KSÍ boðaði til fréttamannafundar í dag þar sem tilkynnt var val á liði,leikmanni, þjálfara og dómara umferða 1-6 í Landsbankadeildinni valið af fjölmiðlum en auk þess var tilkynnt val á stuðningsmönnum umferðanna sem KSÍ sér sjálft um að velja með sínum fulltrúum.
Pumasveitin, stuðningsmannasveit Keflavíkur, fékk stuðningsmannaverðlaunin að þessu sinni en ljóst er að stuðningur þeirra við lið sitt er til fyrirmyndar og alltaf gaman að fylgjast með þeim.
En það vekur þrátt fyrir allt mikla furðu fyrir hvað er verðlaunað því mjög samdóma álit virðist vera í fótboltaheiminum að það hafi verið stuðningsmenn KR, Miðjan, sem stóðu sig langbest allra í þessum fyrstu sex umferðum Íslandsmótsins.
Stuðningsmenn KR, hafa vakið mikla athygli í ár fyrir að syngja allan leiktímann þrátt fyrir að gengi liðsins hafi verið slakt hafa þeir ekki gefist upp og sungið til leiksloka og jafnvel lengur en það.
Athyglisvert er að KSÍ horfi framhjá þeirra frammistöðu og eins og áður hefur verið gert hér á þessari síðu hljótum við að spyrja okkur hvort um sé að ræða stuðningsmannakeppni eða á hvaða forsendum þessi verðlaun eru gefin. Gaman væri ef rökstuðningur fylgdi slíku vali á stuðningsmönnum umferðanna svo menn skilji valið.
KR-ingar, Fótbolti.net velur ykkur stuðningsmenn 1-6 umferða, þið eigið það skilið.
Athugasemdir