Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   mán 21. maí 2007 10:30
Hafliði Breiðfjörð
Spá Fótbolta.net í Landsbankadeild kvenna
Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari kvenna sem hér er vinstra megin á myndinni er álitsgjafi okkar um liðin í Landsbankadeild kvenna.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari kvenna sem hér er vinstra megin á myndinni er álitsgjafi okkar um liðin í Landsbankadeild kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Endurkoma Margrétar Láru í Val styrkir liðið mikð.
Endurkoma Margrétar Láru í Val styrkir liðið mikð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Katrín Jónsdóttir er lykilmaður hjá Val.
Katrín Jónsdóttir er lykilmaður hjá Val.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Olga Færseth er lykilleikmaður hjá KR.
Olga Færseth er lykilleikmaður hjá KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Katrín Ómarsdóttir gæti orðið besti miðjumaður landsins.
Katrín Ómarsdóttir gæti orðið besti miðjumaður landsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðrún Sóley er lykilleikmaður í liði Breiðabliks.
Guðrún Sóley er lykilleikmaður í liði Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðný Þórðardóttir er nýjasti landsliðsmaður Keflvíkinga.
Guðný Þórðardóttir er nýjasti landsliðsmaður Keflvíkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Salih Heimir Porca þjálfari Keflvíkinga.
Salih Heimir Porca þjálfari Keflvíkinga.
Mynd: Jón Örvar
Harpa Þorsteinsdóttir er komin aftur í Stjörnuna eftir að hafa verið hjá Charlton á Englandi í vetur.
Harpa Þorsteinsdóttir er komin aftur í Stjörnuna eftir að hafa verið hjá Charlton á Englandi í vetur.
Mynd: Stjarnan.is
Anna Björg er lykilleikmaður í liði Fylkis.
Anna Björg er lykilleikmaður í liði Fylkis.
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Björn Kristinn Björnsson þjálfar Fylkisstúlkur.
Björn Kristinn Björnsson þjálfar Fylkisstúlkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þór/KA og ÍR er spáð baráttu í neðri hlutanum.
Þór/KA og ÍR er spáð baráttu í neðri hlutanum.
Mynd: Pedromyndir - Þórir Tryggvason
Fylkisstúlkur.
Fylkisstúlkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hanna Símonardóttir
Fjölnisstúlkum er spá fallbaráttu.
Fjölnisstúlkum er spá fallbaráttu.
Mynd: Þröstur Grétarsson
Mynd: Þröstur Grétarsson
Mynd: www.pedromyndir.is / Þórir Ó Tryggvason
Keppni í Landsbankadeild kvenna hefst í dag með þremur leikjum og fyrstu umferð lýkur svo á morgun með fjórða leiknum. Níu lið leika í deildinni að þessu sinni og því hvílir eitt lið í hverri umferð.

Við fengum sex sérfræðinga til að spá fyrir um úrslit deildarinnar þetta árið. Sérfræðingarnir röðuðu liðunum í töfluröð eins og þeir sjá fyrir sér að deildin fari og svo reiknuðum við saman, efsta lið fékk níu stig, næst efsta átta og svo koll af kolli niður í neðsta sæti sem gaf eitt stig.

Niðurstöðuna má sjá hér að neðan en sérfræðingar okkar voru Guðlaug Jónsdóttir, Guðmundur Magnússon, Kristrún Lilja Daðadóttir, Ólafur Þór Guðbjörnsson, Sigurður Ragnar Eyjólfsson og Vanda Sigurgeirsdóttir.

Hér að neðan má einnig sjá umfjöllun okkar um öll lið í deildinni en Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari kvenna var sérstakur álitsgjafi okkar um liðin í deildinni.


1. sæti: Valur - 54 stig
Komnar: Sif Atladóttir, Vanja Stefanovic, Anna Garðarsdóttir, Linda Rós Þorláksdóttir, Björg Magnea Ólafs, Nína Óska Kristinsdóttir.
Farnar: Farnir: Rut Bjarnadóttir, Hlíf Hauksdóttir

Hvað segir Sigurður Ragnar?
Valur er með gríðarlega öflugan leikmannahóp og mikla breidd. Þær eru með marga afgerandi leikmenn. Það sést vel á því að þar eru 8 leikmenn í A landsliðshóp og fleiri sem hafa bankað hressilega á dyrnar. Ég er ekki frá því að Valsliðið í sumar gæti orðið það sterkasta sem við höfum séð í sögu íslensku kvennaboltans. Það hefur verið gaman að fylgjast með liðinu í vetur, þær halda boltanum vel innan liðsins og spila áferðarfallega knattspyrnu. Þær eru með góða liðsheild og virðast hafa mjög gaman að því sem þær eru að gera. Það skín í gegn að það er góður liðsandi og margir metnaðarfullir leikmenn. Leikmenn eru tilbúnar að leggja mikið á sig til að liðið nái árangri.

Liðið fór tiltölulega hægt af stað á undirbúningstímabilinu töpuðu meðal annars gegn KR í Reykjavíkurmótinu, en síðan hafa þær farið á mikla siglingu eftir að Margrét Lára gekk til liðs við liðið og sóknaleikur liðsins byrjaði þá virkilega að blómstra. Margrét Lára hefur sjálf verið mjög vaxandi í vetur og á eftir að leika betur en nokkru sinni áður með Val og landsliðinu í sumar.

Annar leikmaður sem er gríðarlega mikilvægur fyrir Val er Katrín Jónsdóttir fyrirliði. Hún hefur veriðí feiknargóðu formi. Hún hefur að vísu átt við smávægileg meiðsli að stríða undanfarið, en ungu stelpurnar í Val hljóta að taka hana til fyrirmyndar í sambandi við form, vinnusemi og leiðtogahæfileika. Valsliðið á gríðarlega marga góða leikmenn og það er gott jafnvægi í liðinu milli varnar og sóknar. Það verður mjög erfitt að stöðva Val í sumar. Það er helst KR sem á séns í þær.

Styrkleikar:
Margrét Lára Viðarsdóttir er nánast í sérklassa og ber af þeim leikmönnum sem spila á Íslandi, en stjörnur blómstra þar sem er öflug liðsheild og hún er til staðar í Val. Liðið virkar í mjög góðu formi og Valsliðið hefur hefur mikla breidd.

Veikleikar:
Mér fannst liðið í sumum leikjum í vetur halda bolta of lengi innan liðsins sem hefur hægt á sóknarleiknum. En þetta breyttist töluvert eftir að Margrét Lára kom til liðsins þar sem hún er mjög kröfuhörð á boltann. Valsliðið spilar með varnarlínuna mjög framarlega og treysta þá á hraða Ástu, Sifjar og rangstöðutaktík. Þetta getur sett strik í reikninginn ef þær lenda á móti fljótum senter sem er duglegur að stinga sér. Annars er erfitt að finna veikleika hjá liðinu.

Gaman að fylgjast með:
Margréti Láru, hún átti gríðarlega gott sumar í fyrra og hún hefur verið sá leikmaður sem hefur verið að standa sig betur og betur með hverju ári og verður gaman að sjá hvort hún nái að toppa árið í fyrra. Það verður erfitt en ég veit hún stefnir á það. Síðan eru þær með mjög efnilegan leikmann Guðnýju Óðinsdóttur sem að verður gaman að fylgjast með. Rakel Logadóttir er skemmtilegur leikmaður sem getur gert óvænta hluti og er að mörgu leyti betri leikmaður en hún gerir sér grein fyrir, en hún á það til að hverfa úr leikjum inni á milli.

Lykileikmaður:
Margrét Lára Viðarsdóttir og Katrín Jónsdóttir.



2. sæti: KR - 48 stig
Komnar: Berglind Magnúsdóttir, Edda Garðarsdóttir, Ólína G Viðarsdóttir,
Farnar: Júlíana Einarsdóttir, Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir

Hvað segir Sigurður Ragnar?
Hafa gríðarlega sterkt byrjunarlið og ef allar eru heilar geta þær verið besta lið landsins. Mjög skemmtilegt sóknarlið og hafa verið að skora mikið í vetur og munu gera það líka í sumar, en liðið fór aðeins að hiksta þegar það lenti í meiðslum. Liðið sækir hratt og og klárar færin sín mjög vel. Mér finnst Helena Ólafsdóttir þjálfari hafa skipulagt leik liðsins mjög vel og búið til mjög gott sóknarlið og margir leikmenn eru að skora mörkin þeirra. Einnig finnst mér vörnin hjá þeim vera mjög vanmetin og þær hafa staðið vel fyrir sínu í vetur. Ef liðið endurheimtir Aliciu sem var gríðarlega öflug hjá þeim í fyrrasumar þá verður vörnin ekki árennileg hjá þeim í sumar. Ég set spurningamerki við markvörsluna en ég veit að þær hafa verið að að leita eftir markverði. En þetta er gríðarlega skemmtilegt lið á að horfa og ef að liðið sleppur við meiðsli þá gæti KR alveg unnið mótið.

Styrkleikar:
Margir góðir leikmenn og frábær sóknarleikur.

Veikleikar:
Þegar liðið hefur lent í meiðslum þá hefur það hikstað. Mikið áfall fyrir þær að missa Hólmfríði Magnúsdóttur sem er einn besti kantmaður landsins. Markvarslan er veikleiki og ekki í sama klassa og hinir leikmenn liðsins.

Gaman að fylgjast með:
Edda Garðarsdóttir var í gríðarlega góðu formi í vetur og átti mjög gott mót á Algarve með landsliðinu. Hólmfríður var líka frábær og nær sér vonandi jafngóðri fljótt. Katrín Ómarsdóttir er flink á miðjunni, með góðar sendingar og er gríðarlega hæfileikarík. Með réttu hugarfari, ástundun og metnaði getur hún orðið besti miðjumaður landsins á næstu árum.

Lykileikmaður:
Olga Færseth er gríðarlega mikilvæg fyrir liðið og er arkitektinn að sóknarleik liðsins. Edda Garðarsdóttir er líka lykilleikmaður en hennar hlutverk verður að binda saman sókn og vörn og gefa af sér til hinna leikmanna liðsins. Þetta eru sterkir leikmenn sem hafa mikla reynslu.



3. sæti: Breiðablik - 40 stig
Komnar: Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir, Petra Lind Sigurðardóttir
Farnar: Vanja Stefanovic, Edda Garðarsdóttir, Ólína G Viðarsdóttir, Björk Björnsdóttir, Þóra Björg Helgadóttir, Erna Sigurðardóttir (spilar ekki vegna meiðsla)
Hættar: Guðlaug Jónsdóttir, Elín Anna Steinarsdóttir, Hildur Sævarsdóttir,

Hvað segir Sigurður Ragnar?
Blikarnir eru með gott lið en hafa lent í rosalegri blóðtöku frá því í fyrra. Það má segja að liðið hafi mist 6 leikmenn í A-landsliðs klassa. Liðið á samt sem áður að vera í efri kantinum og er að mínu mati þriðja besta lið Landsbankadeildarinnar. Það þarf ekki mikið til að liðið fari ofar en til þess að það gerist þurfa yngri leikmenn liðsins að stíga upp og skara framúr í sumar. Þær þurfa að stíga skrefið frá því að vera efnilegar og verða góðar. Breiðablik er með sterka leikmenn eins og Guðrúnu Sóleyju Gunnarsdóttur, Bryndisi Bjarnadóttur og Gretu Mjöll Samúelsdóttur, en þær yngri þurfa að spila í sama klassa og þær til að liðið eigi raunhæfa möguleika á titlinum.

Styrkleikar:
Greta Mjöll, Guðrún Sóley og Bryndís Bjarna. Einnig eiga þær marga mjög efnilega leikmenn og ég er viss um það að ein eða tvær af þeim eiga eftir að stíga upp og standa sig mjög vel í sumar.

Veikleikar:
Það vantar fleiri reynslumikla leikmenn í liðið. Það má ekki mikið útaf bregða ef þessir þrír leikmenn meiðast þá er reynslan ekki mikil í liðinu. En þessir ungu leikmenn eiga flestar marga yngri landsleiki og hafa allt til að bera til að stíga þetta skref og verða virkilega góðir leikmenn í Landsbankadeildinni.

Gaman að fylgjast með:
Guðrúnu Sóley sem er lykileikmaður hjá Breiðablik og landsliðinu og Gretu Mjöll sem er með besta vinstri fótinn á landinu að mínu mati en á margt eftir ólært taktískt að mínu mati. Bryndis hefur verið mjög vaxandi í stöðu vinstri bakvarðar. Síðan eru tveir leikmenn sem að leika á miðjunni og eru þær framtíðar A landsliðskonur, þær Hlín Gunnlaugsdóttir og Laufey Björnsdóttir, þær leggja mikið á sig og hafa mikla hæfileika.

Lykilleikmaður:
Guðrún Sóley Gunnarsdóttir er leikmaður sem liðið mun leita mikið til sem leiðtoga, hún þarf að taka að sér að stýra liðinu og vera leiðtogi þess.




4. sæti: Keflavík - 34 stig
Komnar:Hildur María Helgadóttir, Jelena Petrovic, Sára Samúelsen
Farnir: Karen Pneglase, Linda O´Donell, Nína Ósk Kristindsóttir, Mist Elíasdóttir

Hvað segir Sigurður Ragnar?
ær geta átt góða leiki og náð góðum úrslitum en geta líka fallið niður eins og þegar þær töpuðu á móti KR 8-1 í vetur. Þær eru með virkilega góða einstaklinga og þar fara fremstar í flokki Björg Ásta og Guðný Þórðardætur sem munu vera lykilleikmenn fyrir liðið í sumar. Þær misstu Nínu aðalmarkaskorarann sem gerði 24 mörk í fyrra. Það munar mjög miklu að missa hana út en liðið er með tvo leikmenn frá Serbíu og eru vel mannaðar í markmannsstöðunni. Ég held að Salih Heimir Porca ætli sér að styrkja liðið enn frekar og ef það verða góðir leikmenn þá getur liðið blandað sér í toppbaráttuna. En eins og staðan er núna held ég að liðið eigi eftir að sigla lygnan sjó um miðja deild.

Styrkleikar:
Eru með 6-8 góða leikmenn. En það er mikill munur á þessum leikmönnum og hinum sem eru í byrjunarliðinu. Vantar örlítið fleiri góða leikmenn til þess að liðið verði í toppbaráttu. Lilja fyrirliði er mjög góður skallamaður og mikill leiðtogi í liðinu.

Veikleikar:
Breiddin. Mikill munur á bestu 6-8 leikmönnunum og hinum sem eru í byrjunarliðinu. Sóknarleikurinn gæti orðið smá áhyggjuefni þar sem Nína er farin og skoraði mikið fyrir þær en hinar verða þá að stíga upp.

Gaman að fylgjast með:
Guðný Þórðardóttir spilaði sinn fyrsta A-landsleik gegn Englandi og hún hefur mikinn hraða og kraft. Mér finnst hún ekki vera spila sína bestu stöðu, en hún er að spila frammi en mér finnst hún betri varnarmaður.

Lykilleikmaður:
Guðný Þórðardóttir fjölhæf, kraftmikil og hröð.





5. sæti: Stjarnan - 30 stig
Farnir: Alison M Jarrow
Komnar: Eyrún Guðmundsdóttir, Júlíana Einarsdóttir, Þórdís Pétursdóttir.

Hvað segir Sigurður Ragnar?
Stjarnan hefur átt slakt undirbúningstímabil. Lykileikmenn hafa verið mikið meiddir og við höfum séð mjög óvenjulegar tölur hjá Stjörnunni. Þær töpuðu meðal annars 11-0 fyrir Val og maður hefur séð í mörgum leikjum að liðið hefur hvorki verið fugl né fiskur. Þær hafa litla breidd og hafa þurft að spila á leikmönnum sem hafa verið með meiddar einungis til að ná í lið. Þetta er áhyggjuefni fyrir Jóhannes Karl þjálfara. Stjarnan gæti sokkið niður í neðri hlutann ef meiðslin halda áfram hjá þeim en liðið er að skríða saman. Liðið á nokkra góða leikmenn sem þurfa að vera heilar. Þær eru með Hörpu Þorsteinsdóttur sem er í landsliðsklassa og verður lykileikmaður hjá þeim í sóknarleiknum. Einnig eru þær með Helgu Sjöfn Jóhannesdóttur sem er góður leikmaður inni á miðjunni. Sandra markvörður hefur verið mikið meidd í vetur en er góður markmaður ef hún kemur sér í gott form. Björk Gunnarsdóttir mun jafnvel missa af fyrsta mánuði keppnistímabilsins. Það veikti liðið mikið þegar Harpa fór til Charlton en Stjarnan stólar á að þetta hafi verið góð reynsla fyrir hana og að hún eigi eftir að brillera í sumar.

Styrkleikar:
Þær hafa þessa leikmenn í liðinu sem eru afgerandi og eru virkilega góðir leikmenn. Það er það sem þær hafa umfram liðin sem eru fyrir neðan. Ef allar eru heilar er Stjarnan með gott byrjunarlið og geta strítt liðunum í toppbaráttunni en það má ekki mikið útaf bregða.

Veikleikar:
Nokkrir lykilleikmanna Stjörnunnar eru ekki í nógu góðu formi til að vera afgerandi leikmenn í sumar. Liðið hefur verið að fá á sig of mikið á mörkum á undirbúningstímabilinu. Þær mega lítið við skakkaföllum. Þær eru með sterkt byrjunarlið en það veikir liðið mikið þegar skipt er inná.

Gaman að fylgjast með:
Ég er spenntastur að sjá Hörpu og Helgju Sjöfn. Jóna er fljót í vörninni og agressív en þarf að laga tækni, sendingar og móttöku. Sandra markvörður þarf að koma sér í betra form en hún hefur verið mikið meidd. Síðan eru Inga Birna og Björk leikmenn sem geta gert góða hluti.

Lykileikmaður:
Harpa Þorsteinsdóttir sem að býr til mest fyrir Stjörnuna sóknarlega en þarf að bæta varnarleikinn hjá sér og líkamlegt form. Hún á þátt í nær öllum mörkum Stjörnunnar.




6. sæti: Fylkir - 27 stig
Komnar: Hlíf Hauksdóttir, Ragna Björg Einarsdóttir, Lovísa Sólveig Erlingsdóttir, Cecilla Maria Marrero, Guðrún Ása Jóhansdóttir, Björk Björnsdóttir, Sara Sigurlásdóttir
Farnar: Engar

Hvað segir Sigurður Ragnar?
Fylkisliðið hefur verið mjög vaxandi í vetur og það er lið sem getur komið á óvart, þær eru vel skipulagðar.og Björn þjálfari hefur náð að breikka hópinn og þær eru komnar með nokkuð öflugan og jafnan hóp. Þær hafa verið að fá meira sjálfstraust meðal annars með því að vinna KR 4-1 í Lengjubikarnum í vetur. Jafnframt eignaðist liðið landsliðskonu Önnu Björg Björnsdóttur þannig að það er margt jákvætt að gerast í Árbænum og vel haldið utanum kvennaboltann þar.

Styrkleikar:
Vel skipulagt lið og baráttuglaðir leikmenn. Anna Björg stendur þó uppúr og hefur verið dugleg að skora í vetur og ég held að hún eigi eftir að halda því áfram.

Veikleikar:
Ég hefði viljað sjá einn til tvo reynslubolta sem styrkja liðið enn frekar. Ég veit að Fylkir hefur verið að reyna að fá svoleiðis leikmenn en það hefur reynst erfitt.

Gaman að fylgjast með:
Anna Björg Björnsdóttir er með góð hlaup og er í góðu formi. Hún skilar boltanum vel frá sér og skorar mörk.

Lykileikmaður:
Anna Björg Björnsdóttir er þeirra besti maður.




7. sæti: Þór/KA - 18 stig
Komnar: Dragana Stojanovic, Ivana Ivanovic, Gerður Rún Ólafsdóttir
Farnar: Áslaug Baldvinsdóttir, Björk Nóadóttir, Eyrún Guðmundsdóttir, Hrafnhildur Guðnadóttir

Hvað segir Sigurður Ragnar?
Dragan Stojanovic þjálfar liðið og hefur verið að gera góða hluti með liðið í vetur. Eina landsbyggðarliðið sem spilar í eftu deild á Íslandi í fótbolta og þarf að halda merkjum landsbyggðarinnar á lofti. Liðið gæti orðið beitt sóknarlega hafa skorað mikið af mörkum á undirbúningstímabilinu.og þar hefur Rakel Hönnudóttir verið fremst í flokki en það er gríðarlega efnilegur senter sem spilar með u-19 ára landsliðinu og var valin í 40 manna æfingahóp. Rakel Hinriksdóttir hefur einnig verið öflug í liðinu sem varnatengiliður og ég hef heyrt mjög góða hluti um hana frá Dragan og þær eru þeir leikmenn sem ég mun fyrst og fremst skoða í sumar. Ég held að Þór sé lið sem gæti komið á óvart í sumar og þó svo að flestir telji að þær verði í botnbaráttuni geta þær vel tekið stig af Keflavík, Fylki og Stjörnunni. Þannig að þetta gæti orðið spútnikliðið í sumar.

Styrkleikar:
Liðið hefur ágætis hraða, þær virka í góðu formi og eru vel skipulagðar. Rakel Hönnudóttur hefur þrátt fyrir ungan aldur öðlast mikla reynslu og spilað mikið með meistaraflokki. Ég held að Rakel Hönnudóttir eigi eftir að springa úr í sumar hún skoraði að mig minnir 8 mörk í fyrra í deildinni og ég held hún eigi eftir að bæta þá tölu verulega í sumar.

Veikleikar:
Maður hefði viljað sjá fleiri góða leikmenn hjá þeim. Ég veit ekki hvort það standi til að bæta liðið enn frekar. En það er helsti munur á liðunum í efri og neðri hlutanum er fjöldi góðra leikmanna í hverju liði en Þór/KA hafa að vísu fengið leikmenn frá Serbíu og þær eru góður liðstyrkur fyrir þær og ég er mjög spenntur að sjá þær í sumar.

Gaman að fylgjast með:
Rakel Hönnudóttir er mest spennandi leikmaður liðsins.

Lykileikmaður:
Rakel Hönnudóttir. Liðið treystir á að hún muni skora mörkin í sumar.




8. sæti: Fjölnir - 13 stig
Komnar: Jóhanna Guðrún Jóhannesdóttir, Mist Elíasdóttir
Farnar: Gunnhildur H Steinþórsdóttir, Helena Konráðsdóttir,

Hvað segir Sigurður Ragnar?
Fjölnisliðið er að mínu mati sterkari en ÍR liðið en mun samt sem áður berjast við þær um að falla ekki úr deildinni. Liðið er tiltölulega reynslulítið og jafnt, fáar sem standa uppúr. Ég tel að þær eigi erfitt sumar fyrir höndum. Andrés Ellert Ólafsson þjálfar Fjölnisliðið og það verður mjög krefjandi verkefni hjá honum að halda liðinu í Landsbankadeildinni. Þær hafa styrkt sig með tveimur bandarískum leikmönnum en ég þekki ekki styrkleika þeirra nógu vel. Liðinu hefur gengið þokkalega á undirbúningstímabilinu og skorað slatta af mörkum. Það eru nokkrir ágætis leikmenn í Fjölnisliðinu og ef Andrés Ellert nær að skipuleggja liðið vel og nær upp góðri baráttu hjá liðinu þá er aldrei að vita ef þær geta náð nokkrum hagstæðum úrslitum gegn liðunum sem verða í neðri hlutanum í Landsbankadeildinni.

Styrkleikar:
Liðið er tiltölulega jafnt og ekki ein eða tvær sem þarf að passa eitthvað sérstaklega vel, þær eru margar jafnar og það getur verið gott. Kristrúnu Kristjánsdóttir er efnilegur leikmaður í U-19 ára landsliðinu. Hún er örvfætt og getur spilað kant og bakvörð, það er helst hún sem hefur heillað mig í Fjölnisliðinu.

Veikleikar:
Maður hefði viljað sjá liðið styrkja sig með einum eða tveim afgerandi leikmönnum. Það gerir þessu liði erfitt að hafa ekki reynslubolta. Það þarf oft einhvern reynslubolta til að draga vagninn og hvetja hina með sér. Ég sé ekki þennan leikmann hjá liðinu í fljótu bragði.

Gaman að fylgjast með:
Kristrún Kristjánsdóttir, flink með góðan vinstri fót.

Lykilleikmaður:
Kristrún Kristjánsdóttir.



9. sæti: ÍR - 6 stig
Komnar: Ásdís Jóna Sigurjónsdóttir, Birna Kristjánsdóttir, Courtney Jones, Harpa Ásgeirsdóttir, Mist Elíasdóttir Keflavík
Farnar: Anna Lovísa Þórsdóttir, Harpa Steinunn Steingrímsdóttir, Karen Inga Schulin Elvarsdóttir, Katrín Sif Oddgeirsdóttir, Rakel Árnadóttir.

Hvað segir Sigurður Ragnar?
ÍR-ingar eiga að mínu mati mjög erfitt verkefni fyrir höndum. Sumarið snýst um að ná hagstæðum úrslitum gegn liðunum í neðri kantinum og öðlast mikilvæga reynslu gegn þeim bestu. ÍR á enga raunhæfa möguleika gegn sterkari liðum deildarinnar og munu tapa nokkrum leikjum stórt í sumar. Liðið lenti í óvissu framan af vetri í hvaða deild þær myndu spila og það var ekki góð staða fyrir Halldór Halldórsson þjálfara.. Það er hins vegar jákvætt fyrir ÍR að fá að spila í Landsbankadeild og þær eiga eftir að fá mikla reynslu. Halldór hefur fengið tvo leikmenn frá Spáni og einn frá Bandaríkjunum, en styrkleika þeirra veit ég lítið um. Ef þær eru sterkir leikmenn þá er aldrei að vita og kannski ná þær að hífa sig aðeins upp töfluna en ég reikna þó með ÍR í einu af tveimur neðstu sætunum.

Styrkleiki:
Liðið hefur að geyma mjög sterkan leikmann sem hefur reyndar ekki spilað megnið af undirbúningstímabilinu en hún heitir Bryndís Jóhannesdóttir og er góður senter. Getur skorað mikið af mörkum og er reynsluboltinn hjá þeim. Ef að hún er með og í góðu formi þá getur ÍR skorað töluvert af mörkum.

Veikleikar:
Fyrst og fremst reynsluleysi. Það er gríðarlega mikill munur á Landsbankadeildinni og 1. deild þannig að margar hverjar eiga eftir að reka sig á vegg. Það vantar einfaldlega fleiri góða leikmenn í liðið til að liðið geti staðið í liðunum í efri kantinum.

Lykileikmaður:
Bryndís Jóhannesdóttir

Gaman að fylgjast með:
Ég er spenntur að sjá hvort að Bryndís Jóhannesdóttir leiki með liðinu. Ég hafði hana í huga í vetur fyrir 40 manna æfingahóp hjá landsliðinu en gat því miður ekki boðað hana þar sem hún var ekki að sinna æfingum nógu vel.
Athugasemdir
banner
banner