Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.
Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-9 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í sjötta sætinu í þessari spá var Selfoss sem fékk 93 stig af 162 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Selfyssinga.
Selfoss
Þjálfari: Einar Jónsson
Búningar: Vínrauð treyja, hvítar buxur, vínrauðir sokkar.
Heimasíða: http://www.selfossfc.com
Selfyssingar mæta með nokkuð breytt lið frá því í fyrra. Gústaf Adolf Björnsson hætti þjálfun liðsins en í hans stað var ráðinn reynsluboltinn Einar Jónsson. Einar þekkir knattspyrnuna út og inn á Selfossi og veit hvaða væntingar fólk gerir til liðsins. Menn stefna ávallt upp úr 2.deildinni þar á bæ og það verður enginn breyting á því í ár. Einar þekkir leikmennina vel og reynir eflaust að endurtaka leikinn frá því árið 1998 þegar liðið hafnaði í 3.sæti. Það sæti myndi gefa sæti í 1.deild í ár þannig að hann myndi vafalaust þiggja það sæti í ár. Hans bíður þó erfitt verkefni en liðið hefur misst þrjá sterka leikmenn frá því í fyrra. Auk þess er Ómar Valdimarsson, varnarmaðurinn sterki, búinn að leggja skóna á hilluna. Ómar var valinn í lið ársins á Fótbolti.net árið 2004 og 2005.
Erfitt verður að fylla skóna hans Ómars og ljóst er einnig að brotthvarf Arilíusar veikir liðið verulega. Til að bæta fyrir brotthvarf þeirra sem yfirgefið liðið hefur liðið samið við þrjá erlenda leikmenn. Liam Manning sem leikið hefur á Englandi, Christopher McIntosh sem kemur frá Nýja Sjálandi og þá bindur liðið vonir við danska framherjann René Schwartz. Félagið hefur einnig verið að vinna í að fá tvo sænska leikmenn til félagsins. Þeir voru til reynslu hjá liðinu í æfingaferð liðsins í Danmörku um páskana. Gabriel Tobuz og Niclas Taube heita þeir og gætu þeir því allt eins spilað með Selfossi í sumar. Það er ljóst að eftir 11 ára samfleytta dvöl í 2.deild, stefnir félagið hærra og nú er svo sannarlega lag fyrir liðið að gera atlögu að sæti í 1.deild. Þrjú efstu sætin gefa rétt á sæti í 1.deild og ljóst er að Selfyssingar ætla að gera betur en undanfarin ár.
Það hefur vantað stöðugleika hjá liðinu undanfarin ár og oftar en ekki hefur liðið kolfallið á prófinu þegar tímabilið hefst. Liðið hefur yfirleitt haft á að skipa nokkuð frambærilegu liði en einhvern veginn hefur vantað herslumuninn. Hvort Selfyssingar hristi af sér slyðruorðið í ár, skal ósagt látið en það er samt ljóst að Selfyssingar eru ávallt erfiðir við að eiga og gætu blandað sér í efri hlutann. Til þess að það gerist, þarf liðið á öllum sínum mönnum að halda og mega ekki við minnstu skakkaföllum.
Styrkleikar: Selfyssingar hafa yfirleitt verið erfiðir heim að sækja en í fyrra fékk liðið 15 stig á heimavelli. Liðið vann fimm leiki en tapaði fjórum. Stöðugleikann vantaði í fyrra á heimavelli og það er ljóst að ef liðið ætlar sér í baráttuna á toppnum, þarf liðið að finna stöðugleika heima fyrir. Styrkur liðsins hefur oft verið hraðinn fram á við en þar hefur liðið Ingþór Guðmundsson, sem er eldfljótur og hefur leikið vel fyrir liðið undanfarin ár í 2.deildinni.
Veikleikar: Það er ljóst miðað við undirbúningstímabilið og tímabilið í fyrra, að vörn liðsins er veikur hlekkur. Liðið fékk á sig 30 mörk í deildinni í fyrra. Liðið bætti sig þó frá árinu áður en það er samt sem áður ljóst að liðið þarf að stoppa í götin í varnarleiknum. Brotthvarf Ómars bætir ekki ástandið og það er alveg á hreinu að Einars Jónssonar bíður erfitt verkefni að bæta varnarleik liðsins. Einnig er spurning hvernig liðinu reiðir af eftir brotthvarf Brynjólfs, Inga Rafns og Arilíusar sem voru mikilvægir í sóknarleik liðsins í fyrra.
Lykilmenn: Hallgrímur Jónasson, Jón Sveinsson og Einar Ottó Antonsson.
Komnir: Gunnar Óli Guðjónsson frá Val, Bragi Bjarnason frá Hetti,
Liam Manning frá Englandi, Christopher McIntosh frá Nýja Sjálandi, Kjartan Helgason frá Huginn og René Schwartz frá Danmörku.
Farnir: Brynjólfur Bjarnason til ÍR, Ingi Rafn Ingibergsson til ÍBV, Arilíus Marteinsson til ÍBV.
Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. Selfoss 93 stig
6. KS/Leiftur 83 stig
7. Völsungur 79 stig
8. Reynir Sandgerði 53 stig
9. Sindri 43 stig
Athugasemdir