Man Utd ætlar að reka Ten Hag - Hver tekur við? - Tuchel hefur áhuga á starfinu
   mið 09. maí 2007 08:01
Magnús Már Einarsson
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 3.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Þór Veruson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Þór Veruson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í þriðja sætinu í þessari spá voru Þróttarar sem fengu 205 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Þrótt.


Þróttur
Búningar: Rauð og hvít treyja, hvítar buxur, hvítir sokkar.
Heimasíða: http://www.trottur.is

Þrjú lið komast upp úr 1. deildinni í ár vegna fjölgunar í Landsbankadeildinni næsta sumar. Ef spá fyrirliða og þjálfara í deildinni rætist verður það Þróttur sem mun komast upp með því að hafna í þriðja sætinu. Þeim var einnig spáð þessu sama sæti í fyrra og það rættist því þeir höfnuðu í þriðja til fjórða sæti. Nú er munurinn sá að þriðja sætið mun gefa pláss í úrvalsdeild.

Gunnar Oddsson er tekinn við liðinu og verður spennandi að sjá hvernig honum gengur með liðið en árangur hans sem þjálfari síðustu ár hefur verið í meira lagi athyglisverður. Hann kom Reyni Sandgerði upp um tvær deildir á jafnmörgum árum og er til mikils vænst með ráðningu hans. Hann tók Adolf Sveinsson með sér í Laugardalinn en Adolf var markahæsti leikmaður 2. deildar í fyrra.

Sinisa Kekic er farinn til Víkinga og er það missir fyrir Þrótt en liðið hefur hinsvegar fengið sóknarmanninn Hjört Hjartarson sem hefur sett ófá mörkin fyrir ÍA í efstu deild. Hjörtur verður í algjöru lykilhlutverki í sumar og ljóst að miklar væntingar eru gerðar með komu hans. Spennandi verður að fylgjast með Skúla Jónssyni sem kom á láni frá KR og þá er Rafn Andri Haraldsson strákur sem fólk skal fylgjast með enda mikið efni.

Eysteinn Lárusson er meðal betri leikmanna deildarinnar og þá hefur Þróttur fengið erlendan varnarmann, hinn eina sanna Michael Jackson. Það mun talsvert mæða á honum og eins gott að hann standi undir væntingum.
Þó árangur Þróttar á undirbúningstímabilinu hafi ekki verið neitt til að fara í heljarstökk yfir þá er það óumdeilanlegt að liðið hefur einn besta mannskapinn í fyrstu deildinni. Þegar allir leikmenn liðsins ná að slípa sig saman verður liðið óárennilegt og ljóst að það verður í baráttu um efstu sætin.

Styrkleikar: Þróttur er með mjög góðan mannskap og hafa nokkra leikmenn sem eru klárlega í hópi bestu leikmanna deildarinnar. Ólafur Þór mun verja mark liðsins en hann þarf ekki að kynna enda vita fótboltaunnendur hvað hann getur. Þróttur hefur nokkuð reynslumikið lið og er með ákveðinn kjarna sem hefur spilað fyrir liðið um nokkurra ára skeið. Breiddin sóknarlega er mjög fín og það eru allar líkur á því að liðið verði í baráttu um að komast upp.

Veikleikar: Óvissuþættirnir hjá Þrótti eru nokkuð margir. Sá aðili sem þeir treysta mest á varðandi markaskorun, Hjörtur, hefur verið erlendis. Hann er hjá nýju liði sem hann hefur ekkert spilað með á undirbúningstímabilinu. Sama má segja um markvörð þeirra sem hefur ekkert leikið og því ljóst að það er smá púsl framundan hjá liðinu. Vörnin gæti verið sterkari en fróðlegt verður að sjá hvernig Jackson kemur inn í þetta. Í fyrra vantaði liðinu stöðugleika.

Þjálfari: Gunnar Oddsson. Er á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari Þróttar en hann tók við af Atla Eðvaldssyni. Gunnar kom Reyni Sandgerði upp úr 3. deild í 1. deild á tveimur árum. Er fyrrum þjálfari Keflavíkur en sem leikmaður lék hann 305 leiki á Íslandsmótinu og er einn af leikjahæstu mönnum mótsins frá upphafi. Hann lék lengst með Keflavík en einnig með KR og Leiftri auk þess að spila nokkra leiki með Reynismönnum.

Lykilmenn: Ólafur Þór Gunnarsson, Eysteinn Pétur Lárusson og Hjörtur Hjartarson.

Komnir: Adolf Sveinsson úr Reyni Sandgerði, Hjörtur Hjartarson úr ÍA, Michael Jackson frá Wales, Ólafur Þór Berry frá Keflavík, Skúli Jónsson frá KR, Björn Sigurbjörnsson frá Leikni, Haukur Ólafsson frá FH.

Farnir: Sinisa Kekic í Víking, Jón Ragnar Jónsson í FH, Andri Fannar Helgason í Álftanes, Baldvin Jón Hallgrímsson í ÍR, Þorsteinn Gíslason í Kára, Uche Asika í Völsung, Óskar Snær Vignisson í Hvöt, Halldór Arnar Hilmisson í Fylki, Jóhannes Gíslason í Kára.


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. Þróttur 205 stig
4. Fjölnir 174 stig
5. Stjarnan 163 stig
6. Fjarðabyggð 149 stig
7. KA 117 stig
8. Þór 106 stig
9. Njarðvík 87 stig
10. Leiknir Reykjavík 71 stig
11. Víkingur Ólafsvík 47 stig
12. Reynir Sandgerði 46 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner