Fjarðabyggð tryggði sér efsta sætið í 2. deild karla í ár. Hér fagna leikmenn liðsins marki á Varmárvelli í sumar.
Klukkan fjögur á morgun, fimmtudag, verður lið ársins í 2. deild karla 2006 opinberað á Hótel Íslandi en það eru þjálfarar og fyrirliðar allra liðanna í deildinni sem sjá um að velja það. Þá verður einnig kynnt hverjir verða valdir sem leikmaður ársins, þjálfari ársins og svo efnilegasti leikmaður ársins af sömu aðilum.
Þetta er fjórða árið í röð sem Fótbolti.net stendur fyrir vali á liði ársins í 2. deildinni en athöfnin verður sífellt viðameiri. Verðlaunaafhending fer fram á Hótel Íslandi á fimmtudag og verður fjallað ítarlega um hana hér á síðunni.
Önnur deildin var með óvenjulegu sniði í sumar þar sem þrjú lið komust upp vegna fjölgunar í fyrstu deildinni næsta sumar. Fjarðabyggð, Njarðvík og Reynir Sandgerði komust upp en aðeins eitt lið féll, Huginn Seyðisfirði.
Við tókum saman nokkrar tölfræði upplýsingar af vef KSÍ og má sjá þær hér að neðan.
Smelltu hér til að skoða lokastöðuna í 2. deildinni
Markahæstu leikmenn (víti – leikir):
13 – Adolf Sveinsson, Reynir Sandgerði (2 - 17)
10 – Ragnar Hauksson, KS/Leiftur (4 – 12)
10 – Jeppe Opstrup, Huginn (1 – 15)
9 – Marjan Cekic, Fjarðabyggð (2 – 18)
9 – Aron Már Smárason, Njarðvík (0 – 18)
8 – Eyþór Guðnason, Njarðvík (0 – 17)
Stigasöfnun:
- Ef aðeins er litið á stig á heimavelli hefði Njarðvík hafnað í efsta sæti en sömu þrjú lið hefðu komist upp.
- Njarðvík vann alla níu leiki sína á Njarðvíkurvelli.
- Fjarðabyggð var ósigrað á sínum heimavelli, gerði jafntefli í einum heimaleik en vann hina átta.
- Huginn og KS/Leiftur hafa versta árangur á heimavelli af liðunum tíu en hvort um sig fengu liðin átta stig.
- Sindri fékk aðeins eitt stig á útivelli allt tímabilið og Huginn aðeins tvö.
- Ef aðeins væri litið á stig á útivelli yrði staða sex efstu liðanna óbreytt.
Mörk skoruð:
- Alls voru skoruð 303 mörk í deildinni í sumar sem er fjórum mörkum minna en í fyrra.
- Njarðvík skoraði flest mörk liðanna í deildinni eða 46 en þar af komu 32 á heimavelli þeirra.
- Reynir Sandgerði skoraði 24 mörk á heimavelli eða næstflest heimaleikjamörk.
- Sindri skoraði fæst mörk (19) og fékk á sig flest en hélt sér samt í deildinni.
- Sindri skoraði aðeins sjö mörk í útileikjum sínum í sumar.
- Fjarðabyggð stóð sig best í markaskorun á útivelli með tuttugu mörk en liðið skoraði nítján á heimavelli sínum.
Mörk fengin á sig:
- Fjarðabyggð fékk á sig fæst mörk í sumar eða tólf en svo kom Njarðvík með þrettán.
- Fjarðabyggð fékk aðeins tvö mörk á sig á heimavelli í sumar en Njarðvíkingar fimm.
- Sindri fékk langflest mörk á sig í sumar eða 60, sautján mörkum meira en - Huginn sem féll. Sindri endaði með 41 mark í mínus í markatölu.
- Af mörkunum 60 sem Sindri fékk á sig komu 31 í útileikjum.
- Njarðvík og Reynir Sandgerði fengu fæst mörk á sig í útileikjum, átta hvort lið.
Mínútur:
- Eitt mark var skorað á fyrstu mínútu leikjanna í sumar líkt og í fyrra.
- Alls eru tíu mörk skráð á 90. mínútu og þá eru tólf gul spjöld og fjögur rauð skráð.
- Níu mörk voru skoruð á 72. mínútu en ekkert á 77. mínútu.
- Fjögur rauð spjöld voru gefin í fyrri hálfleik.
- Tvö gul spjöld voru gefin á fyrstu mínútu í leikjum sumarsins.
Spjaldasöfnun liða:
- Afturelding fékk flest rauð spjöld af liðum sumarsins eða fjögur talsins.
- Enginn leikmaður úr Fjarðabyggð og Njarðvík fékk rautt spjald í sumar.
- Reynir Sandgerði fékk flest gul spjöld eða 45.
- Njarðvík fékk fæst gul spjöld eða aðeins nítján.
Methafar:
- Þórarinn Máni Borgþórsson úr Aftureldingu var sá eini sem lét reka sig af velli oftar en einu sinni en hann fékk tvær brottvísanir í sumar.
- Hafsteinn Ingvi Rúnarsson og Ólafur Ívar Jónsson úr Reyni Sandgerði fengu flest gul spjöld í sumar eða sex hvor.
- Vítaskytta deildarinnar er Ragnar Hauksson úr KS/Leiftri sem skoraði fjögur af mörkunum sínum tíu úr vítum.
Athugasemdir