Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   sun 10. september 2006 09:00
Hafliði Breiðfjörð
Ríkissjónvarpið sýnir fótboltaáhugamönnum vanvirðingu
Valsstúlkur fagna bikartitlinum í gær.
Valsstúlkur fagna bikartitlinum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Valsstúlkur urðu í gærkvöld bikarmeistarar eftir að hafa lagt Breiðablik í úrslitaleik þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í framlengingu.

Leikurinn var æsispennandi en að loknum venjulegum leiktíma var staðan 2-2 og því var framlengt í tvisvar sinnum 15 mínútur. Á þeim tíma skoraði hvort lið um sig eitt mark og því ljóst að útkjlá þurfti úrslitin í vítaspyrnukeppni en þar vann Valur sigur.

Leikurinn var í beinni útsendingu á Ríkissjónvarpinu og ljóst að fjölmargir knattspyrnuáhugamenn voru að horfa og urðu fyrir miklum vonbrigðum þegar ákveðið var að klippa á útsendinguna um leið og framlengingu lauk og því vonlaust fyrir áhugamanninn heima í stofu að vita hvernig leiknum lauk.

Í byrjun maí á þessu ári boðaði KSÍ til fréttamannafundar í höfuðsstöðvum sínum þar sem tilkynnt var um nýjan styrktarsamning í bikarnum við VISA. Um leið var tilkynnt um að Ríkissjónvarpið hafi samið við SportFive um útsendingar á leikjum bikarsins sem átti að auka þetta árið, en það hefur reyndar farið framhjá greinarhöfundi hvernig sú aukning var.

Á fundinum var tilkynnt að leiktímum bikarsins hafi verið breytt til að auka vægi bikarkeppninnar en greinilegt er að við ákvörðun þessa leiktíma gleymdu menn að gera ráð fyrir því að í bikarleikjum getur allt gerst, og stundum þarf að úrskurða um úrslit í vítaspyrnukeppni.

Leiktíminn 16:30 á úrslitaleik VISA bikars kvenna í gær er því handónýtur ef litið er til gærkvöldsins. Venjulegum leiktíma og framlengingu lauk nokkrar mínútur fyrir sjö og í stað þess að klára að sýna landsmönnum vítaspyrnukeppnina þótti eðlilegra að sýna auglýsingar og svo í kjölfarið fréttir.

Reyndar kom í ljós í útsendingunni að Adolf Ingi Erlingsson sem lýsti leiknum hafði ekki hugmynd um hvort leikurinn yrði í beinni útsendingu alveg þar til yfir lyki eða hvort hann yrði að víkja fyrir fréttunum. Það vissi hann ekki fyrr en skyndilega var klippt á um leið og framlengingu lauk.

Nú er ljóst að þetta er ekki í fyrsta sinn sem íþróttakappleikur er á sama tíma og fréttatími Sjónvarpsins. Leikir milli erlendra landsliða í Evrópumóti, handboltaleikir og annað slíkt hefur orðið til þess að fréttatíminn víki, en ekki er það sama upp á teningunum í kvennaboltanum eins og dæmi gærkvöldsins sannar.

Til að bæta gráu ofan á svart virðist sem RÚV hafi ekki legið á að landsmenn vissu úrslit leiksins því þau birtust ekki á vefnum www.ruv.is fyrr en 22:10, um þremur klukkustundum eftir að leiknum lauk.

Svona vanvirðing við fótboltaáhugamenn er góð ábending um að Ríkissjónvarpið á ekki að keppast um sýningarétt á sjónvarpsefni sem þeir ráða ekki við að sýna landsmönnum. Á markaðnum eru tvær sjónvarpsrásir sem einbeita sér að því að senda út íþróttaefni og engin spurning að bikarkeppnin á heima á annaðhvort Sýn eða SkjáSporti.

Hafliði Breiðfjörð.
Athugasemdir
banner
banner
banner