Tveir stuðningsmenn FH voru handteknir í stúkunni á Laugardalsvelli í kvöld á meðan á leik liðsins gegn Valsmönnum í áttundu umferð Landsbankadeildarinnar stóð. Handtakan fór fram snemma í síðari hálfleik en atvikið má rekja til uppákomu sem varð í hálfleik.
Málið hófst á því að vallarstjóri Laugardalsvallar gekk upp í stúkuna á meðal stuðningsmanna FH og reyndi að taka af þeim tösku vegna gruns um að áfengi væri í henni.
Stuðningsmennirnir neituðu að láta hana af hendi og upphófst því barátta milli hans og þeirra um töskuna. Í átökunum var derhúfu slegið af vallarverðinum sem gekk skömmu síðar burtu með töskuna og hringdi á lögreglu og aðskotahlutum var hent í átt að honum.
Nokkrum mínútum síðar bar að mikinn fjölda sérsveitar lögreglumanna sem gengu að þeim stuðningsmanni sem sló húfuna af vallarstarfsmanninum og báðu um skilríki sem hann fúslega veitti. Hann ýtti hinsvegar við lögreglumönnunum skömmu síðar og bað þá að færa sig því hann væri að horfa á leikinn. Í kjölfarið var hann handtekinn með átökum og annar maður fór sömu leið í átökunum.
Stuðningsmenn FH voru mjög ósáttir við að vera ekki heimilað að drekka bjór í stúkunni enda var bjór veittur í svokallaðri VIP stúku rétt fyrir ofan þá og þeim þykir mönnum gróflega mismunað eftir stétt og stöðu. Auk þess vildu þeir meina að vallarstjóri hefði enga heimild til að taka frá þeim persónulegar eigur þeirra.
Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu upp á síðkastið um stéttarskiptinu á Laugardalsvelli þar sem þeir sem fá aðgang í VIP stúkunni hafa fengið að neyta áfengis en hinum megin við glerið er það bannað. Ljóst er að uppákoman í kvöld hefði aldrei átt sér stað ef öllum áhorfendum hefði verið gert jafnt undir höfði enda hófst uppákoman með inngripi vallarstjórans.
Henry Birgir Gunnarsson blaðamaður á Fréttablaðinu hefur mikið fjallað um þessi mál á bloggsíðu sinni en þar minnti hann nýlega á orð Þóris Hákonarsonar framkvæmdastjóra KSÍ í Fréttablaðinu þar sem hann ítrekar að bjór er bannaður allstaðar á Laugardalsvelli, einnig bakvið glerið.
Ummælin voru þessi: ,,Það verður auðvitað ekki hvikað frá þeirri stefnu að áfengisneysla, og sala áfengis, á leikjum er bönnuð og það á við um allt vallarsvæðið þar sem leikurinn fer fram. Þetta yfirbyggða rými á Laugardalsvelli fellur að sjálfsögðu undir það líka og það er ekki hugsað sem áhorfendasvæði þar sem útvaldir geta verið að höndla með áfengi. Stefna KSÍ í þessum efnum er skýr og frá henni verður ekki vikið. Félögin sem hafa afnot af aðstöðunni þegar heimaleikir þeirra fara fram verða hins vegar að bera ábyrgð á því að þessari stefnu sé framfylgt.”
Sjá einnig:
Bloggsíða Henry Birgis
Athugasemdir