Rodrygo íhugar að fara frá Real Madrid - Man Utd og Juventus á eftir Ederson - Kane ætlar að vera áfram hjá Bayern
   mán 07. maí 2007 19:32
Magnús Már Einarsson
Rúnar Kristins í KR ef Lokeren fer ekki í umspil
Mynd: Kristján Bernburg
Miðjumaðurinn Rúnar Kristinsson mun að öllum líkindum ganga til liðs við sitt gamla félag KR ef að Lokeren lið hans í Belgíu sleppur við að fara í umspil um áframhalandi veru í efstu deild. Rúnar er hins vegar ekki búinn að semja við KR-inga.

,,Ég er ekki búinn að skrifa undir eitt né neitt hjá KR, ég er ekki búinn að semja við þá. Ég búinn að ræða við Teit (Þórðarson) og ég er búinn að ræða við stjórn KR," sagði Rúnar við Fótbolti.net nú í kvöld.

Lokeren er í 16.sæti belgísku deildinni með 29 stig þegar að tvær umferðir eru eftir en liðið er fimm stigum á undan Beveren sem er í 17.sætinu. 16.sætið gefur öruggt sæti í deildinni á næsta ári en liðið sem endar í 17.sæti þarf að fara í umspilsleik um sæti í efstu deild á næsta ári.

,,Ég er að bíða eftir að tímabilið hér klárist og að málin skýrist hvort að við föllum eða ekki. Það gæti skýrst eftir leikinn á laugardaginn en það gæti líka dregist fram til 19.maí. Ef að þetta fer á versta veg og við lendum í 17.sæti þá þurfum við að fara í umspil og þá myndi tímabilið hjá mér lengjast um fjórar vikur," sagði Rúnar.

,,Þá erum við farnir að tala um allt aðra hluti því þá erum við komnir fram í júní. Maður veit ekki hvernig heilsan verður þá og það er alltof fljótt að fara að ákveða eitthvað slíkt núna."

,,Ef að þetta skýrist um næstu helgi og við björgum okkur frá falli eru allar líkur á að ég komi heim þegar að tímabilið er búið og fari strax að æfa og spila með KR. En það er ekki búið að staðfesta eitt né neitt og ég er ekki búinn að skrifa undir neinn samning. Ef að allt gengur að óskum er næsta öruggt að þetta verði,"
bætti Rúnar við í samtali við Fótbolti.net.

Rúnar sem er 37 ára gamall er landsleikjahæsti leikmaður Íslendinga frá upphafi með 104 leiki.

Rúnar hóf feril sinn hjá Leikni en lék með KR í sjö ár áður en hann hélt í atvinnumennsku árið 1995. Þar lék hann með Örgryte í þrjú ár og síðan með Lilleström áður en hann fór til Lokeren í Belgíu árið 2000.

Þar hefur Rúnar verið lykilmaður og á síðasta tímabili var hann valinn leikmaður tímbailsins hjá Lokeren en hann skoraði þá sex mörk í 32 leikjum.
Athugasemdir
banner
banner