Samsæriskenning fer nú sem eldur í sinu á internetinu um fyrirhuguð félagaskipti Carlos Tevez og Javier Mascherano til West Ham United en Tevez er einn af bestu fótboltamönnum heims í dag og ljóst að flest stórlið Evrópu hefðu viljað fá hann og því skiljanlegt að menn telji undarlegt að lið eins og West Ham hreppi hann.
Staðan er sú að leikmennirnir báðir eru samningsbundnir Corinthians í Brasilíu en það félag er rekið af alþjóðlegum fjárfestahópi, Media Sports Investment sem er skammstafað MSI.
MSI gerði umdeildan samning við Corinthians árið 2004 sem gefur fjárfestahópnum stjórn á félaginu í skiptum fyrir stórar fjárfestingar. Samningurinn er til tíu ára og í kjölfarið komu stórstjörnur eins og Carlos Tévez, Marcelo Mattos, Gustavo Nery, Roger, Javier Mascherano og Carlos Alberto til félagsins.
Þessi sami hópur, MSI, reyndi í nóvember 2005 að ná yfirtöku í West Ham United en það gekk ekki eftir þar sem ekki náðist samkomulag um kaupverð.
Lengi hefur verið orðrómur um að Roman Abramovich eigandi Chelsea eigi 15% hlut í MSI en því hefur þráfaldlega verið neitað. Orðrómurinn sem nú gengur á netinu er þess efnis að Abramovich hafi í gegnum MSI ákveðið að lána Tevez og Mascherano til West Ham til að sjá hvernig þeir aðlagast í ensku deildinni og ef vel gengur kaupa þá til Chelsea næsta sumar.
Sums staðar hefur því jafnvel verið fleygt að með þessu hafi Abramovich litið svo á að hann væri að koma í veg fyrir að Arsenal eða Manchester United nái að styrkja sig með því að næla í Tevez eins og flestir miðlar höfðu talið að gengi í gegn í dag.
Athugasemdir