Þá er komið að liðnum "Hvað er að frétta?" hér á Fótbolti.net en þar tökum við púlsinn hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild en á næstunni verður liðurinn á dagskrá tvisvar í viku.
Í dag kíkjum við á Sauðárkrók en Tindastóll er komið að nýju upp í aðra deild þar sem liðið mun leika í sumar.
Róbert Jóhann Haraldsson spilandi þjálfari liðsins svaraði nokkrum spurningum fyrir komandi tímabil.
Hvernig er stemningin á Sauðárkróki þessa dagana?
Stemningin er bara nokkuð góð. Við fórum á fyrstu grasæfinguna okkar s.l. fimmtudag og leikmenn voru eins og beljurnar á vorin, enda langþreyttir á hlaupaæfingum og æfingum í reiðhöllinni. Aðstaða til knattspyrnuiðkunnar er ekki góð á Króknum og oft öfunda ég kollega mina sem eru með æfingar í innanhús höllunum yfir vetrar mánuðina. Það ríkir mikil spenna og eftirvænting hjá okkur að hefja íslandsmótið þann 16. maí og taka þátt í alvöru deild með 22 leikjum, þar sem allir leikir skipta máli.
Er liðið mikið breytt frá því síðastliðið sumar?
Það eru töluverðar breytingar frá fyrra ári, ég notaði vel yfir 30 leikmenn í fyrra og ég held að 12-13 leikmenn séu farnir af ýmsum ástæðum. Í staðinn höfum við fengið þrjá leikmenn sem hafa mikla reynslu og koma til með að styrkja okkur. Svo má ekki gleyma ungu drengjunum sem eru árinu eldri en í fyrra og þar eigum við nokkra mjög efnilega sem munu án efa banka á dyrnar hjá meistaraflokknum. Hópurinn sem ég hef úr að velja telur um 25 leikmenn, þannig að það er engin örvænting hjá okkur í leikmannamálum.
Þrír norskir leikmenn voru til skoðunar hjá ykkur á dögunum, munið þið semja við þá?
Nei, við munum ekki bjóða þeim á Krókinn. Þetta var eins konar tilraunarverkefni sem gekk ekki nægilega vel upp. Við auglýstum eftir leikmönnum í norsku blaði og buðum einungis uppá vinnu, húsnæði og fæði. Tugir fyrirspurnir bárust og unnið var úr upplýsingunum frá leikmönnunum og þremur þeirra var boðið hingað í prufu. Þeir voru einfaldlega ekki betri en þeir lekmenn sem eru fyrir hjá félaginu.
Hvernig hefur undirbúningstímabilinu verið háttað?
Eins og fram kom hér að ofan, þá höfum við verið að hlaupa töluvert og svo höfum við haft tvo tíma á viku í reiðhöllinni og einn í íþróttahúsinu. Veðrið hefur oftar en ekki sett strik í reikninginn í vetur og ég hef oft þurft að breyta áætluninni minni varðandi skipulag æfinga. Þetta er bara svona þegar maður býr og norður hjara veraldar og maður þarf bara að sætta sig við aðstæðurnar og reyna að gera það besta hverja sinni. Ég hef ekkert verið að stressa mig á ástandinu og formi leikmanna, þetta er langt mót og flestir leikmenn eru á því róli sem ég vil hafa þá og þeir verða í standi á réttum tíma.
Hver eru markmiðin fyrir sumarið?
Markmiðið er í raun einfalt, að hafa gaman að því sem verið er að gera og leggja sig fram. Ef það næst, þá verða leikmenn betri knattspyrnumenn. Markmiðið fyrir íslandsmótið höldum við fyrir okkur, en að sjálfsögðu er fyrsta markmiðið að tryggja liðinu áframhaldandi sæti í 2. deildinni. Lið eins og Tindastóll á heima í 2. deildinni og þegar liðið hefur fest sig í sessi þar, þá er hægt á góðu ári að stefna uppí 1. deildina. Það er viss uppbygging í gangi hjá félaginu og stefnan að framleiða leikmenn í heimabyggð sem sóma sér í meistaraflokki félagsins.
Hver er helsti styrkleiki ykkar?
Helsti styrkleikur okkar myndi ég segja að væri hvað hópurinn er samrýmdur og hvað leikmenn þekkjast vel. 80-90 % af leikmannahópnum eru frá Króknum og liðið er með mjög góða blöndu af leikmönnum. Margir ungir og efnilegir og svo nokkrir gamlir refir með gífurlega reynslu. Svo er það styrkleiki að mínu mati að það er enginn einn eða tveir sem liðið þarf að treysta á. Við erum með mjög jafna leikmenn hvað getu varðar og það verður erfitt en skemmtilegt viðfangsefni fyrir mig að þurfa að velja byrjunarliðið og hópinn fyrir hvern leik. Svo erum við með sterka og áhugasama stjórn á bak við okkur sem hjálpar alltaf til.
Ætlar þú að leika áfram með liðinu líkt og í fyrra?
Ef ég get gert eitthvað gagn fyrir liðið, þá getur vel verið að ég spili einhverjar mínútur. Ég reyni að vera með á æfingum og halda mér í smá formi, en aldurinn er farinn að segja til sín og ef að drengirnir halda mér útúr liðinu og ég spila ekkert meira þá er það hið besta mál. Þetta er bara svo rosalega skemmtilegt ennþá og svo á ég mjög svo skilningsríka konu, þannig að hvers vegna að hætta ef maður getur potað inn einu og einu marki. Annars er fótboltinn farinn að taka allt of mikinn tíma frá laxveiðinni :)
Ertu sáttur við spilamennsku og árangur liðsins í æfingaleikjum og Lengjubikarnum?
Bæði já og nei. Ég hef aldrei náð að stilla upp sterkasta liðinu sem er neikvætt. Það jákvæða við leikina er að margir hafa fengið séns í leikjunum og sérstaklega þeir ungu öðlast góða reynslu. Ég legg aldrei mikla áherslu á deildarbikarinn eða æfingaleikina. Þessa leiki nota ég til að brjóta upp æfingarnar yfir veturinn og komast í smá bolta og hef því reynt að gefa sem flestum séns.
Er einhver leikmaður úr liði ykkar sem þú telur að eigi eftir að springa út í sumar?
Það er alltaf einhver sem springur út á hverju sumri og í mínum huga koma margir til greina sem segir mér að ég sé með frambærilegt lið í höndunum. Nokkrir leikmenn hjá mér eru á besta aldri og stefna hærra en 2. deildina og nú er tækifæri fyrir þá að sanna sig ef þeir ætla sér hærra. Efnilegir leikmenn verða að stefna að því að verða góðir og gömlu refirnir eru komnir á síðasta snúning, þannig að það koma margir til greina.
Hvaða lið telur þú sigurstranglegast í 2.deildinni í sumar?
Ég hef lítið séð til annarra liða en ef ég á að skjóta á eitthvað, þá held ég að deildin muni skiptast í tvo hópa. Liðin sem munu berjast í toppnum eru, Víðir-Hvöt-Reynir-ÍR-Afturelding og Höttur. Í neðri hlutanum verði svo Tindastóll-Völsungur-Magni-Grótta-Hamar og ÍH. Svo eru alltaf einhverjir sem koma á óvart og aðrir sem standa ekki undir væntingum. Í heildina held ég að deildin verði jöfn og ekkert lið mun stinga af né sitja eftir. Spenna fram á síðustu umferð, er það ekki það sem við viljum.
Eitthvað að lokum?
Vona bara að það verði leikinn skemmtileg knattspyrna í 2. deildinni í sumar og að sem flestir mæti á völlinn til að styðja sitt lið. Við hjá Tindastól hlökkum til sumarsins. Áfram Tindastóll.
Eldra úr liðnum hvað er að frétta?
1.deild:
KS/Leiftur(3.apríl)
Njarðvík (13.mars)
2.deild:
Hvöt (27.mars)
Völsungur (6.mars)
3.deild:
Berserkir (8.apríl)
Knattspyrnufélag Garðabæjar (19.mars)
Athugasemdir