Heimild: KR.is
Nú er ljóst að félagaskipti Indriða Sigurðssonar til KR urðu til einskis en hann mun ekkert leika með liðinu í sumar því hann hefur samið við norska úrvalsdeildarfélagið Lyn sem Stefán Gíslason leikur einnig með. Samningur Indriða við Lyn er til ársins 2008.
Frá þessu er greint á vefsíðu KR nú í kvöld en Indriði mun fara utan í fyrramálið. Rétt vika er síðan hann fékk leikheimild með KR eða daginn eftir sigurleikinn gegn Fylki.
Hann hafði hætt með belgíska liðinu Genk í byrjun sumars er samningur hans þar rann út og vonaðist til að komast í lið á Englandi. Með það að markmiði æfði hann með Ipswich og Southampton en fékk ekki samning og ákvað að fara til KR skömmu áður en félagaskiptaglugginn rann út hér heima.
Samningur hans við KR var með þeim fyrirvara að hann kæmist ekki að hjá erlendu liði. Hann fór til reynslu hjá Lyn um helgina og með frammistöðu sinni þar vann hann sér inn boð um samning.
Indriði var í dag valinn í íslenska landsliðið sem mætir Spánverjum í æfingaleik á þriðjudag. Hans fyrsti leikur með Lyn verður væntanlega gegn Veigari Páli Gunnarssyni og félögum í Stabæk á sunnudag.
Athugasemdir