Kristján Jóhannsson skrifar úr Keflavík
Keflavík 2 - 1 Fram
1-0 Þórarinn Kristjánsson 14 mín
1-1 Hjálmar Þórarinsson 33 mín
2-1 Baldur Sigurðsson 55 mín
1-0 Þórarinn Kristjánsson 14 mín
1-1 Hjálmar Þórarinsson 33 mín
2-1 Baldur Sigurðsson 55 mín
Fyrstu mínútur leiksins voru frekar rólegar en fyrsta færi leiksins kom á 9. mínútu. Jónas Grani nikkaði boltanum til Ívars Björns sem skyndilega var einn á móti Ómari markmanni en fór illa að ráði sínu og setti boltann hátt yfir. En það leið ekki á löngu þar til fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós og þar voru heimamenn að verki . Guðmundur Steinarsson átti frábæra sendingu á Þórarinn Kristjánsson sem skallaði boltann örugglega í netið. Keflvíkingar sýndu mikla yfirvegun, héldu boltanum vel innan liðsins og svo einmitt á réttu augnabliki kom sendingin og Þórarinn aleinn á auðum sjó á meðan varnarmenn Fram sváfu værum blundi.
Keflvíkingar voru eftir markið örlítið öflugri en Framarar voru þó nærri því að jafna á 24. mín en Guðjón bjargaði á línu eftir að sending Theadórs Óskarssonar breytti skyndilega um stefnu eftir að hafa haft viðkomu í Kenneth Gustafsson.
Keflvíkingar fóru svo hægt og bítandi að slaka á og Framarar komust aðeins meira inn í leikinn en þó var jafnræði með liðnum. Jónas Sævarsson átti gott skot eftir sendingu frá Guðmundi Steinars en það fór rétt framhjá marki Framara. Rétt á eftir náði Theadór boltanum af Kenneth eftir mikla baráttu en náði ekki að gera sér mat úr því. Kæruleysislegt hjá Svíanum en Teddi sýndi að eitthvert lífsmark var með Frömurum.
Á 30 mín tók Marco Kotilainen eina af sínu fjölmörgu stórhættulegum hornspyrnum, boltinn endaði á kollinum á Baldri sem skallaði rétt framhjá. Hefði átt að gera betur.
Aðeins tveimur mínútum eftir það slapp Jónas Grani einn í gegn eftir klafs fyrir framan teig Keflvíkinga en í stað þess að skjóta þá ákvað hann að reyna leika á Ómar en missti boltann of langt frá sér og ekkert varð úr stórgóðu færi. En Framarar bættu fljótlega upp þau mistök þegar þeir náðu að jafna leikinn. Þar var að verki Hjálmar Þórarinsson eftir góðan undirbúning Theadórs Óskarssonar. Hjálmar fékk góða sendingu inn fyrir vörn Keflvíkinga sem var helst til of flöt og lagði boltann laglega í fjærhornið. Illviðráðanlegt fyrir Ómar.
Í uppbótartíma fyrri hálfleiks átti Marco glæsilegt skot rétt fyrir utan teig en boltinn small í stönginni. Símun átti gott hlaup upp vinstri kantinn og sendi lága sendingu sem lak í gegnum 3 Framara og á Marco.
Seinni hálfleikurinn var töluvert rólegri. Fyrsta færið kom eftir skemmtilega hælspyrnu Jónasar Grana inn fyrir vörn Keflvíkinga á Ívar Björnsson sem kominn var einn á móti Ómari en sá síðarnefndi varði einstaklega vel. Ívar hefði átt að gera betur og getur nagað sig í handarbökin eftir þennan leik því hann fór virkilega illa með 2 dauðafæri.
Um miðjan seinni hálfleikinn vildu Keflvíkingar fá vítaspyrnu þegar brotið var á Símun en Sævar Jónsson var í góðri aðstöðu og lét leikinn halda áfram.
Sigurmark Keflvíkinga kom svo á 55 mín þegar Baldur Sig skoraði af stuttu færi eftir góðan undirbúning Guðmundar Steinarssonar. Eftir þetta náðu Framarar lítið að bíta frá sér og Keflvíkingar voru nærri því að auka muninn en Framarar að jafna þegar Baldur einlék í gegnum vörn Framara og kom boltanum á Hallgrím sem ákvað að vippa yfir Hannes Þór en vippaði einnig yfir markið. Einstaklega vel gert hjá Baldri en ekki eins vel gert hjá Hallgrími sem var kominn framar á völlinn eftir skiptingar hjá Keflvíkingum.
Heilt yfir voru Keflvíkingar alltaf skrefi á undan án þess þó að spila góðan leik. Það er góðs viti fyrir Kristján og hans menn að ná 3 stigum eftir spilamennsku sem þessa en að sama skapi áhyggjuefni fyrir Ólaf Þórðarson og lærisveina hans. Það var andleysi yfir leik Framara og þeir náðu aldrei að ógna neitt að viti.
Erfitt er að telja upp leikmenn úr röðum Framara sem stóðu upp úr en Jónas Grani átti fína spretti inn á milli sem og Theadór Óskarsson en þeir týndust alltof lengi. Ómar Jóhannsson stóð vaktina vel en það er erfitt að vera markmaður í svona leik, rólegur leikur og einbeitingin gæti átt til með dofna en hann hélt henni. Guðmundur Steinarsson átti fína spretti og lagði upp bæði mörk Keflvíkinga og annað með stórglæsilegri sendingu. Baldur og Jónas eru mjög traustir á miðjunni og klikka sjaldan.
Framarar verða taka sig verulega á ef þeir ætla ekki að fara beina leið niður aftur en Keflvíkingar sem áttu ekkert sérstakan leik fengu það sem bæði liðin sóttust eftir og það eru 3 stig.
Byrjunarlið Keflavíkur: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Kenneth Gustafsson, Jónas Guðni Sævarsson, Guðmundur Steinarsson, Símun Samuelsen, Baldur Sigurðsson, Marco Kotilainen, Þórarinn Brynjar Kristjánsson, Hallgrímur Jónasson, Branislav Milicevic
Byrjunarlið Fram:
Hannes Þór Halldórsson, Óðinn Árnason, Ingvar Þór Ólason, Theadór Óskarsson, Jónas Grani Garðarsson, Hjálmar Þórarinsson, Andri Lindberg Karvelsson, Igor Pesic, Ívar Björnsson, Kristján Hauksson
Athugasemdir