Næstkomandi laugardag spilar Arnór Smárason til úrslita í bikarkeppni U- 19 ára unglingaliðs Heerenveen gegn Feyenoord. Á leik þeirra í bikarúrslitin hafa þeir lagt að velli Emmen ,Vitesse, FC Twente, FC Utrecht og FC Eindhoven í undanúrslitum. Á keppnistímabilinu hefur Arnór bæði spilað sem miðjumaður og framherji og skorað átta mörk í deild og bikar. Í tilefni þess hafði Fotbolti.net samband við hann og spurði hann nokkurra spurninga:
Hvernig er lífið úti í Hollandi búið að vera?
Þetta er búið að vera mjög fínt svona á heildina litið. Ég er búinn að vera hjá fjölskyldu sem er mjög vinaleg og vill allt fyrir mann gera. Auðvitað kynnist maður líka fullt af fólki á þessum tíma og ég var mjög fljótur að komast í takt við hollenska menningu, tala málið og svona sem er mikilvægur partur af því að líða vel þar sem maður er. En núna finnst mér vera kominn tími til að fara að búa einn, og mun ég standa í flutningum von bráðar sem er spennandi.
Hvernig læturðu af dvöl þinni hjá Heerenveen?
Þessi rúmu 2 ár sem ég hef verið hér hafa verið frábær. Hérna finnst mér ég vera búinn að bæta mig heilmikið og það hjálpar manni að æfa tvisvar á dag við toppaðstæður. Maður setur sér markmið og reynir að fylgja þeim og ef maður er með hugann við það sem maður er að gera, að þá er maður á réttri braut. Þú kemst ekki upp með neina meðalmennsku hér, þá geturu bara farið að leita að einhverri annarri íþrótt.
Er engin heimþrá?
Jú auðvitað saknar maður fjölskyldunnar og nánustu vina en þetta er eitthvað sem ég valdi sjálfur og sé alls ekki eftir núna. En sem betur fer eru þau dugleg að koma út í heimsókn, og það gerir veruna saman bara enn skemmtilegri.
Hvernig list þér á bikarúrslitaleikinn gegn Feyenoord?
Mér líst mjög vel á úrslitaleikinn! Það er draumur hvers knattspyrnumanns að spila úrslitaleik fyrir framan fullan völl af fólki og það eru þessir leikir sem maður er að æfa fótbolta fyrir. Við spiluðum við Feyenoord um seinustu helgi í deildinni og unnum 2-1, þannig að ég á von á hörkuleik og hlakka mikið til!
Er Feyenoord með sterkt lið semsagt?
Já þeir eru og hafa alltaf verið með eitt af bestu unglingastörfum í heiminum og eru alltaf sterkir. Þeir enduðu í 2. sæti, einu sæti á undan okkur, þannig að það er okkar að sýna það að við séum betra lið en þeir og að taflan sýni ekki rétta mynd af getu liðana. Ég allavega ber enga virðingu fyrir þessum strákum, hvað sem þeir heita.
Hvað tekur svo við í framhaldinu?
Við æfum að krafti í 2 vikur og spilum svo á Euro-Tournament, sem er mjög sterk keppni. Spilum þar við Parma, Marseille, Besiktas og fleiri lið sem verður án efa mjög spennandi. Eftir þá keppni að þá tekur við smá slökun og sumarfrí. Það verður gott að komast heim, taka því rólega og byggja sig hægt og bítandi upp fyrir næsta tímabil.
Athugasemdir