Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 25. maí 2007 12:01
Magnús Már Einarsson
Landsbankadeild: Leikmaður 3.umferðar - Helgi Sig (Val)
Helgi Sigurðsson í leiknum í gær.
Helgi Sigurðsson í leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net hefur í sumar valið leikmann umferðarinnar í efstu þremur deildum karla. Þriðja umferðin í Landsbankadeild karla fór fram í gær. Helgi Sigurðsson fór þá á kostum í 2-1 sigri Vals á KR þar sem hann skoraði bæði mörk liðsins og þar af sigurmarkið undir lokin. Helgi er leikmaður 3.umferðar á Fótbolti.net.

Helgi Sigurðsson
Framherjinn Helgi Sigurðsson er 32 ára gamall. Hann gekk til liðs við Val síðastliðið haust eftir að hafa leikið eitt ár með sínum gömlu félögum í Fram þar sem hann stóð sig vel og var valinn besti leikmaður fyrstu deildarinnar síðastliðið sumar en hann gerði 13 mörk þar. Helgi lék með Stuttgart 1994-1996 og eftir að hafa leikið með Fram árið 1997 fór hann til Stabæk. Helgi sem hefur skorað tíu mörk í 56 landsleikjum fyrir Íslands hönd lék síðan með Panathinaikos í Grikklandi, Lyn í Noregi og AGF í Danmörku áður en hann fór í Fram fyrir síðastliðið sumar Hann hefur skorað 38 mörk í 68 leikjum í efstu deild.
Skyldi það hafa komið Helga á óvart að vera valinn leikmaður umferðarinnar? ,,Ég sá ekki hina leikina og veit ekki hvernig menn stóðu sig en mér gekk vel og það er heiður að fá að vera valinn," sagði Helgi við Fótbolta.net í dag en hann hefur skorað þrjú mörk í fyrstu þremur umferðum Landsbankadeildarinnar.

,,Þetta er búið að ganga þokkalega vel hjá mér í byrjun móts. Ég hef sloppið við meiðsli og og þá er miklu auðveldara að vera í góðu formi. Aðalatriðið er að liðið er að finna sig vel líka og ég er sáttur við þetta fram að þessu þó að jafntefli við Fram svíði aðeins ennþá."

Helgi hefur skorað mörkin þrjú öll á Laugardalsvelli sem er heimavöllur Vals á meðan að framkvæmdir standa yfir að Hlíðarenda. Helgi finnur sig vel á Laugardalsvellinum en það var einnig heimavöllur hans í fyrra þegar hann lék með Fram í fyrstu deildinni.

,,Mér hefur yfirleitt gengið mjög vel þar og það er vonandi að það verði framhald á. Það er mikilvægast að liðinu gangi vel og hver skorar mörkin skiptir kannski ekki öllu máli. Það er auðvitað alltaf gaman fyrir senter að skora og sérstaklega í sigurleikjum. Það er vonandi að við höldum áfram á sömu braut því að mér finnst vera mikill stígandi í leik okkar."

Helgi segist setja pressu á sjálfan sig og hann segir það einnig vera pressu að koma í nýtt lið. ,,Ég set mikla pressu á sjálfan mig. Það er alltaf pressa finnst mér þegar að maður er að skipta um lið, að ná sínum fyrstu mörkum fyrir nýtt lið og sanna sig fyrir leikmönnum, stuðningsmönnum, þjálfara og öllu batteríinu. Það er mikilvægt að fara vel af stað og sýna allavega að maður geti gert hluti," sagði Helgi sem segist ekki vera farinn að setja stefnuna á markakóngstitil þrátt fyrir góða byrjun.

,,Nei nei alls ekki. Ég reyni að skora eins mikið og ég get og ef það gengur vel er ég hæstánægður. Það sem gengur fyrir er að Valsliðinu gangi vel, það er alveg ljóst."

Helgi hefur skorað tíu mörk í 56 landsleikjum með íslenska landsliðinu en síðasti landsleikur hans var gegn Svíum í október árið 2004. Skyldi hann ennþá gæla við að vera valinn í landsliðið?

,,Nei í sjálfu sér ekki, fyrst að ég er ekki valinn núna þá held ég að ég verði ekkert valinn. Ég held að hann sé ekkert með mig í huga þannig að ég geri mér engar vonir um það. Það er ekkert sem ég spái mikið í, ég ákvað fyrir tveimur árum að taka mér hvíld frá þessu og síðan hefur ekkert verið rætt við mig og þannig standa málin bara."

Leikið er þétt í Landsbankadeildinni þessa dagana og eftir sigur á Fylki síðastliðinn sunnudag og á KR í gærkvöldi er næsti leikur Vals gegn Blikum á útivelli á mánudag.

,,Það er alltaf gott að spila þétt þegar að liðinu gengur vel og er í góðu formi. Ég er fullur tilhlökkunar fyrir leikinn á mánudaginn en við gerum okkur grein fyrir því að það er nýr leikur og það þarf að taka á því 100% ef við ætlum að fá góð úrslit því að Breiðablik hafa verið að spila mjög vel í byrjun móts, miklu betur en stigin þeirra segja til um. Það verður erfiður leikur og við gerum okkur grein fyrir því," sagði Helgi Sigurðsson leikmaður 3.umferðarinnar í Landsbankadeildinni að lokum við Fótbolta.net.

Sjá einnig:
Leikmaður 2.umferðar - Bjarni Þórður Halldórsson (Víkingi)
Leikmaður 1.umferðar - Matthías Guðmundsson (FH)
Athugasemdir
banner
banner
banner