr 3.deildinni, ekki verið með Reynismönnum á undirbúningstímabilinu. Liðinu gekk afar illa í Deildabikarnum og hafnaði í neðsta sæti í sínum riðli.

Þar að auki hefur liðið átt í miklum meiðslum og þáttaka lykilmanna var lengi vel í óvissu. Talið er líklegt að Adolf Sveinsson leiki með liðinu í sumar en hann hefur lítið æft í vetur. Georg Birgisson, reynsluboltinn mikli, mun leika með liðinu og það er mikilvægt fyrir liðið. Ólafur Ívar Jónsson hefur verið einn albesti leikmaður Reynis á undirbúningstímabilinu og mun spila stórt hlutverk í sumar. Liðið hefur einnig endurheimt Hafstein Ingvar Rúnarsson sem lék með Njarðvík í fyrra.

Reynismenn þurfa á öllum sínum mönnum að halda ef liðið á að ná árangri í sumar. Liðið leikur ágætis fótbolta og leggur þjálfari liðsins, Gunnar Oddsson, mikla áherslu á leika góða knattspyrnu. Hins vegar er honum eflaust ljóst að liðið má ekki við miklum skakkaföllum í sumar eins og liðið hefur lent í á undirbúningstímabilinu. Liðið er mjög reynt og hefur marga reynslubolta innan sinna raða.

Á góðum degi er Reynisliðið með hörkulið en það má ekki mikið út af bregða í sumar til að liðið lendi í vandræðum. Markvarslan hjá liðinu gæti orðið vandamál en Danilo Radoman stóð á milli stanganna hluta af tímabilinu í fyrra og Eyþór Örn Haraldsson.
Í þeirra stað kom Oddur Björnsson frá Gróttu en hann þykir
óstöðugur en hann hefur leikið með ÍH og Gróttu í
3.deildinni undanfarin ár.

Styrkleikar: Styrkur Reynis undanfarin ár hefur verið sá að liðið þykir leika knattspyrnu, ólíkt mörgum öðrum liðum í neðri deildum. Gunnar Oddsson vill að boltanum sé leikið á jörðinni og fyrir vikið þykir Reynisliðið afar vel spilandi lið. Spila vel sín á milli en það virðist oft vera þannig að sóknir liðsins fjari út þegar nálgast tekur mark andstæðinganna. Liðið hefur á að skipa öflugum leikmönnum á miðsvæðinu og er það helsti styrkur liðsins. Mikil eftirvænting er í bænum enda lék liðið síðast árið 1998 í 2.deild.

Veikleikar: Það er ljóst að miðað við undirbúningstímabilið að breiddin hjá Reyni er ekki mikil og það er alveg á hreinu að liðið má ekki við neinum meiðslum í sumar ætli liðið sér ekki að lenda í fallbaráttu. Varnarleikur liðsins var ekki burðugur í Deildabikarnum og er varnarlína liðsins ekki sú fljótasta á landinu.
Hins vegar bætir Georg Birgisson það upp með reynslu sinni og
þekkingu á leiknum.

Lykilmenn: Georg Birgisson, Ólafur Ívar Jónsson og Adolf Sveinsson


Komnir: Brynjar Örn Guðmundsson frá Keflavík, Hafsteinn Ingvar Rúnarsson frá Njarðvík, Haraldur Sigfús Magnússon frá KFS og Oddur Björnsson frá Gróttu.

Farnir: Sigurður Bjarni Sigurðsson í Val, Eyþór Örn Haraldsson hættur, Danilo Radoman til Serbíu og Svartfjallalands og Jóhann Magni Jóhannsson í KFS.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. Völsungur 79 stig
8. Reynir Sandgerði 53 stig
9. Sindri 43 stig
10. Huginn 24 stig
Athugasemdir
banner
banner