Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, var ekki alveg fullkomlega sáttur við leik sinna manna í kvöld þrátt fyrir sannfærandi 3-0 sigur á HK.
Sigurinn virtist aldrei vera í hættu eftir að Keflavík komst yfir á 28. mínútu en Kristján neitaði að sigurinn hafi verið auðveldur.
,,Nei nei, HK létu okkur vinna fyrir þessu og við náðum ekkert upp okkar besta leik á móti þeim. Alls ekki svo auðvelt,” sagði Kristján við Fótbolti.net eftir leikinn.
Þeir bláklæddu fengu fjölda tækifæra til þess að bæta við fleiri mörkum og hinn hógværi Kristján Guðmundsson var sammála því.
,,Já, við tókum ekki nógu margar réttar ákvarðanir inn í teignum. Eins og ég segi, þetta var ekki mjög léttur leikur. Þeir gerðu okkur erfitt fyrir. Það er enginn leikur auðveldur.”
,,Við hefðum viljað vera með fleiri stig en þetta er bara staðan eins og hún er og við verðum að vinna út frá henni,”sagði Kristján að lokum.
Athugasemdir