Man Utd hefur mikinn áhuga á Kvaratskhelia - Man Utd fylgdist með þremur leikmönnum Sporting - Arsenal fylgist með Retegui
banner
   mán 08. maí 2006 08:00
Magnús Már Einarsson
Spá fyrirliða og þjálfara í 2.deild karla: 7. sæti
Mynd: Merki
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-9 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í sjöunda sætinu í þessari spá var Völsungur sem fengu 79 stig af 162 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Húsvíkinga.


Völsungur
Þjálfari: Róbert Ragnar Skarphéðinsson
Búningar: Hvít treyja, grænar buxur, grænir sokkar.
Heimasíða: http://www.volsungur.is

Völsungur mætir með töluvert breytt lið frá síðustu leiktíð. Liðið hefur misst tvö uppalda leikmenn sem hafa leikið stórt hlutverk undanfarin ár. Þetta eru þeir Hermann Aðalgeirsson sem gekk í raðir Fylkis og Andri Valur Ívarsson, sem ákvað að ganga í raðir bikarmeistara Vals. Báðir hafa verið lykilmenn í liði Völsungs undanfarin ár og er brotthvarf þeirra gríðarlegt áfall fyrir liðið. Zoran Daniel Ljubicic hætti þjálfun liðsins og ákvað að fara á heimaslóðir. Tók við yfirþjálfun yngri flokka hjá Keflavík en mun leika með Njarðvík í sumar. Birkir Vagn Ómarsson hefur leikið með félaginu í nokkur ár en hann ákvað eftir leiktíðina í fyrra að skipta yfir í Breiðablik og leika með þeim í Landsbankadeildinni. Ennfremur mun Baldvin Þór Hallgrímsson, sem var á láni frá Val á síðustu leiktíð, ekki leika með liðinu í sumar.

Það er stór biti fyrir lið eins og Völsung að missa tvo af sínum bestu mönnum. Skarð þeirra Andra og Hermanns verður vandfyllt en til þess að fylla upp í skörðin fékk liðið þá Sigþór Júlíusson og Einar Guðnason. Sigþór þekkir vel til á Húsavík enda uppalinn hjá félaginu. Koma hans er gífurlegur styrkur fyrir ungt lið Völsungs. Það verður mikið lagt á herðar Sigþórs í sumar og miðað við aldur og fyrri störf, þá er hann maður til að taka við þeim byrðum. Einar kemur á láni frá Víkingum. Honum hefur ekki tekist að festa sig í sessi hjá Víkingi undanfarin ár, hvorki undir stjórn Sigurðar Jónsson, né Magnúsar Gylfasonar. Hann lék í hitteðfyrra sem lánsmaður hjá Aftureldingu en honum er ætlað að fylla skarð Andra Vals Ívarssonar.

Árangur liðsins undanfarin ár hefur verið mjög góður. Félagið komst upp úr 3.deild árið 2001 og eftir það var ekki aftur snúið. Árið 2003 tók Ásmundur Arnarsson við liðinu og hann stýrði liðinu af miklu öryggi upp í 1.deild. Félagið lék í tvö ár í 1.deild en á síðustu leiktíð féll liðið þó aftur á nýjan leik niður í 2.deild. Þá var liðið undir stjórn Zoran Daníel Ljubicic og virtist sem hann réði einfaldlega ekki við verkefnið. Því fór sem fór og liðið féll ásamt KS. Í hans stað var ráðinn Róbert Ragnar Skarphéðinsson, sem hefur leikið með liðinu undanfarin ár. Hann þekkir vel til leikmanna liðsins og veit hvað þarf til að ná árangri. Er hokinn af reynslu en reynsla hans mun vega þungt í sumar.

Á undanförnum þremur árum hefur liðið einungis tapað fimm leikjum af 27 á heimavelli og því er ljóst að heimavöllur liðsins mun hjálpa liðinu mikið. Völsungur teflir fram mjög ungu liði í sumar og ljóst er að uppbyggingarstarfsemi verður í gangi næstu árin. En þrátt fyrir mannabreytingar hefur þetta unga lið sýnt ágætis takta á undirbúningstímabilinu. Liðið hefur náð góðum úrslitum og sýnt að það verður sýnd veiði en ekki gefin í sumar. Ef liðið byrjar vel þá er ljóst að meðbyrinn gæti fleytt þeim langt. Það mun mikið mæða á Sigþóri eins og áður er sagt og vonast heimamenn eftir því að hann nái að sýna sínar bestu hliðar í búningi Völsungs í sumar.

Styrkleikar: Heimavöllur liðsins skilaði liðinu 14 af 18 stigum liðsins í 1.deildinni á síðustu leiktíð. Þar að auki fékk liðið einungis sjö mörk á sig og því er ljóst að heimavöllur liðsins verður þeirra aðalstyrkur í sumar. Liðsheildin verður aðalsmerki liðsins í sumar. Leikmenn liðsins eru ungir að árum og þekkjast afar vel.

Veikleikar: Það er ljóst að reynsluleysi gæti hrjáð liðið í sumar. Eins og áður segir eru leikmenn liðsins ungir að árum og gæti tímabilið reynst erfitt ef liðið byrjar illa. Ungir leikmenn þola illa mótlæti og það er ljóst að reynsluboltarnir í liðinu verða að axla mikla ábyrgð og hjálpa þeim yngri. Árangur liðsins á útivelli í fyrra var hræðilegur en liðið vann ekki leik. Það er ljóst að liðið þarf að kroppa í stig á útivöllum ef ekki á illa að fara.

Lykilmenn: Sigþór Júlíusson, Róbert Ragnar Skarphéðinsson og Björn Hákon Sveinsson.


Komnir: Einar Guðnason á láni frá Víkingi, Sigþór Júlíusson á láni frá Val, Arnar V. Ingólfsson frá Boltafélagi Húsavíkur, Gunnar Jónsson frá Boltafélagi Húsavíkur, Sigurður Ó. Guðmundsson frá Geisla, Sigurður V. Olgeirsson frá Boltafélagi Húsavíkur, Sveinbjörn Már Steingrímsson frá Boltafélagi Húsavíkur.

Farnir: Andri Valur Ívarsson í Val, Birkir Vagn Ómarsson í Breiðablik, Hermann Aðalgeirsson í Fylki, Milan Janosevic til Serbíu og Svartfjallalands, Zoran Daniel Ljubicic frá Njarðvík, Baldvin Þór Hallgrímsson í Þrótt.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. Völsungur 79 stig
8. Reynir Sandgerði 53 stig
9. Sindri 43 stig
Athugasemdir
banner