Víkingur 1 - 2 Keflavík
Valur Úlfarsson, Þorvaldur Sveinn og Guðmundur Steinarsson í mikilli baráttu um boltann sem er þó hvergi sjáanlegur.
0-1 Þórarinn Brynjar Kristjánsson (46)
1-1 Sinisa Valdimar Kekic (víti 75)
1-2 Guðmundur Steinarsson (víti 93)
Rauð spjöld: Sinisa Valdimar Kekic, Víkingur (76) - Hörður Sigurjón Bjarnason, Víkingur (97)
1-1 Sinisa Valdimar Kekic (víti 75)
1-2 Guðmundur Steinarsson (víti 93)
Rauð spjöld: Sinisa Valdimar Kekic, Víkingur (76) - Hörður Sigurjón Bjarnason, Víkingur (97)
Heimamenn gerðu tvær breytingar frá tapleiknum gegn Val í síðustu umferð. Hörður Sigurjón Bjarnason var orðinn heill af meiðslum og tók því stöðu sína í vinstri bakverði og þá byrjaði Arnar Jón Sigurgeirsson sinn fyrsta leik í sumar á hægri kantinum á kostnað Stefáns Kára Sveinbjörnssonar.
Það voru fá marktækifæri sem litu dagsins ljós í fyrri hálfleiknum. Það fyrsta áttu Keflvíkingar þegar Bjarni Þórður Halldórsson þurfti að verja skalla Kenneth Gustafsson eftir hornspyrnu. Bjarni varði boltann út í teig þar sem Baldur Sigurðsson fékk líka tækifæri til að skalla en framhjá.
Upp úr því fengu Víkingar annað af tveimur skotum sínum á markið í fyrri hálfleik. Egill Atlason fékk þá að snúa fyrir miðjum vítateig Keflvíkinga og átti ágætis skot af löngu færi en boltinn beint á Ómar Jóhannsson í markinu.
Besta færi hálfleikssins fékk svo Þórarinn Brynjar Kristjánsson. Sinisa Kekic átti þá hörmulega sendingu aftur á Grétar Sigfinn í vörninni sem Þórarinn komst inn í, fór auðveldlega fram hjá Grétari en skot hans einn gegn Bjarna yfir markið.
Það tók Keflavík undir mínútu að skora í seinni hálfleik. Lagleg sókn þeirra endaði þá með því að Þórarinn Brynjar Kristjánsson fékk skotfæri í teignum. Hann hitti ekki boltann en sofandi varnarmenn Víkinga gerðu enga atlögu að knettinum og skaut Þórarinn því bara aftur og skoraði með glæsilegu skoti.
Gunnar Kristjánsson fékk ágætis færi fyrir Víkinga á 59. mínútu þegar Sinisa Kekic lét langa sendingu Þorvaldar Sveins detta yfir sig og beint á Gunnar sem átti ágætis skot vinstra meginn úr teignum en yfir.
Baldur Sigurðsson gat auðveldlega bætt við marki fyrir Keflavík á 63. mínútu en hann átti þá skalla frá markteig eftir frábæran undirbúning Símun Samuelsen en skallinn beint á Bjarna í markinu sem greip boltann.
Bjarni þurfti aftur að taka á stóra sínum skömmu síðar þegar hann varði góða aukaspyrnu Marco Kotilainen undir slánni í horn.
Á 75. mínútu varð svo allt vitlaust í Víkinni. Sinisa Kekic fékk þá stungusendingu inn fyrir vörn Keflavíkur að því virtist frá samherja en Oddbergur Eiríksson aðstoðardómari flaggaði Kekic rangstæðan og um leið braut Guðjón Árni Antoníusson hressilega á Kekic. Þegar allir héldu að rangstaða hafði verið dæmd benti Jóhannes Valgeirsson dómari á punktinn og dæmdi vítaspyrnu við mikla reiði Keflvíkinga.
Jóhannes sagði leikmönnum Keflavíkur að sendingin hafði borist af leikmanni Keflavíkur og ef svo er þá réttilega var engin rangstaða en vekur þá furða afhverju Guðjón Árni fékk ekki reisupassann því Kekic var augljóslega kominn einn gegn markverði.
Eftir langar umræður og gult spjald á Símun Samuelsen fór Sinisa Valdimar Kekic á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi en ballið var þá langt frá því að vera búið. Kekic brunaði inn í markið til að sækja boltann og lenti þá aftur í klafsi við Guðjón Árna sem lá eftir viðskiptin.
Enginn sá hvað gerðist nema aðstoðardómarinn fjær sem fór á tal við Jóhannes dómara. Upp úr þeim samræðum var úrskurðað gult spjald á Baldur Sigurðsson og rautt á Sinisa Kekic fyrir að slá til Guðjóns í viðskiptum þeirra eftir markið.
Keflvíkingar pressuðu eftir þetta einum fleiri en voru ekki mjög líklegir til að skora. Víkingar spiluðu vel einum færri og gerðu gestunum mjög erfitt fyrir sóknarlega. Það var helst Símun Samuelsen sem gerði góða hluti úti á vinstri kantinum en samherjar hans voru sjaldnast með á nótunum.
Áhrif Jóhannesar Valgeirssonar dómara á leikinn voru ekki búin því þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma dæmdi hann víti á Víkinga og sagði Val Úlfarsson hafa togað niður Baldur Sigurðsson inn í teignum.
Mótmæli Víkinga dugðu skammt því vítaskytta Suðurnesjapilta Guðmundur Steinarsson átti ekki í vandræðum með að skora úr spyrnunni.
Víkingar komu sér svo í enn meira klandur fyrir næsta leik þegar Hörður Sigurjón Bjarnason fékk sitt annað gula spjald þegar sjö mínútur voru komnar fram yfir leiktímann og þar með rautt og á yfir höfði sér leikbann eins og Kekic.
Helsta spurningin verður hvort leikbann Kekic verði einn eða tveir leikir en mikilvægur sigur hjá Keflavík eru komnir í 2. sætið á eftir FH.
Víkingur (4-5-1): Bjarni Þórður Halldórsson, Þorvaldur Sveinn Sveinsson, Grétar Sigfinnur Sigurðarson, Valur Adolf Úlfarsson, Hörður Sigurjón Bjarnason, Jón Björgvin Hermannsson, Jökull I. Elísabetarson, Arnar Jón Sigurgeirsson (Stefán Kári Sveinbjörnsson 82), Sinisa Valdimar Kekic, Gunnar Kristjánsson, Egill Atlason (Björn Viðar Ásbjörnsson 57).
Ónotaðir varamenn: Magnús Þór Magnússon (M), Haukur Armin Úlfarsson, Hermann Albertsson, Viktor Sigurjónsson, Kristján Vilhjálmsson.
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson (M), Guðjón Árni Antoníusson, Guðmundur Viðar Mete, Kenneth Ingemar Gustafsson, Branislav Milicevic, Maro Kotilainen, Jónas Guðni Sævarsson, Baldur Sigurðsson, Símun Eiler Samuelsen, Þórarinn Brynjar Kristjánsson (Hallgrímur Jónasson 68), Guðmundur Steinarsson.
Ónotaðir varamenn: Bjarki Freyr Guðmundsson (M), Nicolai Jörgensen, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Einar Orri Einarsson, Þorsteinn Atli Georgsson, Stefán Örn Arnarson.
Tölfræði:
Skot: Víkingur 5 - 16 Keflavík
á mark: Víkingur 4 - 8 Keflavík
Horn: Víkingur 4 - 7 Keflavík
Rangstaða: Víkingur 3 - 1 Keflavík
Aukaspyrnur fengnar: Víkingur 11 - 21 Keflavík
Gul spjöld: Víkingur - Hörður Sigurjón Bjarnason (89). Keflavík - Símun Eiler Samuelsen (73), Baldur Sigurðsson (76)
Rauð spjöld: Víkingur - Sinisa Valdimar Kekic (76), Hörður Sigurjón Bjarnason (97)
Maður leiksins: Jónas Guðni Sævarsson (Keflavík)
Dómari: Jóhannes Valgeirsson, slakur.
Aðstæður: Fínasta veður en völlurinn hörmung.
Áhorfendur: Rúmlega 750
Athugasemdir