Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   fim 21. júní 2007 06:10
Magnús Már Einarsson
Frá Old Trafford í Mosfellsbæ: Viðtal við Aaron Burns
Aaron Burns á æfingu hjá Aftureldingu.
Aaron Burns á æfingu hjá Aftureldingu.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Aaron í leiknum gegn Magna á Grenivík.
Aaron í leiknum gegn Magna á Grenivík.
Mynd: Stefán Pálmason
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Það ráku margir upp stór augu þegar að Afturelding úr annarri deild fékk Aaron Burns framherja úr varaliði Manchester United til liðs við sig. Aaron mun leika með Aftureldingu í um það bil mánuð áður en hann fer til Cardiff City á reynslu. Aaron skoraði úr vítaspyrnu í sínum fyrsta leik fyrir Aftureldingu gegn Magna Grenivík um síðustu helgi en hann mun vera í eldlínunni með liðinu gegn Sindra annað kvöld.

,,Á Englandi er tímabilið búið og ég var heima þegar að ég fékk símtal. Ég held að þetta sé góð leið til að halda mér í formi og vera tilbúinn þegar ég fer aftur til Englands," sagði Aaron við Fótbolta.net aðspurður út í þá ákvörðun að fara í íslensku 2.deildina.

,,Ég fer til Cardiff á reynslu 15.júlí. Ég verð þar í tíu daga og vonandi mun ég fá samning hjá Cardiff. Leeds, Huddersfield og Scunthorpe hafa einnig áhuga en ég mun bíða og sjá."

Aaron vissi lítið um Ísland áður en hann kom. ,,Ég kom til Íslands án þess að vita mikið um landið. Þetta er öðruvísi en mér finnst þetta fínt."

,,Það er mikill munur á löndunum og leikstílnum en þetta er mikil reynsla og ég vonast til að venjast íslenska fótboltanum,"
bætti Aaron við.

Aaron hefur verið á mála hjá Manchester United í tíu ár en þessi 19 ára gamli leikmaður fékk ekki nýjan samning hjá félaginu og er hann því laus allra mála.

Aaron spilaði engan mótsleik með aðalliði Manchester United en hann lék með varaliðinu og skoraði meðal annars þrennu gegn Wigan á síðasta tímabilin.

,,Ég spilaði enga mótsleiki en ég hef æft og spilað með öllum leikmönnunum. Ég fékk númer og ferðaðist með aðalliðinu í leik gegn Crewe í deildabikarnum á nýliðnu tímabili en komst ekki á bekkinn."

Eftir tíu ára feril hjá Manchester United á hann marga vini hjá félaginu. ,,Ég á marga góða vini þar. Ég var í tíu ár hjá félaginu og hef alist upp með Fraizer Campbell og Daniel Simpson sem eru mjög nánir vinir mínir. Fólk kemur og fer í gegnum árin en ég á marga vini hjá Manchester United."

Gamla kempan Brian McClair þjálfar varalið Manchester United og Aaron var ánægður með hann.

,,Hann er mjög góður þjálfari, fínn maður og ég naut tímans sem ég var að vinna með honum, hann er reyndur," sagði Aaron sem ber Sir Alex Ferguson einnig söguna vel.

,,Hann er einnig fínn maður sem tekur fótboltann mjög alvarlega. Hann er sigurvegari og vill alltaf sigra."

Aaron æfði af og til með með aðalliði Manchester United en hann segir vera svolítinn mun á að æfa með Cristiano Ronaldo og Wayne Rooney annarsvegar og leikmönnum Aftureldingar hins vegar.

,,Auðvitað er mikill munur. Ronaldo og Wayne Rooney eru í heimsklassa, fullkomnir á öllum sviðum en fótboltinn á Íslandi er ekki fullkominn á öllum sviðum."

,,Íslendingar leggja mjög hart að sér og vilja vinna alltaf, þetta er góður fótbolti og allir elska fótbolta,"
sagði Aaron sem fékk tækifæri til að leika á Old Trafford í vor þegar hann spilaði gegn Manchester City í úrslitaleik bikarkeppni í Manchester borg.

,,Það er mjög gaman, eitthvað sem þig dreymir um, ég fékk möguleika á að spila þar og naut þess. Því miður töpuðum við 3-1," sagði Aaron að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner