Viktor Bjarki Arnarsson leikmaður Víkinga sem var valinn besti leikmaður Landsbankadeildarinnar í ár er farinn frá félaginu og gengur í raðir Lilleström þegar hann hefur undirgengist læknisskoðun hjá norska félaginu.
Víkingar hafa samþykkt tilboð Lilleström í leikmanninn og því ekkert eftir nema að hann farí í gegnum læknisskoðunina og skrifi undir samninginn úti. Kaupverð hefur ekki verið gefið upp.
Viktor Bjarki Arnarsson er 23 ára gamall og hóf feril sinn hjá Víkingum. Hann gekk í raðir Utrecht í Hollandi í desember mánuði árið 1999 og þaðan fór hann til Topp Oss á láni áður en hann sneri aftur til Víkinga fyrir tímabilið 2004 og lék þá með liðinu í Landsbankadeildinni.
Víkingar féllu það ár og Viktor Bjarki vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína. Hann var lánaður til Fylkis tímabilið 2005 og sneri svo aftur til Víkinga og átti frábært sumar í ár og var að lokum valinn besti leikmaður tímabilsins.
Hann lék alla 18 leiki Víkinga í Landsbankadeildinni og skoraði í þeim átta mörk auk þess að leika alla þrjá leikina í bikarnum. Hann hefur leiki 49 leiki í efstu deild hér á landi og skorað í þeim 15 mörk.
Viktor Bjarki var valinn í íslenska landsliðið sem mætti Svíþjóð á Laugardalsvelli í byrjun október en þar sem hann var á reynslu hjá Lilleström gat hann ekki komið í tæka tíð til landsins.
Athugasemdir