Dean Martin var í hádeginu í dag ráðinn þjálfari 1.deildarliðs KA en hann hefur gert þriggja ára samning við félagið. Martin mun einnig leika með KA en hann hefur undanfarin þrjú ár leikið með ÍA.
,,Hann þjálfaði yngri flokka hér hjá KA í nokkur ár við góðan orðstír. Við misstum mjög góðan mann þegar hann fór upp á Skaga en við erum að fá hann heim aftur," sagði Tómas Lárus Vilbergsson formaður knattspyrnudeildar KA við Fótbolta.net í dag.
Martin sem er frá Englandi kom fyrst til KA sumarið 1995. Hann lék með liðinu til ársins 2004 en þó með hléum þar sem hann lék erlendis og einnig með ÍA árið 1998.
Í sumar lék þessi 35 ára gamli kantmaður einungis fimm leiki með Skagamönnum í Landsbankadeildinnu en hann átti mikið við meiðsli að stríða.
Dean tekur við liði KA af Pétri Ólafssyni en liðið endaði í ellefta sæti í fyrstu deildinni í sumar eftir að hafa verið lengi í fallbaráttu.
Athugasemdir