Man Utd og Liverpool vilja Cherki - Arsenal skoðar Coman - Tottenham og Man Utd vilja markvörð Frankfurt - Chelsea reyndi við Van Dijk - Garnacho...
   fös 11. maí 2007 08:01
Magnús Már Einarsson
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 1.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Þór Veruson
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Þór Veruson
Mynd: Fótbolti.net - Jón Steinarr
Mynd: Fótbolti.net - Bjarni Már Svavarsson
Mynd: Fótbolti.net - Bjarni Már Svavarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í efsta sætinu í þessari spá voru Grindvíkingar sem fengu 212 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Grindvíkinga.


Grindavík
Búningar: Gul treyja, bláaar buxur, bláir sokkar.
Heimasíða: http://www.umfg.is

Í fyrra féll Grindavík úr efstu deild í fyrsta sinn í sögunni en liðið mun þó ekki eiga langa dvöl í 1. deildinni ef spá Fótbolta.net rætist. Grindavík er spáð efsta sæti og sigri í deildinni en það kemur vafalítið fáum á óvart. Þetta er félag sem á klárlega heima í efstu deild, með mikinn metnað og gott starf ásamt glæsilegum aðalvelli sem er einn sá flottasti á landinu.

Það verður í raun skandall ef Grindvíkingum tekst ekki að komast upp. Þeir hafa flottan mannskap, vel spilandi lið og færan þjálfara. Eins og margoft hefur komið fram munu þrjú lið komast upp í ár og má mikið gerast ef Grindavík verður ekki eitt þeirra liða.

Grindavík hefur misst sterka leikmenn frá því í fyrra. Óskar Örn Hauksson og Jóhann Þórhallsson fóru í KR og þeir Kristján Valdimarsson og David Hannah sömdu við Fylki. Liðið heldur samt mörgum öflugum leikmönnum og fengið m.a. varnarmanninn Albert Arason úr Haukum.

Jóhann Helgason mun spila aftur með liðinu á lánssamningi frá Val og þá hefur franski sóknarmaðurinn Mounir Ahandour snúið aftur og ef hann kemst í form mun hann verða hættulegur með hraða sínum. Ákveðin kynslóðaskipti eru í gangi í Grindavík og nokkrir ungir og sprækir strákar líklegir til að láta að sér kveða.

Grindvíkingar voru lengi í gang á undirbúningstímabilinu og náðu sér ekki á strik í byrjun. En samkvæmt áætlun kom síðan stígandi í þeirra leik og liðið náði betur saman. Reyndar hefur síðan komið smá lægð aftur nú á síðustu metrunum fyrir mót en þegar út í alvöruna er komið ætti liðið að vera talið sigurstranglegra í öllum sínum leikjum í deildinni.

Scott Ramsey er leikmaður sem fólk ætti klárlega að fylgjast með enda einn skemmtilegasti erlendi leikmaðurinn sem hingað hefur komið. Óli Stefán Flóventsson er algjör lykilmaður í liðinu. Spurning verður hvernig liðinu tekst að fylla skarðið sem Jóhann Þórhallsson skildi eftir sig en hann skoraði tíu af 24 mörkum liðsins í Landsbankadeildinni.

Styrkleikar: Grindavík hefur mjög öflugan hóp og reynslumikinn mann við stjórnvölinn. Skemmtileg blanda af leikmönnum og er liðið með nokkra öfluga mótora í sínu liði. Grindavík spilar hörkuvel og boltinn er látinn ganga vel á milli manna. Þá hefur liðið sterkan heimavöll þar sem það hefur fengið flest af sínum stigum gegnum tíðina. Fín breidd miðað við flest önnur lið í deildinni.

Veikleikar: Grindvíkingar hafa átt það til að detta á nokkuð lágt plan á undirbúningstímabilinu og skort ákveðinn stöðugleika. Liðið hefur ekki sótt nægilega mörg stig á útivöllum síðustu ár. Þá má nefna markvörsluna sem veikan blett á liðinu en þar hafa Helgi Már Helgason og hinn ungi Óskar Pétursson verið að spila á undirbúningstímabilinu.

Þjálfari: Milan Stefán Jankovic. Milan Stefán þekkir knattspyrnuna í Grindavík út og inn. Hann lék með liðinu í áraraðir og er nú aftur orðinn þjálfari meistaraflokksins. Eftir að hafa þjálfað meistaraflokkinn árið 2005 þjálfaði Milan Stefán 2.flokk Grindvíkinga í fyrra en hann hefur nú aftur tekið við meistaraflokknum og stefnir á að koma liðinu aftur upp í Landsbankadeildina.

Lykilmenn: Óli Stefán Flóventsson, Ray Anthony Jónsson og Paul McShane.

Komnir: Albert Högni Arason frá Haukum, Goran Vujic frá Serbíu, Óskar Pétursson frá Ipswich, Scott Ramsay úr Víði, Páll Guðmundsson úr GG, Jóhann Helgi Aðalgeirsson úr GG, Þorfinnur Gunnlaugsson úr GG.

Farnir: David Hannah í Fylki, Jóhann Þórhallsson í KR, Óskar Örn Hauksson í KR, Óðinn Árnason í Fram, Kristján Valdimarsson í Fylki, Guðmundur Atli Steinþórsson í Fjarðabyggð,


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. Grindavík 212 stig
2. ÍBV 207 stig
3. Þróttur 205 stig
4. Fjölnir 174 stig
5. Stjarnan 163 stig
6. Fjarðabyggð 149 stig
7. KA 117 stig
8. Þór 106 stig
9. Njarðvík 87 stig
10. Leiknir Reykjavík 71 stig
11. Víkingur Ólafsvík 47 stig
12. Reynir Sandgerði 46 stig
Athugasemdir
banner