Þá er komið að liðnum hvað er að frétta þar sem að við fáum menn úr liðum í fyrstu og annarri deild til að svara nokkrum spurningum fyrir komandi tímabil.
Að þessu sinni förum við til Grindavíkur en við fengum Óla Stefán Flóventsson fyrirliða Grindvíkinga til að svara nokkrum spurningum en liðið féll úr Landsbankadeildinni síðastliðið haust eftir að hafa verið í efstu deild síðan árið 1995.
Eldra úr liðnum: Hvað er að frétta?
Hvernig er stemmingin í Grindavík fyrir sumarið?
Stemmningin er mjög góð hjá okkur og menn langt frá því að gefast upp því það þekkja menn ekki í Grindavík. Nú eru ákveðin kynslóðaskipti hjá okkur og menn mjög spenntir að sjá hvernig guttarnir okkar koma til með að blómstra.
Nú félluð þið úr Landsbankadeildinni síðastliðið haust eftir að hafa verið í efstu deild frá árinu 1995. Stefnan er væntanlega sett beint aftur upp?
Já við hikum ekki við að taka stefnuna upp aftur. Úr því að við tókum upp á því að falla þá er það bara að taka því eins og menn og gera það besta úr því. Með því að falla eru ákveðnir möguleikar í boði eins og að byrja upp á nýtt og gefa okkar frábæru ungu strákum tækifæri. Jankó tekur nú við og ef það er einhver þjálfari sem hægt er að treysta í svona verkefni þá er það hann. Strákarnir í öðrum flokki eru að mestu hans því að hann hefur verið með þá í höndunum meira og minna frá unga aldri. Svo er hann með okkur gömlu karlana sem hann hefur þjálfað í meistaraflokki í nokkur ár þannig að þetta gæti orðið nokkuð skemmtileg blanda af leikmönnum.
Telur þú að stuðningurinn við liðið verði minni eftir fallið síðasta haust?
Við eigum rosalega flottan kjarna af stuðningsmönnum sem hafa alltaf staðið með okkur í blíðu og stríðu og ég á ekki von á þar verði nein breyting á. Hins vegar verður að segjast eins og er að við lentum oft á tíðum undir í stúkunni í fyrra eins og á vellinum því að mörg lið hafa tekið upp á því að búa til stuðningsklúbba sem sjá um stemmningu í stúkunni með frábærum árangri. Bæði er skemmtilegra að spila leikina og eins mun skemmtilegra að horfa á þá. Við í Grindavík erum að vinna í þessum málum og stendur til að stofna alvöru stuðningsklúbb þar sem við höfum á að skipa landsliðsmönnum í stuðningi í hverju sæti.
Hvernig líst þér á 1.deildina, nú þegar tólf lið taka þar þátt?
Mjög vel. Nú erum við að róa á ný mið og spila við lið sem við höfum jafnvel ekki spilað við áður. Við fáum að ferðast út um allt land eins og í Ólafsvík, á Akureyri og til Fjarðarbyggðar, sem ég er mjög spenntur fyrir í stað þess að spila alla leiki í borginni. Búið er að ákveða það að efsta deild verið tólf liða deild á næsta ári þannig að það eru þrjú lið sem fara upp og bara eitt sem fellur. Ég held að menn muni fylgjast mikið með þessari deild í sumar og hún á eftir að verða skemmtileg.
Nú eru tvö önnur lið af Suðurnesjum í fyrstu deildinni, Njarðvík og Reynir Sanderði. Hvernig líst þér á að mæta þessum liðum?
Alveg frábært að ná loksins að mæta þessum liðum í Íslandsmóti. Í gegnum tíðina hafa leikirnir milli þessara liða verið hörkuleikir þar sem ekkert er gefið eftir og það á sko bara eftir að aukast þegar í alvöru keppni er komið. Það hefur einhvern veginn aldrei skipt neinu máli í hvaða deildum þessi lið eru ásamt Víði því það er alltaf gefið allt í leikina og engin leið að sjá fyrir hvernig úrslitin verða. Eins skemmir það nú ekki fyrir að tveir af mínum bestu vinum þeir Albert Sævarsson og Alfreð Jóhannsson spila í Njarðvík og það verður sko tekið extra á þeim félögum.
Hverjir eru helstu styrkleikar ykkar?
Jankó leggur alltaf mikið uppúr því að halda boltanum innan liðsins. Við notum fáar snertingar á bolta og látum hann ganga vel á milli manna. Á góðum degi má segja að þetta sé okkar styrkleiki.
Nú misstuð þið sterka leikmenn, telur þú að liðið hafi náð að fylla
vel í þau skörð?
Eins og ég hef sagt áður þá reynum við að nýta efniviðinn sem við eigum og höfum gert það í vetur. Við höfum fengið reynsluhundinn að norðan hann Albert Högna og svo er Scotty karlinn kominn aftur og fagna ég því gríðalega að þessir erfiðu tímar hjá honum séu að baki og hann mættur aftur í boltann því það vita nátturlega allir hversu góður hann er. Nýlega kom síðan framherji frá Serbíu sem lofar mjög góðu og Óskar Pétursson markvörður kom heim frá Englandi þannig að við erum fínum málum.
Nú er Scott Ramsay kominn aftur til ykkar. Hvernig er hann búinn að standa sig á undirbúningstímabilinu?
Hann er búinn að standa sig frábærlega. Hann var nokkrum grömmum of þungur þegar hann byrjaði en með miklum dugnaði og eljusemi er hann að detta í sitt besta form í langan tíma. Scotty er einnig ómetanlegur í klefanum enda algjört toppeintak þarna á ferð.
Má búast við að þið styrkið ykkur frekar fyrir sumarið?
Ég er ekki viss um það en maður veit náttúrulega aldrei í þessum bransa.
Hvernig líst mönnum á að fá Milan Stefán Jankovic aftur sem þjálfara?
Alveg ljómandi vel. Hann þekkir náttúrulega allt og alla í Grindavík og svo er hann einn besti þjálfari landsins. Hann er frábær kennari sem ungu strákarnir hafa svo sannarlega notið góðs af.
Nú er æfingaaðstaðan lítil í Grindavík. Hvar hafið þið æft í vetur?
Við höfum verið hér og þar, aðallega þar. En það er sorglegt að segja frá því að á meðan við eigum frábæra aðstöðu á sumrin, líklega þá bestu á landinu, þá er hún hræðileg á veturna. Við erum að æfa á skelfilegum tímum í Reykjaneshöllinni tvisvar í viku og svo í Garðabænum kl 20.30 á föstudagskvöldum. Þess á milli erum við sem búum í bænum í Sporthúsinu og þeir í Grindavík á sparkvellinum þannig að þetta er mikið púsluspil hjá okkur.
Ertu ánægður með spilamennsku og árangur ykkar í Lengjubikarnum til
þessa?
Kannski ekki árangurinn sem slíkan en það er búið að vera mikill uppgangur síðasta mánuðinn. Jankó leggur mikið upp úr því að spila og vill að menn reyni það hiklaust í leikjunum í Lengjubikarnum og það kostaði okkur kannski slæm úrslit til að byrja með en ég held að þeir sem hafi séð okkur spila nýlega séu sammála því að sá kostnaður er búinn að borga sig upp með frábærum bolta að undanförnu.
Er einhver leikmaður úr liði þínu sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar?
Já við erum með stráka eins og Alexander Þórarinsson og Jósef Jósefsson ásamt fleiri ungum guttum sem vonandi blómstra. Ég er þó klár á því að vinur minn hann Andri Steinn Birgisson eigi eftir að vekja athygli í sumar. Hann ákvað að vera áfram hjá okkur þrátt fyrir mikinn mótbyr og kannski ósanngjarna gagnrýni í fyrra en hann á eftir að sýna mönnum í sumar úr hverju hann er gerður.
Eitthvað að lokum?
Núna hefur myndast flott stemmning í kringum körfuboltann í Grindavík og það sér það hvert mannsbarn hvað það er gaman á leikjum þegar búin er til skemmtilegur og jákvæður stuðningur við sitt lið. Vonast bara til að sjá sem flesta á vellinum út um land allt í sumar og auðvitað áfram Grindavík.
Athugasemdir