Jamie Carragher segir að hann sé ekki öruggur með byrjunarliðssæti hjá Liverpool vegna þess hve vel danski varnarmaðurinn Daniel Agger hefur verið að spila fyrir félagið.
Carragher hefur ekkert spilað með Liverpool síðan í fyrsta leiknum gegn Sheffield United en hann fór þá af velli vegna ökklameiðsla. Hann missti líka af leikjum Englands í undankeppni HM en talið er að hann hefði tekið sæti Gary Neville sem er meiddur.
Þrátt fyrir að hafa verið lykilmaður hjá Liverpool undanfarin ár þá segir hann að ekkert sé öruggt og á meðan hann sé að reyna að koma sér í form fyrir nágrannaslaginn gegn Everton á laugardag þá gæti frammistaða Agger í undanförnum leikjum þýtt það að hann verði að sitja á bekknum.
"Ég hef alltaf haft áhyggjur af sæti mínu í liðinu og ég tek engu sem sjálfsögðum hlut. Gerard Houllier kom alltaf með nýja leikmenn í mína stöðu þannig að ég hef alltaf verið tilbúinn að berjast um sæti," sagði Carragher.
"Ég er tilbúinn að berjast við hvern sem er. Þetta er ein af ástæðunum að mér finnst ekki gaman að meiðast því þá gefur það einhverjum öðrum tækifæri á að gera vel. Daniel hefur staðið sig vel við hlið Sami (Hyypia), sérstaklega ef maður tekur mið af því að hann er rétt að finna sig hér."
"Fólk býst við að ég og Sami eigum að spila því við erum reyndastir en ég verð að vera hreinskilinn og segja að ef Daniel eða Gabreil Paletta koma inn í liðið og standa sig vel þá eiga þeir að spila," sagði Carragher að lokum.
Athugasemdir