Guðjón Baldvinsson framherji Stjörnunnar og U-21 árs landsliðsins fór í morgun til norska liðsins Lilleström á reynslu en þetta staðfesti hann við Fótbolti.net í dag.
Annar Íslendingur, Viktor Bjarki Arnarson, leikmaður Víkings er einnig til reynslu hjá Lilleström þessa dagana eins og við greindum frá í morgun. Í sumar skoraði Guðjón sjö mörk í sextán leikjum í fyrstu deildinni og þá lék hann fimm leiki með U-21 árs landsliðinu.
,,Ég verð úti í tvær vikur og vona að sanna mig. Það munaði litlu að ég færi til Bodö/Glimt í vor en nú vonast ég til að heilla forráðamenn Lilleström," sagði Guðjón við Fótbolti.net í dag.
Guðjón fór einnig til svissneska liðsins ST. Gallen á reynslu í haust og þá hefur hann líka verið á reynslu hjá Genk í Belgíu. Hann var markahæstur í annarri deildinni á síðustu leiktíð með fjórtán mörk og þá var hann valinn besti og efnilegasti leikmaður deildarinnar í kosningu sem Fótbolti.net stóð fyrir á meðal þjálfara og fyrirliða.
Athugasemdir