Keflavík 1 - 1 KR
1-0 Simun Samuelssen (´78)
1-1 Björgólfur Takefusa (´82)
1-1 Björgólfur Takefusa (´82)
Það var gríðarleg eftirvænting fyrir leik Keflvíkinga og KR á Keflavíkurvelli í kvöld en leikurinn var mjög mikilvægur fyrir bæði lið. Keflvíkingar urðu að vinna til að halda í við FH og Val en KR ingar þurftu á sigri að halda í botnbaráttunni. KR-ingar hafa átt í miklum vandræðum með Keflvíkinga hingað til. Teitur Þórðarson heldur áfram að treysta á ungu strákana en lið Keflvíkinga var hinsvegar mjög hefðbundið í kvöld.
Leikurinn byrjaði fremur rólega og var sem bæði lið ætluðu að einbeita sér að spila skynsaman og agaðan varnarleik. Á 10.mínútu fengu KR-ingar ágætis færi þegar Skúli Jón sendi boltann frá hægri, beint á kollinn á Sigmundi Kristjánssyni en Ómar Jóhannsson varði skalla hans glæsilega.
Á 20.mínútu voru Keflvíkingar í stórsókn en Guðmundur Steinarsson brunaði þá upp hægri kantinn, hann lék á Guðmund Reyni og sendi boltan fyrir markið þar sem Þórarinn Kristjánsson var í dauðafæri í markteig K- inga en Stefán Logi varði skalla hans frábærlega og KR-ingar hreinsuðu í horn. Guðmundur Steinarsson tók hana og sending hans fór beint á kollinn á Baldri Sigurðssyni en skalli hans fór í slánna, boltinn datt inní vítateig þar sem KR-ingar náðu að hreinsa í horn.
KR-ingar sóttu mikið í sig veðrið eftir þetta og á 29.mínútu tók Rúnar Kristinsson hornspyrnu frá hægri, fyrirgjöf hans fór beint á Guðmund Pétursson, hann skallaði boltann inní markteig þar sem Tryggvi Bjarnason kom á ferðinni og skallaði boltan en Ómar Jóhannsson varði meistaralega.
Á 36. mínútu fengu KR-ingar ákjósanlegt tækifæri til að komast yfir en þá var Kristinn Magnússon felldur augljóslega inní vítateig Keflvíkinga, Jóhannes Valgeirsson dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu. Það var Rúnar Kristinsson sem fór á punktinn í þetta skipti en víti hans var arfaslakt og auðveldlega varið af Ómari Jóhannssyni markverði Keflavíkur en þetta var fjórða víti KR inga sem fór forgörðum á aðeins viku. Fyrri hálfleikurinn fjaraði smám saman út og ekkert markvert gerðist eftir þetta.
Seinni hálfleikurinn byrjaði fremur rólega en mikið fjör færðist í leikinn þegar líða tók á. Á 60.mínútu átti Rúnar Kristinsson sendingu innfyrir á Skúla Jón Friðgeirsson sem komst í gott færi en skot hans fór yfir markið. Baldur Sigurðsson fékk ágætt færi hjá Keflvíkingum stuttu síðar en Stefán Logi náði að verja skot hans í horn.
Keflvíkingar sóttu meira en KR ingar héldu sig aftarlega og reyndu að beita skyndisóknum úr einni slíkri átti Sigmundur Kristjánsson góða sendingu innfyrir vörn Keflvíkinga, Skúli Jón var kominn einn gegn Ómari en fyrsta snerting Skúla var slæm og hann missti boltann beint í hendurnar á Ómari. Rúnar Kristinsson átti svo gott skot úr þröngu færi í utanverða stöngina.
Keflvíkingar færðu lið sitt framar og sóknarþungi þeirra bar árangur á 78. mínútu þegar Baldur Sigurðsson átti skot sem varnarmenn KR komust fyrir, boltinn barst til Simun Samuelsen sem þrumaði boltanum í netið úr miðjum vítateig KR inga.
Við þetta gerði Teitur Þórðarsson þrjár breytingar á liði sínu, Björgólfur Takefusa, Óskar Örn Hauksson og Grétar Ólafur Hjartasson komu inn á og bar það fljótt árangur þar sem Björgólfur fékk sendingu innfyrir vörn Keflvíkinga og skoraði hann gott mark úr þröngu færi. Björgólfur skaut föstu skoti á nærstöngina framhjá Ómari og staðan þar með orðin 1-1 einungis 8.mínútur eftir af leiknum.
Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu að skora sigurmark leiksins en þrátt fyrir þunga pressu í lokin gekk það ekki upp og jafntefli því niðurstaðan í ágætum leik.
Keflavík Ómar Jóhannsson – Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Branislav Milicevic, Nicolai Jörgensen – Marco Kotalainen, Baldur Sigurðsson, Hallgrímur Jónasson (Högni Helgason 85), Simun Samuelssen – Guðmundur Steinarsson – Þórarinn Kristjánsson (Einar Orri Einarsson 60)
Ónotaðir varamenn: Bjarki Guðmundsson, Þorsteinn Georgsson, Davíð Örn Hallgrímsson, Garðar Eðvaldsson, Sigurbjörn Hafþórsson.
KR Stefán Logi Magnússon – Eggert Rafn Einarsson, Gunnlaugur Jónsson, Tryggvi Bjarnason, Guðmundur Reynir Gunnarsson – Sigmundur Kristjánsson, Kristinn Magnússon, Ásgeir Örn Ólafsson, Skúli Jón Friðgeirsson(Óskar Örn Hauksson 82) – Rúnar Kristinsson (Grétar Hjartarson 82) Guðmundur Pétursson (Björgólfur Takefusa 72)
Ónotaðir varamenn: Kristján Finnbogason, Pétur Marteinsson, Ingimundur Óskarsson.
Tölfræði:
Keflavík - KR
Skot: 16 - 9
á mark: 7 - 5
Horn: 12 - 6
Rangstaða: 0 - 2
Aukaspyrnur fengnar: 13 - 11
Gul spjöld: Skúli Jón (KR) 33 mín fyrir brot, Sigmundur (KR) 50.Mínutu fyrir mótmæli, Ásgeir Örn (KR) Fyrir brot
Maður leiksins: Baldur Sigurðsson, Keflavík
Dómari: Jóhannes Valgeirsson, ágætur
Aðstæður: Frábært veður og völlurinn ágætur
Áhorfendur: 2330
Athugasemdir